Hagar hf.: Sterkur rekstur í krefjandi umhverfi


Uppgjör Haga hf. á 4. ársfjórðungi og ársuppgjör 2022/23

Ársreikningur Haga hf. fyrir rekstrarárið 2022/23 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 27. apríl 2023. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2022 til 28. febrúar 2023. Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og viðeigandi ákvæði laga um ársreikninga. Endurskoðendur félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun.

Helstu lykiltölur

  • Vörusala 4F nam 40.160 m.kr. (13,8% vöxtur frá 4F 2021/22). Vörusala 12M nam 161.992 m.kr. (19,3% vöxtur frá 12M 2021/22). [4F 2021/22: 35.288 m.kr., 12M 2021/22: 135.758 m.kr.]
  • Framlegð 4F nam 7.739 m.kr. (19,3%) og 30.987 m.kr. (19,1%) fyrir 12M. [4F 2021/22: 7.292 m.kr. (20,7%), 12M 2021/22: 28.441 m.kr. (20,9%)]
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 4F nam 2.406 m.kr. eða 6,0% af veltu. EBITDA 12M nam 12.041 m.kr. eða 7,4% af veltu. [4F 2021/22: 2.442 m.kr. (6,9%), 12M 2021/22: 10.518 m.kr. (7,7%)]
  • Hagnaður 4F nam 735 m.kr. eða 1,8% af veltu. Hagnaður 12M nam 4.949 m.kr. eða 3,1% af veltu. [4F 2021/22: 724 m.kr. (2,1%), 12M 2021/22: 4.001 m.kr. (2,9%)]
  • Grunnhagnaður á hlut 4F var 0,66 kr. og 4,40 kr. fyrir 12M. [4F 2021/22: 0,63 kr., 12M 2021/22: 3,47 kr.]. Þynntur hagnaður á hlut 4F var 0,65 kr. og 4,32 kr. fyrir 12M. [4F 2021/22: 0,61 kr., 12M 2021/22: 3,43 kr.]
  • Eigið fé nam 27.931 m.kr. í lok rekstrarárs og eiginfjárhlutfall 38,8%. [Árslok 2021/22: 26.726 m.kr. og 41,0%]
  • Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2022/23 gerði ráð fyrir að EBITDA yrði 10.200-10.700 m.kr., án áhrifa vegna viðskipta með Klasa og endurgreiðslu flutningsjöfnunarsjóðs. Áhrif einskiptisliða á EBITDA félagsins námu um 1.417 m.kr.


Helstu fréttir af starfsemi

  • Töluverð veltuaukning (13,8%) á 4F miðað við sama tímabil í fyrra. Jólaverslun gekk vel, þrátt fyrir mikla aukningu í utanlandsferðum landans.
  • Seldum stykkjum í dagvöruverslunum á 4F fjölgar milli ára og heimsóknum viðskiptavina fjölgar mikið í samanburði við fyrra ár. Seldum eldsneytislítrum á 4F fækkar töluvert vegna samdráttar í sölu til stórnotenda. Seldum lítrum í smásölu fjölgar hins vegar á milli ára. 
  • Framlegð 4F í krónum eykst um 6,1% milli ára en framlegðarhlutfallið lækkar um 1,4%-stig. Lækkað framlegðarhlutfall til komið vegna hærra heimsmarkaðsverðs á olíu og lægra framlegðar-hlutfalls í dagvörusölu.
  • Verð aðfanga hækkaði töluvert á fjórðungnum, líkt og þróunin hefur verið undanfarin misseri. Sérstök áhersla á að sporna við hækkandi vöruverði til viðskiptavina, m.a. með aukinni hagkvæmni í rekstri og innkaupum. Framlegðar­hlutfall í dagvöru hefur lækkað og eru lágvöruverðsverslanir Bónus fremstar í baráttu gegn verðbólgu í matvöru á Íslandi.
  • Í janúar 2023 náðu Hagar samkomulagi við eigendur Dista ehf. um kaup Haga á öllu hlutafé Dista. Kaupin eru gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki Samkeppnis-eftirlitsins.
  • Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2023/24 gerir ráð fyrir að EBITDA verði 11.000-11.500 m.kr. sem er að teknu tilliti til einskiptisliða 2022/23 nokkuð umfram afkomu síðastliðins rekstrarárs.
  • Fjárfestingaráætlun 2023/24 nemur 5.000-5.500 m.kr. en stærsta einstaka fjárfestingin er kaup á fasteign við Norðlingabraut 2 í Reykjavík sem mun hýsa nýja Bónusverslun, ásamt annarri starfsemi.


