Hagar hf.: Uppgjör Haga á 1. ársfjórðungi 2024/25


Rekstur gekk vel á fjórðungnum og afkoma styrkist á milli ára.

Árshlutareikningur Haga hf. fyrir fyrsta ársfjórðung 2024/25 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 28. júní 2024. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars til 31. maí 2024. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.


Helstu lykiltölur

  • Vörusala 1F nam 44.067 m.kr. (6,2% vöxtur frá 1F 2023/24). [1F 2023/24: 41.490 m.kr.]
  • Framlegð 1F nam 9.537 m.kr. (21,6%). [1F 2023/24: 8.072 m.kr. (19,5%)]
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 1F nam 3.214 m.kr. eða 7,3% af veltu. [1F 2023/24: 2.521 m.kr. (6,1%)]
  • Hagnaður 1F nam 850 m.kr. eða 1,9% af veltu. [1F 2023/24: 653 m.kr. (1,6%)]
  • Grunnhagnaður á hlut 1F var 0,78 kr. [1F 2023/24: 0,59 kr.]. Þynntur hagnaður á hlut 1F var 0,77 kr. [1F 2023/24: 0,58 kr.]
  • Eigið fé nam 29.038 m.kr. í lok tímabils og eiginfjárhlutfall 35,6%. [Árslok 2023/24: 28.188 m.kr. og 36,5%]
  • Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2024/25 gerir ráð fyrir að EBITDA verði 13.800-14.300 m.kr.


Helstu fréttir af starfsemi

  • Rekstur á fyrsta ársfjórðungi gekk vel og var í samræmi við áætlanir. Góð söluaukning var á tímabilinu en vörusala jókst um 6,2% milli ára.
  • Seldum stykkjum í dagvöruverslunum fjölgar milli ára um 1,1% og heimsóknum viðskiptavina fjölgar auk þess um 5,3%. Aukning var í seldum eldsneytislítrum milli ára og nam hún 0,7%.
  • Framlegð í krónum talið jókst um 18,1% milli ára og framlegðarhlutfallið hækkar um 2,2%-stig. Framlegðarhlutfall hækkar bæði í dagvöru- og eldsneytishluta samstæðunnar en framlegðarhlutfall var í sögulegu lágmarki á samanburðartímabili.
  • Unnið hefur verið að því með birgjum félagsins að lágmarka og/eða draga úr hækkun vöruverðs. Verðbólga í mat og drykk hefur lækkað töluvert á árinu.
  • Verslun Bónus á Ísafirði var stækkuð og endurnýjuð á tímabilinu - Gripið & Greitt innleitt í fleiri verslunum.


Finnur Oddsson, forstjóri:

Rekstrarárið 2024/25 fer vel af stað hjá Högum. Á fyrsta fjórðungi jókst vörusala um ríflega 6% og nam 44,1 ma. kr., framlegð styrktist og afkoma batnaði töluvert miðað við sama fjórðung í fyrra. EBITDA nam 3.214 m.kr. og hagnaður 850 m.kr.  

Starfsemi gekk vel á öllum sviðum, en stór skýring á bættri afkomu liggur í sterkari rekstri Olís á fjórðungnum. Tekjur vegna eldsneytissölu voru ríflega 13 ma. kr. og var afkoma umfram væntingar. Sala í lítrum var yfir árinu í fyrra, m.a. vegna sterkrar eftirspurnar í smásölu og stakra viðskipta við erlenda aðila. Sala á þurrvöru og veitingum á þjónustustöðvum jókst á milli ára, en aukið og bætt vöruframboð á stöðvum, nýtt samstarf við Wolt og afhendingarþjónusta pakkasendinga hafa almennt stuðlað að auknum umsvifum. Undirbúningur sölumeðferðar á ODR hefur verið hafinn.

