Föstudaginn 8. desember sl. hélt ÍL-sjóður skiptiútboð þar sem eigendum íbúðabréfaflokkanna HFF34 og HFF44 gafst möguleiki á að skipta bréfunum út fyrir ríkisskuldabréf í eigu ÍL-sjóðs. Góð þátttaka var í útboðinu. Samtals var skipt á bréfum að markaðsvirði 38 ma.kr. Umframeftirspurn eftir HFF34 reyndist 8 ma.kr. þar sem tilboð hljóðuðu upp á 28 ma.kr. en eign sjóðsins í RIKS30 var 20 ma.kr. Öllum tilboðum í HFF44 var tekið eða 18 ma.kr. á móti RIKS33.
Með útboðinu lækkar höfuðstóll skulda ÍL-sjóðs um 38 ma.kr. sem samsvara um 5,4% af heildarskuldum, sem í dag eru 670 ma.kr. með áföllnum vöxtum og verðbótum. Lækkun skulda dregur jafnframt úr neikvæðum vaxtamun sjóðsins og þar með framtíðartapi.
Þátttaka í útboðinu dreifist á alla flokka eigenda. Í fjárhæðum voru viðskipti mest hjá rekstrarfélögum verðbréfasjóða eða 55% af útboðinu, sem nemur um 21 ma.kr. að markaðsvirði. Sjóðirnir lækkuðu með því hlutdeild sína í skuldum ÍL-sjóðs umtalsvert og eiga nú rétt um 1% af heildarskuldum. Þar á eftir komu lífeyrissjóðir með 12% af útboðinu, sem nemur um 4,6 ma.kr. að markaðsvirði, en þrátt fyrir það hækkar hlutdeild lífeyrissjóða í heildarskuldum ÍL-sjóðs úr tæplega 91% í rúm 95%.
Í febrúar á nýju ári er síðasta afborgun af HFF24 flokknum. Þegar hún er afstaðin munu lífeyrissjóðir eiga rúmlega 96% af heildarskuldum sjóðsins eða um 638 ma.kr. Aðrir flokkar eigenda munu eiga tæplega 4% eða 25 ma.kr. Þar af eru tryggingarfélög og -sjóðir stærst með rúma 12 ma.kr. og næst á eftir rekstrarfélög verðbréfasjóða með tæpa 5 ma.kr.
Líkt og áður hefur komið fram er til skoðunar að efna til frekari skiptiútboða á fyrstu vikum næsta árs og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband við vörsluaðila bréfanna um frekari leiðbeiningar vegna þátttöku í útboði.