Finnur Oddsson, forstjóri:

Starfsemi Haga á síðasta fjórðungi rekstrarársins 2022/23 gekk vel, sérstaklega þegar horft er til þess að rekstrarumhverfi í smásölu hefur sjaldan verið meira krefjandi. Fjórðungurinn, eins og reyndar árið í heild, einkenndist af miklum hækkunum á aðfanga- og vöruverði, sem aftur má rekja til óróa á heimsmarkaði með hrávöru og eldsneyti vegna stríðs í Úkraínu og eftirstöðva Covid faraldurs. Þessar hækkanir skýra að stórum hluta áframhaldandi tekjuaukningu, en vörusala nam 40,2 ma. kr. og jókst um 14% miðað við sama tímabil á fyrra ári. Framlegð í krónum talið jókst um 6% en framlegðarhlutfall lækkar líkt og síðustu fjórðunga, nú um 1,4%-stig. Afkoma fjórðungsins var svipuð og á sama tímabili í fyrra, en EBITDA nam 2.406 m.kr. og hagnaður 735 m.kr.

Þessi niðurstaða ársfjórðungsins rekur smiðshögg á ágætt rekstrarár Haga þar sem tekjur jukust um ríflega 19% og námu 162 ma. kr. EBITDA ársins, að meðtöldum einskiptisliðum að upphæð 1.417 m.kr., nam rúmum 12 ma. kr. eða 7,4% af veltu og hagnaður 4.949 m.kr. eða 3,1% af veltu. Heilt yfir erum við sátt með rekstur félagsins á síðasta rekstrarári og ekki síður þeim áföngum sem náðst hafa og er ætlað að styrkja rekstur samstæðu Haga til framtíðar.

Þegar horft er til þátta í starfsemi félagsins, þá er áfram töluverður vöxtur í sölu á dagvöru, ríflega 11% á fjórðungnum. Þessi tekjuaukning skýrist annars vegar af miklum verðhækkunum frá framleiðendum og heildsölum og hins vegar af aukningu í seldu magni og fleiri heimsóknum viðskiptavina, sérstaklega í Bónus. Í starfsemi Bónus er ljóst að bæði nýjar og gamlar áherslur mælast vel fyrir hjá viðskiptavinum, sem fagna lengri opnunartíma verslana, einfaldleika, góðu aðgengi og ekki síst grunngildi Bónus þar sem ávallt er leitast við að bjóða upp á hagkvæmustu matvörukörfu landsins. Við það loforð hefur verið staðið í meira en 30 ár og á Bónus stóran þátt í að verðbólga í matvöru á Íslandi er ekki hærri en raun ber vitni, en hún var á síðasta fjórðungi ein sú lægsta í Evrópu og sú lægsta á Norðurlöndunum. Hagkaup átti ágætan fjórðung, enda sérstaklega vinsæl jólaverslun og eru viðskiptavinir að taka vel í breytingar á búðum og nýjungar í vöruframboði. Tekjur jukust um ríflega 5% en í samanburði við fyrri ár munar um að töluvert fleiri landsmenn leituðu utan yfir hátíðirnar.

