Eimskip: Afkoma þriðja ársfjórðungs 2024


Helstu atriði í afkomu þriðja ársfjórðungs 

  • Afkoma þriðja ársfjórðungs var sú sterkasta á árinu sem rekja má til góðs tekjuvaxtar
  • Tekjur jukust um 18,6 milljónir evra frá fyrra ári og námu 220,6 milljónum evra á fjórðungnum
    • Tekjur af gámaflutningum lækkuðu um 2,7 milljónir evra á meðan tekjur af flutningsmiðlun jukust um 21,3 milljónir evra
    • Afkoma af gámasiglingum var sú sterkasta á árinu
      • Góður vöxtur í útflutningi frá Íslandi auk góðrar afkomu Innanlandssviðsins á fjórðungnum vegna mikillar starfsemi. Ennfremur jókst magn í Trans-Atlantic flutningum og alþjóðleg flutningsverð hækkuðu
    •  Tekjur af alþjóðlegri flutningsmiðlun jukust sem litast af hærri alþjóðlegum flutningsverðum, sérstaklega á leiðum tengdum Asíu
  • Kostnaður nam 187,7 milljónum evra sem var aukning um 20,2 milljónir evra en hækkunin litast af hækkun á flutningskostnaði greiddum til þriðja aðila sem jókst um 17,8 milljónir evra frá fyrra ári
    • Olíukostnaður jókst lítillega eða um 0,2 milljónir evra á meðan nýlega innleiddur ETS kostnaður nam 0,9 milljónum evra á fjórðungnum en sá kostnaður er veginn upp í gegnum tekjustýringu
    •  Launakostnaður jókst um 2,1% eða 0,7 milljón evra þrátt fyrir að fjöldi stöðugilda hafi fækkað aðeins miðað við sama fjórðung í fyrra 
  • EBITDA fyrir fjórðunginn nam 32,9 milljónum evra samanborið við 1,6 milljónir evra í fyrra
    • EBITDA afkoma af siglingakerfinu og tengdri þjónustu nam 22,9 milljón evra og lækkaði um 2,1 milljónir evra sem er áframhaldandi bæting frá lok síðasta árs og reiknað EBITDA hlutfall 16,2% og EBIT hlutfall 7,6%
    • EBITDA af alþjóðlegri flutningsmiðlun nam 10,0 milljónum evra og hækkaði um 0,6 milljónir evra og reiknað EBITDA hlutfall var 12,6%
    • Hærri alþjóðleg flutningsverð ýta undir hækkunina þrátt fyrir að magnið var aðeins minna samanborið við sama ársfjórðung síðasta árs
  • EBIT hélst stöðug frá fyrra ári og nam 18,7 milljónum evra
  • Hagnaður eftir skatta nam 14,3 milljónum evra samanborið við 16,6 milljónir evra fyrir sama tímabil árið 2023


VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI

„Við erum ánægð með niðurstöðu þriðja ársfjórðungs en mikil umsvif einkenndu starfsemina á tímabilinu hjá flestum tekjustoðum félagsins. Afkoma fjórðungsins er sú besta á þessu ári og nam EBITDA 32,9 milljónum evra samanborið við 34,5 miljónir evra á sama tímabili í fyrra.

Gámaflutningskerfið skilaði góðri niðurstöðu í fjórðungnum með töluverðum magnvexti sérstaklega í útflutningi frá Íslandi og í Trans-Atlantic flutningum en á sama tíma dróst innflutningur til Íslands lítillega saman. Aukin útflutningur frá Íslandi skýrist af auknum fiskveiðum ásamt vexti í útflutningi á eldislaxi. Þá var mikið magn af úrgangi til endurvinnslu í útflutningi en sá farmur lækkar meðalframlegð lítillega.
Magn í Trans-Atlantic flutningum jókst á milli ára bæði vegna meiri eftirspurnar en eins vegna minni flutningsgetu alþjóðlega á siglingarleiðinni milli Evrópu og Norður Ameríku. Alþjóðleg flutningsverð hækkuðu á fjórðungnum en voru samt sem áður lægri en á sama tímabili í fyrra.  Bætt jafnvægi var á magni yfir hafið bæði á vestur-og austurleið sem hafði jákvæð áhrif á afkomuna. Í Noregi sáum við magnið í frystiflutningskerfinu aukast í báðar áttir og skilaði reksturinn fínni niðurstöðu.

