Sjóvá – Ársuppgjör 2023



Helstu niðurstöður úr ársuppgjöri Sjóvá-Almennra trygginga hf. fyrir árið 2023

4.626 m.kr. hagnaður og samsett hlutfall 94,6% á árinu 2023

Fjórði ársfjórðungur 2023

  • Hagnaður af vátryggingasamningum fyrir skatta 699 m.kr. (4F 2022: 675 m.kr.)
  • Hagnaður af fjárfestingastarfsemi fyrir skatta 1.890 m.kr. (4F 2022: 989 m.kr.)
  • Hagnaður tímabilsins 2.321 m.kr. (4F 2022: 1.483 m.kr.)
  • Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu 4,4% (4F 2022: 2,0%)
  • Samsett hlutfall 91,3% (4F 2022: 90,9%)

Árið 2023 og horfur fyrir árið 2024

  • Hagnaður af vátryggingasamningum fyrir skatta 1.695 m.kr. (12M 2022: 1.522 m.kr.)
  • Hagnaður af fjárfestingastarfsemi fyrir skatta 3.606 m.kr. (12M 2022: 1.526 m.kr.)
  • Hagnaður tímabilsins 4.626 m.kr. (12M 2022: 2.650 m.kr.)
  • Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu 9,0% (12M 2022: 3,5%)
  • Samsett hlutfall 94,6% (12M 2022: 94,6%)
  • Horfur fyrir árið 2024 gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingasamningum verði um 1.100-1.600 m.kr. og samsett hlutfall 95-97%
    • Ekki verða birtar horfur fyrir afkomu af fjárfestingastarfsemi en áætlanir félagsins gera ráð fyrir að ávöxtun fjárfestingaeigna í stýringu nemi 9,0% á ári til lengri tíma miðað við núverandi vaxtastig og fjárfestingastefnu. Þá má ætla að áhrif áfallinna vaxta (vöxtunar) vátryggingaskuldar verði neikvæð um 1.600-1.800 m.kr. miðað við óbreytt vaxtastig og stærð vátryggingaskuldarinnar
    • Ekki verður upplýst um frávik frá afkomu af fjárfestingastarfsemi nema þær verði raktar til breytinga á óskráðum eignum eða verulegra breytinga á eignasafni

Hermann Björnsson, forstjóri:

Rekstrarniðurstöður fyrir árið 2023 endurspegla sterkan grunnrekstur og góða afkomu af fjárfestingastarfsemi en heildarhagnaður nam 4.626 m.kr. og samsett hlutfall var 94,6%. Hagnaður af vátryggingarekstri fyrir skatta nam 1.695 m.kr. og afkoma af fjárfestingastarfsemi nam 4.500 m.kr. fyrir fjármagnsliði og skatta. Þar af nam söluhagnaður af eignarhlut Sjóvár í Kerecis 1.260 m.kr.  
Afkoma á fjórða ársfjórðungi nam 2.321 m.kr. Afkoma af vátryggingasamningum fyrir skatta nam 699 m.kr. og 91,3% samsett hlutfall. Skýrist þessi niðurstaða m.a. af góðum tekjuvexti sem nam 7,5% á milli ára og einstaklega góðu tíðarfari. Afkoma af fjárfestingastarfsemi fyrir fjármagnsliði og skatta var einnig góð eða 2.368 m.kr. og var ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu 4,4%. 
Afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir árið 2023 verður að teljast afar góð þegar haft er í huga að nokkur stærri tjón féllu til á árinu. Góður tekjuvöxtur skýrist af miklum metnaði í þjónustu, þéttriðnu útibúaneti ásamt góðum stafrænum lausnum sem efla okkar þjónustustig enn frekar. 
Tekjuvöxtur nam 11,6% á árinu og styður sterk staða og ímynd félagsins við vöxtinn auk þess sem aukin umsvif í atvinnulífinu, einkum í ferðaþjónustunni, birtast í auknum iðgjöldum. En samhliða auknum umsvifum er tjónakostnaður að aukast umfram tekjur af vátryggingasamingum sem kallar á enn frekari greiningu tilvika og eftir atvikum skýrari aðgerðir til forvarna.  

