Ársreikningur Fjarðabyggðar 2022


Ársreikningur Fjarðabyggðar 2022 tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn

Miðvikudaginn 29. mars 2023 fer fram fyrri umræða bæjarstjórn Fjarðabyggðar um ársreikning bæjarfélagsins fyrir árið 2022. Ársreikningurinn hefur verið áritaður af bæjarráði og bæjarstjóra, en samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í bæjarstjórn. Áformað er að ársreikningurinn verði afgreiddur við síðari umræðu í bæjarstjórn þann 13. apríl næstkomandi.

Rekstrartekjur samstæðu A og B hluta sveitarfélagsins námu samtals 9.443 milljónir króna, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 7.560 milljónir króna. Til samanburðar voru rekstrartekjur samstæðu 8.908 milljónir króna árið 2021. Rekstrartekjur samstæðu hækkuðu um 6% á milli ára. Rekstrargjöld, án afskrifta, í samstæðu A og B hluta námu 8.198 milljónum króna og þar af voru rekstrargjöld í A hluta 7.189 milljónir króna.

Rekstrarniðurstaða (EBITDA), án afskrifta, fjármagnsliða og tekjuskatts, hjá samstæðu A og B hluta var jákvæð sem nam 1.245 milljónir króna á árinu. Þar af var rekstrarniðurstaða í A hluta jákvæð um 371 milljónir króna. Framlegð eða EBITDA nam 13,2% hjá samstæðu og 4,9% í A hluta. Rekstrarniðurstaða fyrir bæði A hluta og AB hluta litast af verðbólgu og hækkun lífeyrisskuldbindinga. Í rekstrinum eru gjaldfærðar fjármunatekjur og fjármagnsgjöld að fjárhæð 603 milljónir króna hjá samstæðu og 454 milljónir króna í A hluta. Gjaldfærslan í samstæðu A og B hluta er 225 milljón krónum hærri en á fyrra ári og 393 milljón krónum hærri fjárhæð en áætlun ársins gerði ráð fyrir.

Við samanburð á ársreikningnum á milli áranna 2022 og 2021 í samstæðu þarf að taka tillit til að hjúkrunarheimili Fjarðabyggðar voru yfirtekin í maí á árinu 2021 af ríkissjóði.   Breyting varð á reglugerð 12/2015 um ársreikninga sveitarfélaga sem tók gildi árið 2021 og hjá Fjarðabyggð var það metið svo að ein samrekstrareining falli undir breytingu á reglugerðinni, þar sem gert er að færa, inn í samantekin reikningsskil, hlutdeild í byggðasamlögum sem falla undir ábyrgð sveitarfélags. Hjá Fjarðabyggð er það Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) sem fellur undir þetta ákvæði og fært þannig í ársreikningi 2022, samanburðarfjárhæðir hafa verið endurgerðar til samræmis.

Fjárfestingahreyfingar í samstæðu A og B hluta námu samtals 1.126 milljónum króna á árinu 2022 samanborið við 921 milljón króna árið áður. Helstu fjárfestingar ársins voru vegna hafnar- og íþrótta- og skólamannvirkja auk vatnsveitu. Söluverð rekstrarfjármuna og íbúðarhúsnæðis nam um 141 milljónum króna á árinu samanborið við 306 milljónir króna 2021.

Afborganir langtímalána og leiguskuldbindinga námu 614 milljónum króna á árinu 2022. Lántökur ársins námu um 355 millj. kr. Handbært fé lækkaði á árinu um 166 milljónir króna og nam 130 milljónir króna kr. í árslok 2022.

Eignir sveitarfélagsins voru í lok árs 2022 samtals að fjárhæð 17.868 milljónir króna þar af námu fastafjármunir 16.713 milljónir króna.    Heildarskuldir og skuldbindingar námu um 10.965 milljónum króna og hækkuðu á milli ára um 670 milljónir króna. Langtímaskuldir við lánastofnanir og leiguskuldir námu um 5.427 milljónir króna, skammtímaskuldir 2.028 milljónum króna og   lifeyrisskuldbinding og aðrar skuldbindingar námu um 3.510 milljónum króna.  

Eigið fé samstæðu var 6.904 milljónir króna. kr. í árslok 2022 samanborið við 6.529 milljónir kr. í árslok 2021. Breytingin á eigin fé skýrist af rekstrarniðurstöðu ársins og endurmati lóða.

Nánari upplýsingar veita Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri og Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.

Viðhengi



Anhänge

Ársreikningur Fjarðabyggðar 2022_fyrri umræða_signed