Kaldalón hf. hefur gert nýja samninga við Landsbankann hf. og Fossa fjárfestingarbanka hf. um viðskiptavakt á útgefnum hlutabréfum í Kaldalón hf. sem verða skráð á Aðalmarkað Nasdaq Iceland þann 16. nóvember næstkomandi.
Tilgangur samninga um viðskiptavaktir er að efla viðskipti með hlutabréf félagsins á Nasdaq Iceland með það að markmiði að seljanleiki hlutabréfa Kaldalóns aukist, markaðsvirði skapist og verðmyndum hlutabréfanna verði með gagnsæjum og sem skilvirkustum hætti.
Samningur við Fossa fjárfestingarbanka kveður á um að hvert kaup- og sölutilboð skal vera að lágmarki 8 milljónir íslenskar krónur að markaðsvirði á hverjum tíma, á gengi sem Fossar fjárfestingarbanki ákveður. Slíkt tilboð skal þó ekki hafa meira en 3,0% frávik frá síðasta viðskiptaverði hluta í Kauphöllinni. Eigi Fossar fjárfestingarbanki viðskipti með hluti Kaldalóns hf. innan sama viðskiptadags sem nema samtals 40.000.000 kr. að markaðsvirði eða meira, falla niður skyldur Fossa um hámarksmun kaup- og sölutilboða innan þess dags. Verðbil kaup- og sölutilboða verður sem næst 1,5%, með tilliti til verðskrefatöflu Kauphallarinnar, en ef verðbreyting innan viðskiptadags er umfram 5,0% skal heimilt að auka hámarksverðbil í 3,0%.
Samningur við Landsbankann kveður á um að kaup- og sölutilboð skal vera að lágmarki 8 milljónir íslenskar krónur að markaðsvirði. Hámarksmagn á hverjum degi er 16 milljónir króna nettó markaðsvirði sem reiknast sem mismunur á þeim kaup- og sölutilboðum sem gengið er að. Magnbundið hámarksverðbil milli kaup- og sölutilboða ákvarðast af 10 daga flökti verðs hlutabréfa Kaldalóns hf. Ef 10 daga flökt er undir 30% er magnvegið verðbil 2,0% en annars 4,0%. Þá er markmið aðila, en ekki skylda, að kaup- og sölutilboðum sé þrepaskipt þannig að hluti tilboðsbókar sé á þrengra verðbili en magnvegið verðbil gefur til kynna og hluti á víðara verðbili þannig að ofangreindu magnvegnu verðbili sé náð.
Samningar taka gildi frá og með skráningu félagsins á aðalmarkað, 16. nóvember n.k. og eru ótímabundnir. Samningsaðilum er heimilt að segja þeim upp með 14 daga fyrirvara. Samningum við núverandi viðskiptavaka hefur verið sagt upp með 14 daga fyrirvara skv. samningum.
Frekari upplýsingar veita:
Jón Þór Gunnarsson, forstjóri
kaldalon@kaldalon.is