Ársreikningur Kaldalóns hf. var samþykktur af stjórn félagsins 7. mars 2023.
Afkoma Kaldalóns á árinu 2023 sú besta frá upphafi
- Félagið skilar 3.970 m.kr. í hagnað fyrir skatta
- Arðsemi eiginfjár var 15% á ársgrundvelli
- Fjárfestingareignir félagsins aukast um 38% milli ára
- Tekjuvöxtur leigutekna er 87% milli ára
- Rekstrarhagnaðarhlutfall 80%
- Tækifæri eru í endurfjármögnun félagsins. Um helmingur fjármögnunar félagsins er á óverðtryggðum vöxtum og þrír fjórðu hlutar er á breytilegum vöxtum. Þrátt fyrir það er rekstrarhagnaður hærri en fjármagnsgjöld
Mikilvægir áfangar á árinu
- Fasteignasafn félagsins að teknu tilliti til tilkynntra viðskipta verður um 120 þúsund fermetrar af atvinnuhúsnæði
- Kaldalón var skráð á Aðalmarkað Nasdaq Iceland á árinu samhliða auknum umsvifum
- Félagið gaf út á árinu grunnlýsingu fyrir 30 ma.kr. útgáfuramma og hefur nú aðgengi að markaðsfjármögnun
- Samhliða útgáfuramma félagsins náði félagi samkomulagi við lánveitendur sína um að setja 69% af vaxtaberandi skuldum félagsins undir almennt tryggingafyrirkomulag fyrir lok árs 2023
Helstu atriði uppgjörs eru:
| 2023 | 2022 |
Heildarhagnaður ársins fyrir skatta | 3.970 | 2.611 |
Arðsemi eigin fjár | 15,2% | 16,2% |
Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu | 2.487 | 1.306 |
Rekstrarhagnaðarhlutfall1 | 80,4% | 74,2% |
Matsbreyting á tímabilinu | 3.791 | 2.490 |
Handbært fé í lok árs | 1.830 | 2.277 |
Fjárfestingareignir | 57.585 | 41.711 |
Heildareignir | 60.666 | 45.482 |
Vaxtaberandi skuldir | 29.961 | 19.836 |
Veðsetningarhlutfall | 52,0% | 47,6% |
Eiginfjárhlutfall | 38,3% | 45,5% |
Tekjuvegið útleiguhlutfall í lok árs | 98,6% | 98,9% |
Eigið fé | 23.207 | 20.717 |
Húsaleigutekjur | 3.222 | 1.722 |
1) án einskiptiskostnaður
Allar fjárhæðir eru í milljónum króna nema annað sé tekið fram.
Jón Þór Gunnarsson, forstjóri:
"Ég er stoltur af rekstrarniðurstöðu Kaldalóns ársins 2023 og þeim skrefum sem við tókum til að efla félagið og stækka. Markmiðum félagsins um einfalt viðskiptalíkan og arðbæran vöxt hefur verið náð á grundvelli skýrrar sýnar á fasteignamarkaðinn, sem og á uppbyggingu og þróun félagsins.
Frá miðju ári 2021 hefur Kaldalón þróast hratt og er í dag orðið öflugt fasteignafélag. Á þessu tímabili hefur félagið alltaf skilað jákvæðri afkomu og hagnast í heild um 8,4 milljarða króna fyrir skatta frá umbreytingu. Það er ekki sjálfgefið að við slíka umbreytingu náist markmið um vöxt, rekstrartekjur og aðhald í kostnaði.
Á árinu 2023 var mikil eftirspurn eftir vöru- og iðnaðarhúsnæði og verslunar- og þjónustueignum, en það eru þeir eignaflokkar sem við höfum helst fjárfest í ásamt hótelum. Útleiguhlutfall er hátt og endurspeglar eftirspurnina. Vel hefur gengið að leigja út eignir félagsins sem við þróuðum ástamt framkvæmdaraðilum. Til að mynda hafa öll rými verið leigð út á Einhellu í Hafnarfirði og stærstur hluti rýma í gömlu Kassagerðinni, Köllunarklettsvegi 1 í Reykjavík. Við finnum áfram fyrir mikilli eftirspurn, sem endurspeglast í því að þegar hafa verið undirritaðir leigusamningar um tæplega helming af eignum í byggingu. Afhending þessara eigna er áætluð næsta vetur.
Félagið hefur náð hagkvæmri stærð. Í núverandi mynd má reka vel dreift og arðbært fasteignafélag, sem er skráð og fjármagnað í gegnum íslenska markaðinn. Við teljum hins vegar að við getum aukið hagkvæmni enn frekar með auknum umsvifum og endurfjármögnun til millilangs tíma.
Í samræmi við stefnu félagsins þá er skuldsetning þess hlutfallslega lægri en almennt gerist hjá sambærilegum fasteignafélögum hérlendis. Veðsetningarhlutfall er hins vegar undir markmiðum og félagið því í kjörstöðu til að grípa virðisaukandi tækifæri. Það verður gert.
Í samræmi við mótaða stefnu tryggði Kaldalón aðgang að markaðsfjármögnun. Því hefur verið fylgt eftir með útgáfu víxla og verðtryggðra skuldabréfa. Við höfum trú á því að markaðsfjármögnun muni til lengri tíma lágmarka fjármagnskostnað félagsins. Þessu til viðbótar þá kláraði félagið umgjörð um græna fjármögnun þegar fyrstu fasteignir félagsins voru vottaðar. Í dag er 9% eignasafnsins með alþjóðlega umhverfisvottun.
Skráning Kaldalón á aðalmarkað Nasdaq Iceland var ánægjuleg staðfesting á árangri og stefnumörkun félagsins. Kaldalón nær nú til breiðari hóps fjárfesta og fylgir viðeigandi kröfum í hvívetna.
Ég tel langtímahorfur Kaldalóns og íslensks atvinnulífs góðar þótt vaxtaumhverfi undanfarna missera hafi óneitanlega sett mark sitt á umhverfið. Stækkandi eignasafn mun halda áfram að leysa þarfir íslensks atvinnulífs.
Árangur og afkoma ársins er mjög góð í núverandi starfsumhverfi. Kaldalón á umtalsvert inni og mun sýna það þegar fasteignir á efnahag verða að fullu tekjuberandi, en einungis 65% fjárfestingareigna félagsins voru að fullu tekjuberandi allt árið 2023."
Ársreikningur 2023
Skýrsla stjórnar og forstjóra félagsins er að finna í ársreikningi félagsins. Ársreikningurinn er gerður í samræmi við reikningsskilastaðla (IFRS). Ársreikningurinn er endurskoðaður af PricewaterhouseCoopers ehf. Áritun er án fyrirvara.
Kynning á ársuppgjöri
Samhliða uppgjörinu er boðað til kynningarfundar föstudaginn 8. mars kl. 08:30 á Grand Hótel, Sigtúni 28. Húsið opnar 08:15. Á fundinum verður farið yfir starfsemina á árinu, ársuppgjör og framtíðarhorfur. Við upphaf fundar verður kynningarefnið aðgengilegt á vefsíðu Kaldalóns.
Hægt er nálgast ársreikninginn á vefsíðu félagsins.
Frekari upplýsingar
Jón Þór Gunnarsson, forstjóri, kaldalon@kaldalon.is
www.kaldalon.is
Viðhengi
- 254900A1SVOQEMA2WP49-2023-12-31-is
- 254900A1SVOQEMA2WP49_20231231_viewer
- Kaldalón hf. - Samstæðuársreikningur 2023