Milestone - Ársuppgjör 2006


- Uppgjör ársins 2006

"	Hagnaður samstæðu Milestone á árinu 2006 nam 21,4 milljörðum króna eftir skatta.  
"	Arðsemi eiginfjár var 92% í árslok.
"	Heildareignir í árslok 2006 námu ríflega 170 milljörðum króna og jukust um 102% á árinu.
"	Viðskiptavild samstæðunnar nemur 8% af heildareignum. 
"	Eigið fé samstæðunnar nam í árslok 2006 ríflega 43,7 milljörðum króna sem er aukning um 69% frá ársbyrjun.
"	Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var í árslok 26% en eiginfjárhlutfall móðurfélagsins var 43%. 
 
Hagnaður samstæðunnar nam 21,4 milljörðum króna eftir skatta á árinu 2006.  Árið einkenndist af góðri arðsemi kjarnafjárfestinga félagsins sem og nýjum verkefnum á Íslandi og erlendis. Stór hluti eignasafns félagsins samanstendur af félögum sem eru skráð á markaði og mótast þar af leiðandi afkoman að hluta til af markaðsaðstæðum.

Vöxtur hefur einkennt efnahag samstæðunnar á undanförnum árum með fjárfestingum og styrkingu eiginfjár. Heildareignir samstæðunnar hafa frá upphafi árs 2005 vaxið úr tæplega 11,4 milljörðum í rúmlega 170 milljarða, þar af 85,7 milljarða á árinu 2006. 

Óefnislegar eignir nema liðlega 12,5% af heildareignum félagsins, þar af nemur viðskiptavild einungis 8,4% af heildareignum. Hlutdeild Sjóvá í samstæðunni hefur styrkt rekstur með virku tekjuflæði og kaup Milestone á L&H eignarhaldsfélagi hafa að sama skapi rennt styrkari stoðum undir reksturinn en hlutdeild í afkomu þess félags er tekin frá og með 1. júlí 2006.

Eigið fé samstæðunnar var í upphafi árs rúmlega 25,8 milljarðar en eigið fé í lok ársins var ríflega 43,7 milljarðar.  Eiginfjárhlutfall móðurfélagsins var í lok tímabilsins 42,9% og samstæðunnar 25,7%. Arðsemi eiginfjár á árinu 2006 var 91,5%.

Efnahagur félagsins er traustur og byggir á eignum sem skilað hafa góðri afkomu á undanförnum árum. Sterkur efnahagur er grunnforsenda áframhaldandi vaxtar samstæðunnar sér í lagi þar sem innan hennar eru rekin tvö fjármálafyrirtæki sem byggja afkomu á trúverðugleika og getu til að standa við skuldbindingar sínar.  Stöðugleiki hefur verið í eignasafni í samræmi við fjárfestingastefnu félagsins. 

Fjárfestingastefna félagsins hefur verið skilgreind í fimm megin svið:  Lyf og lyfjatengd þjónusta, fjármálastarfsemi, tryggingar, fasteignir og önnur verkefni. 

Helstu fjárfestingar ársins voru þær að í byrjun maí keypti Milestone 33% hlut Glitnis í Sjóvá og ræður þar með 100% hlutafjár í félaginu. Þann 30. júní sl. keypti félagið öll hlutabréf í L&H eignarhaldsfélagi, sem meðal annars rekur apótekakeðjuna Lyf & heilsu, og styrkja kaupin þá stoð félagsins sem lýtur að lyfjum og heilbrigðismálum. Í lok ársins var tilkynnt um stofnun nýs íslensks fjárfestingabanka, Askar Capital, með sameiningu Sjóvá fjármögnunar, Ráðgjafar og efnahagsspár og Aquila Venture Partners. Milestone er kjölfestufjárfestir í bankanum og mun eiga ríflega 85% hlutafjár, en eigið fé Askar Capital verður í upphafi um 11 milljarðar króna. Innan samstæðunnar voru í árslok tvö dótturfélög sem skilgreind eru sem fjármálafyrirtæki og lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins auk þess sem Milestone hefur hlotið heimild til að fara með allt að 25% hlut í Glitni sem virkur eignaraðili.  
Undir lyf og lyfjatengda starfsemi falla m.a. Lyf & heilsa, hlutabréf í Actavis og Pharma Investment (TIG) en það félag á og rekur yfir eitthundrað apótek í Makedóníu, Rúmeníu og Króatíu. Stærstu eignir samstæðunnar falla síðan undir fjármálastarfsemi og tryggingar þ.e. hlutabréf í Glitni, Sjóvá og Askar Capital. Lönd og fasteignir eru nýtt svið í fjárfestingum félagsins og eru nú þegar stór hluti eignasafnsins. Stærstur hluti fasteigna samstæðunnar er í eigu Sjóvá og er einkum um að ræða erlendar eignir í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum. Meðal eigna sem falla undir aðrar fjárfestingar eru hlutabréf í Teymi hf., Merlin A/S, Spor ehf. og 365 hf. sem og ýmsar skammtíma stöðutökur í hlutabréfum. 

Hagnaður dótturfélagsins Sjóvá af vátrygginga- og fjárfestingastarfsemi nam ríflega 11,9 milljörðum króna eftir skatta í samanburði við 3,7 milljarða árið áður. Umtalsverður árangur hefur náðst í rekstri vátryggingarstarfsemi Sjóvá. Rekstrarkostnaður félagsins lækkaði um 21% frá fyrra ári.  Samsett hlutfall tryggingastarfsemi félagsins, sem er rekstrarkostnaður og tjón í hlutfalli við iðgjöld tímabilsins, nam 114,8% miðað við 121,5% árið 2005. 
 
