Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar janúar - september 2024


Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar – september 2024 var lagður fyrir borgarráð í dag 5. desember.

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var jákvæð um 1,6 ma.kr. sem var 4,5 ma.kr. betri niðurstaða en fyrir sama tímabil 2023. Í áætlun var gert ráð fyrir 10,2 ma.kr. rekstrarafgangi. EBTIDA var jákvæð um 41,7 ma.kr. eða 6,4 m.kr. betra en fyrstu níu mánuði síðasta árs en um 4,9 ma.kr. undir áætlun. EBITDA nam 41,7 ma.kr. sem er 21% í hlutfalli af tekjum og hækkar um 1,5%-stig milli ára.

Heildareignir A- og B-hluta Reykjavíkurborgar samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi 30. september 2024 námu 953,4 ma.kr. og heildarskuldir ásamt skuldbindingum námu 515,5 ma.kr. Eigið fé nam 437,8 ma.kr. en þar af nam hlutdeild minnihluta 17,1 ma.kr. Eiginfjárhlutfall A- og B-hluta í lok september nam 45,9% en var 46,9% um áramótin.

Handbært fé A- og B-hluta   nam 27,1 ma.kr. í lok tímabils og breyttist óverulega frá áramótum. Veltufé frá rekstri var jákvætt um 30,4 ma.kr. og jókst um tæplega 4,2 ma.kr. m.v. sama tímabil 2023. Veltufé frá rekstri í hlutfalli af tekjum var 15,1% og hækkaði um 0,8%-stig miðað við sama tímabil 2023. Fjárfestingar að frádregnum seldum eignum námu 39,6 ma.kr., greidd gatnagerðagjöld og seldur byggingarréttur námu 1,9 ma.kr. Lántaka og ný stofnframlög námu 26,4 ma.kr. á tímabilinu og afborganir lána og leiguskulda námu 25,0 ma.kr. Nýjar leiguskuldir námu 540 m.kr.

Rekstrarniðurstaða A-hluta á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 var neikvæð um 1,1 ma.kr. sem var 0,3 ma.kr betri niðurstaða en á sama tímabili 2023. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var jákvæð um 9,3 ma.kr. sem var um 2,7 ma.kr. betri niðurstaða en fyrir ári síðan.

Í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaðan yrði jákvæð um 5,5 ma.kr. á tímabilinu. Helstu frávik má rekja til lægri staðgreiðslu útsvars, tilfærslu á sölu eigna og byggingaréttar á milli tímabila, útgjalda á velferðarsviði vegna þjónustuþyngdar barnaverndar og áhrifa verðbólgu á fjármagnsliði.

Samanlagðar rekstrartekjur námu 141 ma.kr. og hækkuðu um 10,9 ma.kr. á milli ára eða um 8,3%. Tekjur voru 3,1 ma.kr. lægri en áætlað var. Skatttekjur námu 109 ma.kr. eða 1,3 ma.kr. undir áætlun, þar af var staðgreiðsla útsvars 2,8 ma.kr. undir áætlun. Staðgreiðsla útsvars hækkaði um 7,5 ma.kr. borið saman við sama tímabil 2023. Rekstrargjöld að afskriftum undanskildum voru tæpum 3,0 ma.kr. yfir fjárheimildum.

Heildareignir A-hluta samkvæmt efnahagsreikningi 30. september 2024 námu samtals 287,3 ma.kr. og heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 207,2 ma.kr. Eigið fé nam 80,1 ma.kr. og eiginfjárhlutfall nam 28%.

Handbært fé A-hluta nam 11,8 ma.kr. og hækkaði um 0,3 ma.kr. frá áramótum til loka september. Fjárfestingar að frádregnum seldum eignum námu 15,0 ma.kr. Greidd gatnagerðagjöld og sala byggingarréttar námu 3,2 ma.kr. Lántaka langtímalána tímabilsins nam 11,1 ma.kr. Afborganir lána og leiguskulda námu 10,5 ma.kr. Veltufé frá rekstri var 10,6 ma.kr. og nam 7,5% í hlutfalli af tekjum.

Rekstrarumhverfi Reykjavíkurborgar hefur síðastliðin ár einkennst af þenslu á vinnumarkaði, þrálátri verðbólgu og háum vöxtum. Að undanförnu hafa þó væntingar aukist um meiri stöðugleika m.a. vegna hóflegra kjarasamninga sem sveitarfélögin studdu myndarlega með vilyrði um lækkun gjaldskráa og þátttöku í gjaldfrjálsum skólamáltíðum. Óvissa næstu missera snýr aðallega að því hversu vel gengur að ná niður verðbólgu og vöxtum án þess að kæla hagkerfið um of. Útkomuspá A-hluta fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu ársins sem nemur um 531 m.kr. Ekki eru horfur á öðru en það gangi eftir.

Með 13. gr. laga nr. 25/2020 og 2. gr. laga nr. 22/2021 hefur Alþingi vikið til hliðar fjármálareglum sveitarfélaga skv. ákvæði 64. gr. sveitarstjórnarlaga til loka árs 2025. Var það gert til að liðka fyrir möguleikum sveitarfélaganna að grípa til viðspyrnu og sóknar í stað samdráttaraðgerða vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Undanskilja skal veitu- og orkufyrirtæki við útreikning á jafnvægis- og skuldaviðmiði til ársloka 2029 samanber reglugerð 1195/2024.  

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða og Eignasjóð. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu Reykjavíkurborgar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf., Jafnlaunastofu sf. og Þjóðarleikvangs ehf.

Reykjavík, 5. desember 2024.

Viðhengi



Anhänge

Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar janúar-september 2024 REYKJAVÍKURBORG - FRÉTTATILKYNNING TIL KAUPHALLAR_2024-12-05 Skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs með árshlutareikningi janúar - september 2024