Allt síðasta rekstrarár, ekki síst á fjórða árshluta, hefur dagvöruverslun markast af veikingu gengis krónu og fordæmalausum verðhækkunum frá birgjum. Þannig hefur framlegð verið undir þrýstingi og þó hún aukist í krónum talið vegna hærri veltu, þá hefur framlegðarhlutfall farið lækkandi. Með öðrum orðum, þá hefur kostnaðarverðshækkunum ekki verið fleytt af fullum þunga út í vöruverð, sem telja má mikilvægt framlag verslana Haga í baráttu við verðbólgu.

Tekjur Olís jukust áfram á síðasta fjórðungi ársins, um 13%, og námu 11,9 ma. kr., en þar sem selt magn dregst saman má aðallega rekja tekjuaukningu til hækkunar á heimsmarkaðsverði olíu sem einkennt hefur rekstur félagsins allt frá byrjun rekstrarárs 2022/23. Eldsneytissala á smásölumarkaði jókst í lítrum talið og þurrvörusala sömuleiðis, en talsvert dró úr umsvifum stórnotenda, enda voru þau óvenju mikil á sama tíma í fyrra. Rekstrarafkoma á fjórðungnum var heldur betri en árið á undan og í línu við sterkt ár í rekstri Olís þar sem afkoma var góð. Þessa ánægjulegu niðurstöðu má einkum rekja til fjögurra þátta. Í fyrsta lagi sjáum við nú áþreifanlega afrakstur breyttra áherslna í rekstri og árangursríkrar hagræðingarvinnu síðustu missera. Þar ber hæst hagræðing og vel heppnuð uppfærsla á þjónustustöðvum Olís og einföldun á sölu- og aðfangaskipulagi gagnvart stórnotendum. Hvoru tveggja hafði það að markmiði að búa félagið undir fyrirsjáanlegan samdrátt í olíusölu vegna áhrifa orkuskipta. Í öðru lagi var eftirspurn á liðnu ári sterk, með miklum umsvifum stórnotenda og aukningu í smásölu samhliða fjölgun ferðamanna. Í þriðja lagi hefur virk birgðastýring á stórnotendahlið eldsneytissölu samhliða hækkunum á heimsmarkaðsverði skilað sterkari framlegð á tímabilinu. Í fjórða lagi höfðu einskiptisliðir töluverð jákvæð áhrif á afkomu á þriðja fjórðungi, m.a. þegar til féll söluhagnaður eigna tengt kaupum Haga á hlut í fasteignaþróunarfélaginu Klasa.

Á síðasta rekstrarári höfum við séð ávinning af nýjum áherslum hjá Högum raungerast í starfsemi félagsins og hafa jákvæð áhrif á rekstur, með betri þjónustu við viðskiptavini, nýjum tekjustraumum og áhugaverðum tækifærum til framtíðar. Í þessu sambandi má nefna að stafræn vegferð hjá Högum hefur bæði tryggt betur grunnrekstur upplýsingakerfa og eflt um leið þjónustu við viðskiptavini, m.a. í formi netverslana fyrir Hagkaup og Stórkaup sem þjóna viðskiptavinum hvenær sem er og hvar sem er á landinu. Eldum rétt varð svo hluti af samstæðu Haga í nóvember 2022 en kaupin eru liður í viðleitni Haga til að bregðast við breyttum þörfum viðskiptavina, með aukinni áherslu á hollar, einfaldar og tímasparandi lausnir þar sem matarsóun er í lágmarki. Eldum rétt hakar í alla þessa reiti og við finnum fyrir síaukinni eftirspurn eftir þjónustu félagsins, fyrst og fremst með áskrift í netverslun og núna nýlega í sölu stakra rétta í Hagkaup. Í dag telst okkur til að Eldum rétt sé ein stærsta netverslun landsins með matvöru.

