Hagar hf.: Óskuldbindandi tilboð hafa borist í Olíudreifingu


Með vísan í tilkynningu Haga hf. um upphaf á söluferli á Olíudreifingu ehf. („Olíudreifingu“ eða „félagið“) sem birt var þann 26. september sl., upplýsist hér með að borist hafa óskuldbindandi tilboð í félagið.

Olís ehf., dótturfélag Haga, hefur lagt mat á tilboðin og í kjölfarið ákveðið ásamt meðeiganda sínum að bjóða þremur aðilum að halda áfram í söluferlinu og veita þeim aðgengi að frekari upplýsingum.

Ekki liggur fyrir nein vissa á þessu stigi hvort framangreint ferli muni leiða til skuldbindandi tilboða í Olíudreifingu, sem gæti lokið með sölu á félaginu.

Nánar verður upplýst um framvindu ferlisins tímanlega og um leið og ástæða er til og í samræmi við lögbundna upplýsingaskyldu félagsins. 


Olíudreifing er 40% í eigu Olís og 60% í eigu Festi. Félagið er mikilvægt innviðafélag hvað varðar birgðahald og dreifingu á eldsneyti á Íslandi.


Fyrir frekari upplýsingar vinsamlegast hafið samband við Finn Oddsson, forstjóra Haga, á netfangið fo@hagar.is.