Horfur fyrir árið 2024

Horfur fyrir árið 2024 gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði á bilinu 1.100-1.600 m.kr. og að samsett hlutfall verði á bilinu 95%-97%. Ekki verða birtar horfur fyrir afkomu af fjárfestingastarfsemi en áætlanir félagsins gera ráð fyrir að ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu nemi 9,0% á ári til lengri tíma miðað við núverandi vaxtastig og fjárfestingastefnu. Þá má ætla að áhrif áfallinna vaxta (vöxtunar) vátryggingaskuldar verði neikvæð um 1.600-1.800 m.kr. miðað við óbreytt vaxtastig og stærð vátryggingaskuldarinnar. Ekki verður upplýst um frávik frá afkomu af fjárfestingastarfsemi nema þær verði raktar til breytinga á óskráðum eignum eða verulegra breytinga á fjárfestingastefnu.

Við gerð áætlunar er stuðst við ýmis opinber gögn, t.d. spár um þróun vísitalna, hagvöxt og áætlaðan ferðamannafjölda. Þá er litið til tjónaþróunar undanfarinna ára auk þess sem áætlað er fyrir tveimur til þremur stórtjónum á árinu.

Tillaga stjórnar um arð og ákvörðun um að hefja endurkaup eigin hluta

Arðgreiðslustefna félagsins miðar við að greiða að lágmarki 50% af hagnaði hvers árs til hluthafa í formi arðs að því gefnu að gjaldþol sé innan gjaldþolsviðmiða stjórnar. Samþykkt var á stjórnarfundi í dag að leggja til við hluthafafund að greiða út arð að fjárhæð 2.450 m.kr. eða 2,12 kr. á hlut.

Óskað hefur verið eftir viðeigandi heimild frá Fjármálaeftirlitinu til þess að hefja endurkaup.

Kynningarfundur 8. febrúar kl. 16:15

Markaðsaðilum og fjárfestum er boðið á kynningarfund í fundarsal félagsins í Kringlunni 5, 6. hæð þann 8. febrúar kl. 16:15. Þar munu Hermann Björnsson forstjóri, Sigríður Vala Halldórsdóttir framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni og Þórður Pálsson forstöðumaður fjárfestinga kynna uppgjörið og fara yfir afkomu félagsins. Kynningunni verður jafnframt streymt á slóðinni https://www.sjova.is/um-okkur/fjarfestar/afkomukynning-4f-2023/.

Vilji aðilar bera upp spurningar má senda þær á netfangið fjarfestar@sjova.is fyrir fundinn eða á meðan á fundi stendur og verður þeim svarað í lok kynningarinnar.

Uppgjörsefni verður aðgengilegt á vef Sjóvár www.sjova.is/fjarfestar frá þeim tíma er kynningin hefst og verður upptaka af fundinum aðgengileg á sömu síðu að fundi loknum.

Fjárhagsdagatal

Aðalfundur 2024                       7. mars 2024
1. ársfjórðungur 2024               19. apríl 2024
2. ársfjórðungur 2024                 17. júlí 2024
3. ársfjórðungur 2024         21. október 2024
Ársuppgjör 2024                    6. febrúar 2025
Aðalfundur 2025                       13. mars 2025

Nánari upplýsingar
Meðfylgjandi er fréttatilkynning, ársreikningur samstæðunnar og fjárfestakynning Sjóvá-Almennra trygginga hf. vegna fjórða ársfjórðungs og ársuppgjörs 2023.

Í samræmi við lög birtir Sjóvá ársreikning á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði (e. European Single Electronic Format eða ESEF) og má finna gildandi útgáfu ársreikningsins í meðfylgjandi .zip skrá.

Nánari upplýsingar veitir Davíð Scheving Thorsteinsson í síma 869-8109 eða fjarfestar@sjova.is.



Viðhengi



Anhänge

213800R3IXBON2LBEI63-2023-12-31-is Ársreikningur Sjóvá samstæðunnar árið 2023 Fréttatilkynning Sjóvá - 4F 2023 Sjóvá - Fjárfestakynning - 4F 2023