Kvika banki hf.: Auglýsing frá tilnefningarnefnd um framboð til stjórnar


Tilnefningarnefnd Kviku banka hf. (Kvika eða félagið) auglýsir eftir tilnefningum og framboðum til stjórnar Kviku.

Hlutverk tilnefningarnefndar er að undirbúa og gera tillögur um frambjóðendur við kjör stjórnar félagsins á aðalfundi þess ár hvert og á þeim hluthafafundum þar sem stjórnarkjör er á dagskrá. Tillögur nefndarinnar skulu stefna að því, að stjórnin sé á hverjum tíma þannig samsett að hún búi að fjölbreyttri þekkingu og reynslu sem nýtist félaginu við stefnumótun og eftirlit í því umhverfi sem félagið starfar á hverjum tíma.

Tilnefningarnefnd hefur ráðgefandi hlutverk við val á stjórnarmönnum hjá Kviku og leggur tillögur sínar fyrir hluthafafund þar sem stjórnarkjör er á dagskrá. Í störfum sínum skal nefndin hafa heildarhagsmuni allra hluthafa félagsins að leiðarljósi.

Allir stjórnarmenn þurfa að fullnægja þeim skilyrðum sem fram koma í samþykktum félagsins og lögum um hlutafélög nr. 2/1995, sbr. 66. gr. laganna. Starfsreglur tilnefningarnefndar, samþykktir félagsins og önnur gögn eru aðgengileg á heimasíðu Kviku.

Óskað er eftir að tilnefningum eða framboðum til stjórnar félagsins sé skilað til tilnefningarnefndar á þar til gerðu eyðublaði sem má finna hér, ásamt ferilskrá. Vakin er athygli á því að frestur til að skila inn framboðum og tilnefningum til nefndarinnar er 12. febrúar 2025 og skal senda þær á tilnefningarnefnd@kvika.is.

Tilnefningum og framboðum til stjórnar sem berast eftir framangreindan frest skal beint til stjórnar félagsins sem metur gildi þeirra og tryggir að þau verði kynnt eigi síðar en tveimur dögum fyrir hluthafafund. 

Tilnefningarnefndin mun bjóða áhugasömum einstaklingum að funda með sér á tímabilinu 14. - 21. febrúar 2025.

Tilnefningar nefndarinnar um stjórn félagsins verða birtar samhliða birtingu fundarboðs fyrir aðalfund sem, samkvæmt samþykktum félagsins, er boðað til með minnst þriggja vikna fyrirvara og lengst sex vikna fyrirvara. Aðalfundur félagsins verður haldinn þann 26. mars 2025.  

Frekari upplýsingar má finna á heimasíður Kviku.

Athugið að störf tilnefningarnefndarinnar og skilafrestur umsókna til hennar takmarka ekki rétt frambjóðenda til að skila inn framboðum til stjórnar félagsins áður en almennur framboðsfrestur rennur út.

Tilnefningarnefnd Kviku banka hf.