- OMX ætlar að kaupa Kauphöll og Verðbréfamiðstöð Armeníu


OMX, sem er leiðandi aðili í kauphallarviðskiptum, Central-bankinn í Armeníu og
ríkisstjórn Armeníu hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup OMX á Kauphöll og
Verðbréfamiðstöð Armeníu. 

„Við teljum að með kaupum OMX á Kauphöllinni og Verðbréfamiðstöðinni í Armeníu
fáum við tækifæri til að nýta reynslu okkar af þróun nýrra markaða í öðrum
löndum. OMX mun efla armenska verðbréfamarkaðinn og stefna að því að auka
skilvirkni hans, veltu og sýnileika. Enn fremur er það okkur metnaðarmál að
reynslan í Armeníu verði OMX stökkpallur inn á aðra vaxandi fjármagnsmarkaði,“
segir Magnus Böcker, forstjóri OMX. 

„Við erum afar ánægð með að OMX ætli að taka þátt í að byggja upp
fjármagnsmarkaðinn í Armeníu. Armenska ríkisstjórnin og Central-bankinn þar í
landi taka fullan þátt í þessu verkefni og við munum gera allt sem í okkar
valdi stendur til að OMX takist að ná þeim markmiðum sem allir viðkomandi
aðilar hafa sett sér,“ segir Serzh Sargsyan, forsætisráðherra lýðveldisins
Armeníu. 

„Central-bankinn í Armeníu hefur verið í samstarfi við OMX í rúmt ár og við
teljum að með þessum kaupum sé stigið mikilvægt skref í átt að þeim
langtímamarkmiðum sem við höfum sett okkur  varðandi fjármagnsmarkaðinn þar í
landi. Við fögnum aukinni þátttöku OMX og áframhaldi á hinu jákvæða samstarfi,“
segir Tigran Sargsyan, bankastjóri Central-bankans í Armeníu. 

Með þeirri þekkingu sem OMX býr yfir vegna uppbyggingar sinnar á norrænu og
baltnesku mörkuðum og þróun sinni á upplýsingatæknikerfum fyrir rúmlega 60
kauphallir í yfir 50 löndum er OMX í afar sterkri stöðu til að byggja upp
verðbréfamarkaðinn í Armeníu. 

Armenski markaðurinn er hlutfallslega lítill núna en OMX er ljóst að um
raunhæfa vaxtarmöguleika  er að ræða sem byggjast á ýmsum þáttum, svo sem
væntanlegum umbótum á eftirlaunakerfinu, lagabreytingum og eflingu
verðbréfamarkaðarins sem komi til með að veita fyrirtækjum á svæðinu aukið
fjármagn. 

Endanlegt samkomulag byggist á því að tiltekin skilyrði verði uppfyllt og að
viðkomandi stjórnvöld í Armeníu sem og Central-bankinn veiti samþykki sitt. 

Nánari upplýsingar veitir:
Niclas Lilja, fjölmiðlafulltrúi, OMX					
+46 8 405 63 95 

UM OMX | OMX er leiðandi aðili í kauphallarviðskiptum. OMX Nordic Exchange
veitir aðgang að u.þ.b. 80% af verðbréfamarkaði Norðurlandanna og
Eystrasaltsríkjanna. Nordic Exchange er ekki lögaðili heldur er um að ræða
hugtak sem notað er í markaðslegum tilgangi. Hugtakið lýsir sameiginlegri
þjónustu kauphallanna í Helsinki, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi, Kauphallar
Íslands og kauphallanna í Tallinn, Ríga og Vilníus. Samþætt
upplýsingatæknikerfi OMX á öllu ferli viðskipta stuðla að skilvirkum
verðbréfaviðskiptum í yfir 60 kauphöllum í rúmlega 50 löndum. OMX er í
fjármálageira og er flokkað með stórum félögum í OMX Nordic Exchange (e. Nordic
Large Cap). Nánari upplýsingar er að finna á slóðinni www.omxgroup.com