Stjórnir Reita fasteignafélags hf. og Eikar fasteignafélags hf. ákváðu á fundum sínum í dag að hefja viðræður um mögulegan samruna fasteignafélaganna tveggja.


Á fundum stjórna fasteignafélaganna Eikar og Reita sem haldnir voru í dag var samþykkt að ganga til viðræðna um mögulega sameiningu félaganna og hafa félögin ráðið sér ráðgjafa til að vinna að úttektum og áætlun þar um.

Þessi ákvörðun á sér nokkurn aðdraganda, án þess að það hafi leitt til viðræðna, þar sem innan beggja félaga hefur á liðnum misserum verið litið til þessa möguleika og því verið velt upp að í honum gætu falist tækifæri til áhugaverðra umbreytinga og meiri sérhæfingar en nú er.  Við blasir að sameining er til þess fallin að bæta rekstrarárangur og auka arðsemi, svo sameinað félag geti verið skýr valkostur þeirra sem vilja njóta reglulegra arðgreiðslna af fjárfestingum sínum.  Þá halda bæði félögin á umtalsverðum þróunareignum sem eru á mismunandi stigum og henta til mismunandi nota, m.a. til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis. Ljóst þykir að skarpari áhersla og skýrari umgjörð um uppbyggingu og nýtingu þeirra og meira gagnsæi hvað varðar áhættur, tækifæri og framvindu, sé til þess fallin að mæta væntingum fjárfesta og lánveitenda um aukið gagnsæi. 

Nýlegir atburðir stuðluðu að því að stjórn Eikar kannaði hvort grundvöllur væri fyrir viðræðum við stjórn Reita um mögulegan samruna sem væri hluthöfum hagfelldari en fyrirhugað yfirtökutilboð. Í ljósi almenns vilja hluthafa beggja félaga að ná fram aukinni rekstrarhagkvæmni og að lokum í ljósi þess að ekki virðist nægjanlegur stuðningur við aðrar hugmyndir að stærri sameiningu á fasteignamarkaði varð niðurstaðan sú að taka upp formlegar viðræður milli stjórna félaganna.

Samrunaviðræðunum er ætlað að gefa stjórnum Reita og Eikar svigrúm til að greina eignasöfn beggja félaga, heppilega umgjörð viðskipta og skipulag sameinaðs félags. Jafnframt að  greina samlegðaráhrif og hámarka þá virðisaukningu sem væntingar standa til að af samruna leiði.  Félögin munu, sem lið í þessu ferli, hefja samtal við samkeppnisyfirvöld til þess þegar á frumstigum að leita leiðsagnar um viðmið sem samkeppnisyfirvöld áforma að líta til við mat á því, hvort líklegt sé að þau telji sig þurfa að setja samrunanum skilyrði til að tryggja að eðlileg samkeppni verði áfram á viðeigandi mörkuðum. 

Áherslur félaganna hafa um sumt verið á mismunandi eignaflokka og svæði sem til þess er fallið að draga úr neikvæðum áhrifum í þessu samhengi. Félögin áforma að endurmeta samsetningu sameinaðs eignasafns og mögulega selja frá sér eignir, m.a. til að fyrirbyggja neikvæð samkeppnisleg áhrif. Þá verður í viðræðunum lögð áhersla á mat á því hvaða umgjörð henti best fyrir nýtingu þróunareigna félaganna og hvernig hámarka megi verðmæti þeirra eigna.

Stjórnir félaganna telja umtalsverð tækifæri felast í sameiningu þeirra og að samlegðaráhrifin birtist einkum í aukinni rekstrarhagkvæmni, aukinni sérhæfingu, bættri þjónustu við krefjandi markaði og hraðari tekjumyndun af uppbyggingu þróunareigna. Loks telja stjórnir félaganna að stærra, sérhæfðara og arðsamara félag sé líklegt til að eiga betri og fjölbreyttari kosti um fjármögnun og höfða til breiðari hóps fjárfesta, innlendra sem erlendra.

Upplýsingar veita:

Þórarinn V. Þórarinsson, stjórnarformaður Reita fasteignafélags, tvt@advocatus.is, s. 822-6699
Bjarni K. Þorvarðarson, stjórnarformaður Eikar fasteignafélags, bjarnith@live.com, s. 820-5080