- Álit stjórnar Actavis á tilboði Novator


Stjórn Actavis hefur lagt formlegt mat á tilboð Novator, félags í eigu
Björgólfs Thors Björgólfssonar, stjórnarformanns Actavis, sem birt var
hluthöfum þann 1. júní síðastliðinn. 

Tilboðið var lagt fram í evrum og hljóðar upp á 0,98 evrur á hlut í reiðufé og
boðið öllum hluthöfum í A flokki.  Eftir að hafa lagt mat á tilboðið er það mat
stjórnar félagsins að tilboðið endurspegli ekki raunverulegt virði félagsins og
framtíðarmöguleika þess.  Í samræmi við 41. grein yfirtökulaga frá árinu 2003
hefur jafnframt verið horft til fleiri þátta en þess verðs sem boðið hefur
verið fyrir hluti í félaginu, s.s. fjármögnunar tilboðs, framtíðaráætlana og
viðhorfs til stjórnenda, sem tilboðsgjafi gerir formlega grein fyrir í tilboði
sínu. Þau atriði höfðu ekki áhrif á mat stjórnarinnar. 

Þeir stjórnarmenn sem lögðu mat á tilboðið og skiluðu sameiginlegu áliti eru
Sindri Sindrason, Magnús Þorsteinsson og Baldur Guðnason. 

Stjórn félagins er opin fyrir viðræðum við Novator og ef nýtt tilboð verður
birt hluthöfum mun stjórnin taka það til skoðunar og birta álit sitt á því. 


Frekari upplýsingar veita
 
Halldor Kristmannsson
Innri og ytri samskipti Actavis 
Sími: 550 3300 / 840 3425
hkristmannsson@actavis.com