Á árinu var þróunar- og fasteignaverkefnum Haga komið í farsælan farveg hjá Klasa sem Hagar eiga nú í þriðjungs hlut. Markmiðið er að flýta fyrir verðmætasköpun á grunni þróunareigna samstæðunnar, skapa ný tækifæri sem tengjast öðrum eignum Klasa og gera stjórnendum Haga kleift að einbeita sér fyrst og fremst að kjarnarekstri í dagvöru og eldsneyti. Framundan eru spennandi verkefni við uppbyggingu eigna Klasa þar sem vænt byggingarmagn verður ríflega 300.000 m2 og þar af allt að 1.500 íbúðir. Þá hefur töluverð vinna verið lögð í að styrkja innviði Aðfanga og Banana, með umbótum í gæðaferlum, vöruþróun, upplýsingatækni og stækkun vöruhúsa. Þessar einingar Haga mynda mikilvægt bakbein aðfanga- og dreifinets Haga sem hagkvæmur rekstur verslana okkar byggir á. Með stofnun Stórkaups hafa þessir sterku aðfangainnviðir Haga verið nýttir enn betur, nú til að þjóna hótel- og veitingamarkaði og öðrum stórnotendum fyrir rekstrar- og matvöru. Að lokum má nefna að góður árangur hefur náðst í að styrkja jákvætt samfélagsspor Haga, en þar hefur áhersla verið á að skerpa á frammistöðu í umhverfis og sjálfbærnimálum, m.a. með aukinni flokkun og nýtingu umhverfisvænna kælimiðla í verslunum, stuðningi við frumkvöðlastarf í matvælaframleiðslu og önnur góð málefni.

Á síðasta rekstrarári má segja að hafi skapast aðstæður sem eru bæði óvenjulegar og ögrandi fyrir allan verslunarrekstur. Veiking krónu og mjög miklar hækkanir á verði innlendra og erlendra aðfanga ýttu upp vöruverði á sama tíma og rekstrarkostnaður jókst mikið, bæði vegna launahækkana og almennra kostnaðarhækkana. Þessi blanda er hvorki góð fyrir neytendur né fyrirtæki í verslun því óhjákvæmilegt er að verðlag til neytenda hækki á sama tíma og framlegðarhlutfall í rekstri er undir þrýstingi. Í þessu samhengi getum við ekki annað en verið sátt við rekstur Haga á síðastliðnu ári. Staða félagsins er sterk, bæði fjárhagslega og á markaði. Við búum að reynslumiklu starfsfólki sem stöðugt leitar leiða til að hagræða í innkaupum og rekstri svo draga megi sem mest úr þörf á verðhækkunum til viðskiptavina og þannig vinna gegn hækkandi verðbólgu. Þetta var mikilvægasta verkefni okkar á síðasta ári og verður áfram á því næsta.

Afkomuspá stjórnenda gerir ráð fyrir að EBITDA samstæðunnar á rekstrarárinu 2023/24 verði á bilinu 11.000-11.500 m.kr.


Kynningarfundur föstudaginn 28. apríl 2023

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn á Nauthól, Nauthólsvegi 106 í Reykjavík, föstudaginn 28. apríl kl. 8:30. Þar munu Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, kynna rekstur og afkomu félagsins ásamt því að svara fyrirspurnum.

Fundinum verður auk þess varpað í gegnum netið hér: https://www.hagar.is/skraning.

Kynningargögn verða aðgengileg á heimasíðu Haga, www.hagar.is, við upphaf fundar.


Frekari upplýsingar um uppgjörið má finna í meðfylgjandi fréttatilkynningu og ársreikningi.

Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson, forstjóri félagsins (fo@hagar.is) og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs (geg@hagar.is), í síma 530-5500 eða tölvupósti.



Viðhengi



Anhänge

635400TICHH43JJTNP54-2023-02-28-is 635400TICHH43JJTNP54-2023-02-28-is.zip-viewer Hagar Ársreikningur 28 2 2023 ísl Fréttatilkynning Hagar 4F 2022-23