Síminn hf. - Afkoma þriðja ársfjórðungs 2024


Helstu niðurstöður úr rekstri á 3F 2024

  • Tekjur á þriðja ársfjórðungi (3F) 2024 námu 6.955 m.kr. samanborið við 6.501 m.kr. á sama tímabili 2023 og jukust um 7%. Tekjur af kjarnaþjónustum Símans, farsíma, gagnaflutningi og sjónvarpsþjónustu aukast um rúmlega 3% á milli tímabila.
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 1.915 m.kr. á 3F 2024 og hækkar um 104 m.kr. eða 5,7%. EBITDA hlutfallið er 27,5% á 3F 2024 en var 27,9% á sama tímabili 2023. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 864 m.kr. á 3F 2024 samanborið við 765 m.kr. á sama tímabili 2023.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 292 m.kr. á 3F 2024 en námu 126 m.kr. á sama tímabili 2023. Fjármagnsgjöld námu 476 m.kr., fjármunatekjur voru 178 m.kr. og gengishagnaður nam 6 m.kr.
  • Hagnaður á 3F 2024 nam 449 m.kr. samanborið við 507 m.kr. hagnað á sama tímabili 2023.
  • Vaxtaberandi skuldir samstæðu að leiguskuldbindingum meðtöldum námu 16,1 ma.kr. í lok 3F 2024, en voru 10,5 ma.kr. í árslok 2023. Handbært fé í lok 3F 2024 nam 1,1 ma.kr., en var 1,8 ma.kr. í árslok 2023. Staða útlána hjá Símanum Pay var 3,2 ma.kr. í lok 3F 2024.
  • Eiginfjárhlutfall Símans var 45,5% í lok 3F 2024 og eigið fé 18,2 ma.kr.


María Björk Einarsdóttir, forstjóri:

„Afkoma þriðja ársfjórðungs var heilt yfir góð og niðurstöðurnar sýna vel seiglu og styrk félagsins. Við sáum heilbrigðan tekjuvöxt í helstu fjarskiptaþjónustum sem og sjónvarpsþjónustu, þar sem áskrifendum hefur haldið áfram að fjölga. Þá hafa fjárfestingar okkar í auglýsingamiðlum staðist þær væntingar sem gerðar voru við kaupin og haft verulega jákvæð áhrif á hlutdeild auglýsingatekna í rekstri félagsins.

Í september voru gerðar breytingar á skipuriti félagsins þar sem eitt stoðsvið var lagt niður og tvö ný svið stofnuð. Markmið breytinganna eru annars vegar að styrkja enn frekar sölu og markaðssetningu á vörum félagsins og hins vegar að auka áherslu á vöru- og viðskiptaþróun. Talsverður kostnaður fylgdi þessum breytingum og bættist hann við áfallinn kostnað vegna forstjóraskipta sem einnig var gjaldfærður í ársfjórðungnum.

Í kjölfar breyttra áherslna í rekstri hófum við að endurskoða stefnumið félagsins og verða þau áform kynnt nánar á komandi mánuðum. Það liggur fyrir að félagið hyggst halda áfram að sækja fram og við munum leggja áherslu á að breikka tekjugrunn félagsins með því að þróa og bæta við vöruframboð okkar nýjum stafrænum þjónustum og lausnum sem falla vel að þörfum okkar viðskiptavina.“


Kynningarfundur 23. október 2024

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn miðvikudaginn 23. október 2024 kl. 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 25, Reykjavík. Hluthafar, fjárfestar og markaðsaðilar eru sérstaklega boðnir velkomnir á fundinn. Á fundinum munu María Björk Einarsdóttir forstjóri og Óskar Hauksson fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins og svara fyrirspurnum. Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast í fréttakerfi Nasdaq Iceland og á heimasíðu Símans https://www.siminn.is/fjarfestar/uppgjor-og-arsskyrslur.

Jafnframt verður hægt að fylgjast með fundinum í netstreymi á vefslóðinni: https://www.siminn.is/fjarfestar/fjarfestakynning.

Þeir sem vilja bera upp spurningar geta sent þær á fjarfestatengsl@siminn.is og verður þeim svarað í lok fundarins.


Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans (maria@siminn.is)
Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans (oskarh@siminn.is)

Viðhengi



Anhänge

Síminn hf  - Afkomutilkynning 3F 2024 Síminn hf. - Fjárfestakynning 3F 2024 Síminn hf. - Árshlutareikningur samstæðu 3F 2024