Landsbankinn hf.: Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2024


  • Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2024 nam 7,2 milljörðum króna eftir skatta.
  • Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 9,3% samanborið við 11,1% á sama tímabili árið áður.
  • Vaxtamunur sem hlutfall af meðalstöðu heildareigna nam 2,9%. Vaxtamunur heimila var 2% og helst stöðugur.
  • Hreinar vaxtatekjur voru 14,4 milljarðar króna og hreinar þjónustutekjur voru 2,7 milljarðar króna.
  • Virðisbreytingar útlána voru neikvæðar um 2,7 milljarða króna, en þar af er um 2,0 milljarða króna safnframlag vegna óvissu um fjárhagslegar afleiðingar náttúruhamfara á Reykjanesskaga.
  • Kostnaðarhlutfall er 33,6% samanborið við 33,3% á fyrsta fjórðungi ársins 2023.
  • Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins var 24,9% en fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands gerir 20,7% heildarkröfu um eiginfjárgrunn.
  • Í mars lauk Landsbankinn við sölu á grænum skuldabréfum að fjárhæð 300 milljónir evra og var heildareftirspurn rúmlega sexföld.
  • Bankinn lauk í mars við útboð tveggja flokka víkjandi skuldabréfa sem teljast til eiginfjárþáttar 2, annars vegar óverðtryggðan flokk að fjárhæð 3 milljarðar króna og hins vegar verðtryggðan flokk að fjárhæð 12 milljarðar króna.
  • Á aðalfundi bankans þann 19. apríl 2024 var samþykkt að bankinn greiði arð til hluthafa að fjárhæð 16,5 milljarðar króna, eða sem nemur 0,70 krónum á hlut, vegna rekstrarársins 2023. Arðgreiðslan samsvarar um 50% af hagnaði samstæðu bankans á árinu 2023. Arðgreiðslur Landsbankans á árunum 2013-2024 munu því samtals nema 191,7 milljörðum króna.
  • Í janúar var greint frá því að fimmta árið í röð var ánægja viðskiptavina á bankamarkaði mest með þjónustu Landsbankans, samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni 2023.
  • Í byrjun apríl tilkynnti S&P um hækkun lánshæfismats bankans í BBB+/A-2 með stöðugum horfum.

 

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Það er merkur áfangi að efnahagsreikningur Landsbankans er nú orðinn yfir 2.000 milljarðar króna að stærð sem er tvöföldun frá stofnefnahagsreikningi bankans árið 2008. Efnahagsreikningurinn hefur stækkað jafnt og þétt og á fyrsta fjórðungi þessa árs nam aukningin tæplega 72 milljörðum króna. Stækkandi efnahagsreikningur gerir okkur kleift að styðja enn betur við atvinnulíf og íslenskt samfélag. Öflug útlánastarfsemi er grundvallarþáttur í rekstri bankans. Á þessu ári hefur verið lítil aukning í íbúðalánum en meira um endurfjármögnun. Fyrirtækjalán jukust jafnt og þétt og alls nam aukning þeirra á fjórðungnum um 30 milljörðum króna.

Fjármögnun bankans gekk sérlega vel á fjórðungnum. Við gáfum bæði út víkjandi skuldabréf í íslenskum krónum að fjárhæð 15 milljarðar króna og 300 milljóna evru skuldabréf, í báðum tilfellum á góðum kjörum. Nú í apríl fengum við þau ánægjulegu tíðindi að alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings hefði hækkað lánshæfismat bankans.

Arðsemi bankans gefur eilítið eftir en er nálægt langtímamarkmiði. Helsta ástæðan fyrir lægri arðsemi er sú að bankinn eykur varúðarframlag á fjórðungnum vegna náttúruvárinnar í Grindavík. Það er mikilvægt að bankinn hafi efnahagslegan styrk til að takast á við afleiðingar náttúruhamfaranna og geti áfram stutt við viðskiptavini sína í Grindavík, líkt og hingað til. Við búumst við að heildararðsemin á þessu ári rétti sig af og verði yfir markmiði bankans. Þá er rétt að benda á að nýjar kröfur Seðlabanka Íslands um bindiskyldu verða til þess að Landsbankinn mun eiga um 40 milljarða króna á vaxtalausum reikningi hjá Seðlabankanum, sem er aukning um 20% frá fyrri kröfu. Kostnaðaraukinn er einn milljarður á ári fyrir bankann.

Uppgjör bankans er gott og til marks um öflugan og góðan rekstur. Áfram er mikill kraftur í þróun nýrra lausna fyrir viðskiptavini. Meðal nýjunga sem við kynntum á fyrsta fjórðungi er að nú geta viðskiptavinir sjálfir endurfjármagnað íbúðalánin sín í Landsbankaappinu. Þessi möguleiki hefur aldrei áður verið í boði á Íslandi og lausnin stendur mjög framarlega á heimsvísu. Þessi lausn mun sannarlega einfalda líf viðskiptavina. Við tókum líka spjallmennið Ellí í notkun og það tók strax á sprett og afgreiðir nú um helming allra erinda í netspjallinu á landsbankinn.is við góðan orðstír. Það er sömuleiðis ánægjulegt að viðskiptavinir nýta spjallið reglulega til að láta í ljós álit sitt á þjónustu bankans og samskiptum við starfsfólk. Með því að þróa sífellt nýjar lausnir bætum við enn frekar þjónustu við viðskiptavini Landsbankans, sem eru einmitt þeir ánægðustu á bankamarkaði.“

 

Fjárhagsdagatal Landsbankans

  • Uppgjör 2F 2024 18. júlí 2024
  • Uppgjör 3F 2024 23. október 2024
  • Ársuppgjör 2024 30. janúar 2025 

 

Nánari upplýsingar veita:                

Samskipti, samskipti@landsbankinn.is

Fjárfestatengsl, fjarfestatengsl@landsbankinn.is

 

Viðhengi



Anhänge

Landsbankinn_samandreginn_árshlutareikningur_samstæðu_31.3.2024 Landsbankinn_uppgjorskynning_31.03.2024 Landsbankinn_fréttatilkynning_31.03.2024