Ágætur gangur er sem fyrr í rekstri verslana og vöruhúsa, þar sem tekjur jukust um ríflega 7% á fjórðungnum og afkoma batnaði m.v. sama fjórðung í fyrra. Heilt yfir hefur seldum stykkjum í dagvöruverslun og heimsóknum viðskiptavina fjölgað. Þar dregur Bónus sem fyrr vagninn, en ódýr matvörukarfa og nýjungar eins og Gripið & Greitt og hagkvæm kvöldmatartilboð hafa mælst vel fyrir og létta viðskiptavinum lífið. Tekjur jukust lítillega hjá Hagkaup og rekstur styrktist á milli ára. Viðskiptavinir hafa tekið nýjungum í starfsemi ákaflega vel, allt frá Skálinni, nýjum sjálfsafgreiðslu-skyrbar, yfir í veisluþjónustu sem annaði ekki eftirspurn á álagstoppum í kringum fermingar og útskriftir á vormánuðum. Eldum rétt hélt upp á 10 ára afmæli félagsins í apríl og þakkaði viðskiptavinum traustið með skemmtilegum ferðaleik. Sala heldur áfram að aukast og með nýju framleiðslurými og tækjabúnaði hefur náðst að einfalda ferla og auka skilvirkni í framleiðslu. Rekstur annarra eininga, vöruhúsa, Stórkaups og Zara var í samræmi við áætlanir.

Við erum ánægð með rekstur Haga á fyrstu mánuðum rekstrarársins, en árangurinn er til vitnis um að stefnumótun og aðgerðir til að styrkja rekstrarfélög okkar hafa heilt yfir gengið eftir. Eftir nokkur ögrandi ár hefur umhverfi rekstrar í okkar geira heldur þróast til betri vegar, m.a. með óvenju hóflegum kjarasamningum og auknum fyrirsjáanleika um launaþróun, lækkandi verðbólgu, bæði vísitölu neysluverðs og hvað matarverð varðar sérstaklega. Til skemmri tíma höfum við enn áhyggjur af þróun matarverðs en treystum á áframhaldandi gott samstarf og ábyrga afstöðu heildsala og framleiðenda að gæta hófs í verðhækkunum, sýna samstöðu og tryggja þannig stöðugleika verðlags. Þar liggja sameiginlegir hagsmunir allra landsmanna.

Staða Haga og horfur í rekstri eru sem fyrr jákvæðar. Fjárhagur er traustur, rekstur helstu eininga gengur vel og félagið er vel í stakk búið til að fylgja eftir spennandi tækifærum og þróa nýja tekjustrauma. Framundan er svo einn mikilvægasti rekstrarfjórðungur hvers árs, sumarið, með auknum ferðalögum landsmanna og erlendra ferðamanna. Síðast en ekki síst er vert að minnast á að Hagar búa að frábæru teymi starfsfólks sem leggur sig fram um að gera verslun með dagvöru og eldsneyti hagkvæma, þægilega og skemmtilega.


Rafrænn kynningarfundur í dag, föstudaginn 28. júní 2024

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn í dag, föstudaginn 28. júní kl. 16:00, þar sem Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna rekstur og afkomu félagsins ásamt því að svara fyrirspurnum.

Tekið verður við spurningum sem tengjast uppgjörinu á meðan á útsendingu stendur á netfangið fjarfestakynning@hagar.is og verður þeim svarað eins og kostur er í lok fundar.

Fundinum verður streymt og er skráning á fundinn hér: https://www.hagar.is/skraning.

Kynningargögn eru hér meðfylgjandi og eru auk þess aðgengileg á heimasíðu Haga, www.hagar.is, við upphaf fundar.


Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson, forstjóri félagsins (fo@hagar.is), og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs (geg@hagar.is), í síma 530-5500 eða tölvupósti.


Viðhengi



Anhänge

Hagar Árshlutareikningur 31.5.2024 ísl Fréttatilkynning Hagar 1F 2024-25 Fjárfestakynning 1F 2024-25