Guðmundur Örn Þórðarson hefur verið ráðinn í nýja stöðu framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Kviku og mun hefja störf 20. september næstkomandi. Guðmundur mun leiða viðskiptatengsl Kviku samstæðunnar auk þess að samræma markaðssókn tekjusviða bankans. Þá mun hann koma að þróun nýrra afurða og þjónustu í samvinnu við önnur svið bankans. Guðmundur mun samhliða hætta í stjórn bankans og taka sæti í framkvæmdastjórn.
Guðmundur útskrifaðist með Cand. Oecon próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 1997. Einnig hefur hann lokið prófi í verðbréfamiðlun og eignastýringu í Bretlandi. Guðmundur hefur setið í stjórn Kviku frá árinu 2017 og verið varaformaður stjórnar frá árinu 2018. Frá árinu 2000 til 2003 starfaði Guðmundur á þróunarsviði og í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. og gegndi síðan stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs hjá Straumi fjárfestingarbanka hf. á árunum 2003 til 2007. Guðmundur hefur undanfarin ár starfað við eigin fjárfestingar ásamt því að sinna hinum ýmsu stjórnarstörfum.
Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku banka
„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Guðmund til liðs við stjórnendateymi Kviku. Hann hefur áratuga reynslu í fyrirtækjaráðgjöf og fjárfestingum, er mjög vel tengdur í íslensku viðskiptalífi og hefur mikla þekkingu á allri starfsemi Kviku eftir margra ára störf í stjórn bankans og dótturfyrirtækjum hans í Bretlandi. Á undanförnum misserum hefur náðst mikill árangur hjá bankanum í að styrkja grunnrekstur hans og ná fram hagræðingu í rekstri, en framundan er enn frekar aukin áhersla á tekjumyndun á öllum sviðum. Styrkur bankans til að sækja fram eykst umtalsvert þegar salan á TM gengur í gegn og ráðning Guðmundar er mikilvægur liður í því að efla viðskiptavinatengsl Kviku og auka umsvif bankans á fjármálamarkaði.“