Alþjóðlega flutningsmiðlunin skilaði góðri afkomu á fjórðungnum með hærri framlegð samanborið við fyrra ár þrátt fyrir lítilsháttar minnkun í magni.  Alþjóðlegu flutningsverðin hafa verið mjög sveiflukennd það sem af er ári og hækkuðu verulega á fyrri helmingi árs en hafa verið að lækka jafnt og þétt frá byrjun þriðja ársfjórðungs þótt þau sé enn töluvert hærri en á sama tíma í fyrra. Ástandið við Rauðahafið, sem hefur takmarkað umferð flutningaskipa um Súez-skurðinn, er óbreytt og því miður er gert ráð fyrir að það haldi áfram vel inn á næsta ár. Markaðurinn hefur samt sem áður náð ákveðnu jafnvægi í þessu ástandi.

Það hefur vakið athygli okkar sem stýrum félaginu að mörg metnaðarfull fjárfestingarverkefni eru í undirbúningi á Íslandi um þessar mundir og sum eru af þeirri stærðargráðu að geta skipt verulegu máli fyrir hagvaxtarhorfur landsins á næstu árum. Eimskip hefur lengi leikið lykilhlutverk í að koma verðmætum afurðum innlendra framleiðanda á erlendan markað og aukin alþjóðleg samkeppni hefur kallað á  stöðugar umbætur hjá félaginu og viðskiptavinum og innleitt ríka kostnaðarvitund. Skjótvirkt og hagkvæmt flutningskerfi skapar virði fyrir vaxandi samfélög og verkefni okkar, allt frá stofnun félagsins, hefur verið að styðja við vöxt og viðgang íslensks efnahagslífs. Með þéttriðið net sjóflutninga, landflutninga og strandsiglinga er Eimskip hluti af innviðum og verðmætasköpun þjóðarinnar. Framundan eru alþingiskosningar á Íslandi. Mikilvægt er að sú ríkisstjórn sem tekur við völdum skapi atvinnulífi  aukinn fyrirsjáanleika og styðji með því við þau mikilvægu áform um atvinnuuppbyggingu sem kynnt hafa verið.

Við erum nokkuð bjartsýn á reksturinn það sem eftir lifir árs. Nýja kvótaárið á Íslandi byrjar vel sem og áframhaldandi góður gangur í magni frá laxeldi og þá er innflutningur til Íslands stöðugur. Á sama tíma hafa veiðar í Færeyjum verið í rólegri kantinum en við erum bjartsýn á að þær taki við sér á komandi vikum. Í flutningsmiðluninni gerum við ráð fyrir áframhaldandi sveiflum á alþjóðlegum flutningsverðum en við gerum ráð fyrir ágætu magni í núverandi fjórðungi.“

KYNNINGARFUNDUR 6. NÓVEMBER 2024

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. samþykkti árshlutareikning samstæðu Eimskips fyrir annan ársfjórðung 2024 á stjórnarfundi þann 5. nóvember 2024. Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn miðvikudaginn 6. nóvember kl. 8:30 í höfuðstöðvum félagsins Sundabakka 2, 2. hæð. Fundurinn verður einnig rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips www.eimskip.com/investors.

Þar munu Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri og Rósa Guðmundsdóttir fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins fyrir þriðja ársfjórðung 2024. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni.

FREKARI UPPLÝSINGAR

Guðbjörg Birna Björnsdóttir, forstöðumaður fjárstýringar og fjárfestatengsla, sími 844 4752, netfang investors@eimskip.com

TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA

Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.

Viðhengi



Anhänge

Condensed Consolidated Interim Financial Statement Eimskip Q3 2024 Eimskip -  Q3 2024 Financial Results Presentation