Ársreikningur Milestone ehf. fyrir árið 2006 er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (International Financial Reporting Standards, IFRS) en ársreikningar félagsins á undanförnum árum hafa verið gerðir í samræmi við lög um ársreikninga og íslenskar reikningsskilavenjur.  Áhrif staðlanna gætir fyrst og fremst í framsetningu.  Heildaráhrif breyttra reglna á eigið fé félagsins eru óveruleg en bókfært eigið fé félagsins lækkar um 38 millj. kr.  Samanburðarfjárhæðir í ársreikningnum hafa verið endurreiknaðar í samræmi við breyttar reikningsskilaaðferðir.  Í skýringum reikningsins er gerð nánari grein fyrir áhrifum sem upptaka staðlanna hefur á reikningsskil félagsins.

Horfur
Góður árangur í rekstri félagsins á undanförnum árum, uppbygging traustra rekstrareininga og sterkur efnahagur Milestone gefa ekki tilefni til annars en bjartsýni varðandi áframhaldandi rekstur félagsins. Fleiri stoðir í starfseminni og áhættudreifing innan ramma þeirrar fjárfestingastefnu sem mótuð hefur verið auka getu félagsins til að bregðast við breytingum í efnahagslífinu svo sem sveiflum á hlutabréfabréfa- og gjaldeyrismarkaði. Í upphafi árs 2007 hafa orðið jákvæðar breytingar á markaðsvirði helstu skráðra eigna félagsins ásamt því að áhrif gengis íslensku krónunnar á fjármögnun félagsins hafa enn frekar gengið tilbaka. 
Í byrjun febrúar 2007 tilkynnti Milestone um að gengið hefði verið frá lánasamningi við alþjóðlega fjárfestingabankann Morgan Stanley um ríflega 16,5 milljarða lán til þriggja ára. Samningurinn markar tímamót í rekstri Milestone og er liður í þeirri viðurkenningu sem félagið hefur hlotið hjá erlendum fjármögnunaraðilum.  Unnið verður að áframhaldandi bættum samskiptum á þessu sviði á árinu 2007.

Innan lyfjageirans eru spennandi tækifæri í Austur-Evrópu þar sem Pharma Investment (TIG), hlutdeildarfélag samstæðunnar, hefur nú þegar fjárfest í apótekum og tengdum rekstri. Fyrirhugaður er áframhaldandi vöxtur á þessu sviði. 

Dótturfélag Milestone, Askar Capital, hóf starfsemi á árinu. Starfsemi bankans mun hafa umtalsverð áhrif á rekstur og afkomu samstæðunnar. 

Milestone mun hér eftir sem hingað til leita nýrra fjárfestingatækifæri á þeim sviðum sem félagið starfar.

"Afkoma Milestone á árinu 2006 var góð og arðsemi eiginfjár framúrskarandi. Félagið hefur styrkt sig umtalsvert með nýjum arðsömum fjárfestingum. Milestone hyggst vaxa áfram með styrkingu núverandi eininga og nýtingu á þeim fjárfestingartækifærum sem munu bjóðast innan þeirra kjarnasviða sem við höfum sérhæft okkur á," segir Karl Wernersson, stjórnarformaður Milestone. 

"Hraður vöxtur Milestone felur í sér áskorun varðandi uppbyggingu innviða félagsins. Félagið hefur mætt þessu með því að laða að sér gott starfsfólk til viðbótar við það fólk sem nú þegar starfar í fyrirtækjum samstæðunnar. Félagið stendur á tímamótum hvað varðar samskipti við erlenda fjármögnunaraðila sem er nauðsynlegt til að viðhalda vexti félagsins," segir Guðmundur Ólason, forstjóri Milestone. 

Helstu stærðir úr rekstri og efnahag félagsins (fjárhæðir í milljónum króna)
					
					
					
Rekstrarreikningur	2006		2005		2004**
					
Fjárfestingartekjur	19.374 		18.872 		1.199 
Rekstrartekjur	12.535 		4.185 		0 
Rekstrargjöld	( 13.993)		(5.238)		(8)
Hagnaður fyrir tekjuskatt	17.916 		17.819 		1.191 
Tekjuskattur	3.528 		(3.080)		( 216)
Hagnaður ársins	21.444 		14.739 		975 
					
					
Sjóðstreymisyfirlit					
					
Handbært fé frá (til rekstrar)	26.216 		16.628 		(20)
Fjárfestingarhreyfingar	(71.111)		(38.641)		(7.796)
Fjármögnunarhreyfingar	48.076 		23.761 		7.810 
Breyting handbærs fjár	3.181 		1.748 		(6)
					
					
Efnahagsreikningur	31.12.2006		31.12.2005		31.12.2004
					
Heildareignir	170.075 		84.369 		11.395 
Eigið fé	43.727 		25.833 		2.949 
Skuldir	126.348 		58.536 		8.446 
					
					
Kennitölur:					
					
Eiginfjárhlutfall*	25,7%  		30,6%  		25,9%  
Arðsemi eigin fjár	91,5%  		207,4%  		49,4%  
					
* Eiginfjárhlutfall móðurfélagsins í árslok 2006 nam 42,9%		
					
** Í samræmi við íslenskar reikningsskilavenjur				



Attachments

Milestone - Annual Results 2006.pdf