2007


Stjórn Vinnslustöðvarinnar hf. samþykkti í dag uppgjör félagsins fyrir fyrstu
sex mánuði rekstrarársins.  Þar kemur meðal annars fram eftirfarandi: 

  • Hagnaður var á rekstrinum á tímabilinu að upphæð 1.116 milljónir króna. Er
    það mikil breyting frá í fyrra þegar tap var fyrstu sex mánuði ársins að
    upphæð 493 milljónir króna. 

  • Heildartekjur félagsins voru 3.325 milljónir króna og lækkuðu um 1,4% frá
    sama tímabili í fyrra.  Tekjur fiskvinnslu jukust örlítið, eða um 2,2% en
    tekjur útgerðar jukust mun meira eða um tæplega 26%. Rekstrargjöld drógust
    saman um liðlega 7%. 

  • Framlegð félagsins (hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) nam 962
    milljónum króna og jókst um 17,3% frá fyrra ári. Framlegðarhlutfall hækkaði
    úr 24,3% í fyrra í 28,9% í ár. 

  • Veltufé frá rekstri nam 564 milljón króna og var 17% af rekstrartekjum,
    dróst saman um 35% frá sama tímabili í fyrra. 

  • Afskriftir hækkuðu um 41 milljón króna frá fyrra ári og voru tæplega 212
    milljónir króna. 

  • Tekjur Hugins ehf., hlutdeildarfélags Vinnslustöðvarinnar, voru 434
    milljónir króna en 297 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Framlegð
    félagsins á tímabilinu var 83 milljónir króna.  Hagnaður félagsins eftir
    skatta nam 127 milljónum króna en gengishagnaður félagsins nam 136
    milljónum króna. Tap félagsins var 286 milljónir króna á sama tímabili í
    fyrra. Hlutdeild Vinnslustöðvarinnar í hagnaði Hugins ehf. nam 61 milljón
    króna. 

  • Tekjur About Fish ehf., hlutdeildarfélags Vinnslustöðvarinnar, voru 732
    milljónir króna og framlegð þess tæplega 10 milljónir króna. Hagnaður
    félagsins eftir skatta nam 6 milljónum króna og var hlutdeild
    Vinnslustöðvarinnar í þeim hagnaði tæplega 3 milljónir króna. 

  • Niðurstaða fjármagnsliða félagsins var jákvæð um 530 milljón króna á fyrstu
    sex mánuðum 2007, þar af nam gengishagnaður langtímalána félagsins 670
    milljónum króna. Á sama tímabili í fyrra voru fjármagnsliðir neikvæðir um
    1.020 milljónir króna. 

  • Reiknaður tekjuskattur á tímabilinu var 229 milljónir króna.

  • Félagið hefur hafið vinnu við rannsóknir á veiðum og atferli humars með það
    að markmiði að auka arðsemi við nýtingu hans. Verkefnið er unnið í samstarfi
    við Háskóla Íslands með styrk úr AVS-sjóðnum. Rannsóknaverkefninu er ætlað
    að varpa ljósi á áhrif veiða á búsvæði humars og atferli hans. Fleiri
    rannsóknaverkefni eru fyrirhuguð, aðallega varðandi humar og þorsk. Enn sem
    komið er hefur lítill kostnaður fallið til vegna rannsóknaverkefnanna. 

  • Ákveðið hefur verið að ráðast í byggingu frystigeymslu fyrir félagið og
    fyrirhugað er að hún verði tekin í notkun fyrir loðnuvertíð, í febrúar
    2008. 

Heildarskuldir og skuldbindingar félagsins lækkuðu um 526 milljónir króna frá
upphafi árs til júníloka og eru 6.236 milljónir króna. Nettóskuldir eru 3.823
milljónir króna en þær voru 4.558 milljónir króna  í lok síðasta árs; drógust
því saman um 735 milljónir króna. 

Eigið fé hækkaði frá áramótum um 665 milljónir króna og er 3.100 milljónir
króna eða 33,2% af heildarefnahag. Hækkun varð á eigin fé á tímabilinu vegna
hagnaðar ársins að upphæð 1.116 milljónir króna en lækkun kom hins vegar á móti
að upphæð 451 milljón króna vegna útgreiðslu arðs. 


Reikningsskilaaðferðir

Í fréttatilkynningu með uppgjöri 1. ársfjórðungs kom fram að 2007 væri fyrsta
árið sem félagið færir reikningsskil sín í samræmi við alþjóðlega
reikningsskilastaðla (IFRS). Upptökudagur reikningsskilastaðlanna miðast við 1.
janúar 2006 og hafa því reikningsskil fyrir tímabilið 1. janúar - 30. júní 2006
verið færð samkvæmt stöðlunum til samanburðar. 

Helstu áhrif IFRS á niðurstöðu reikningsskila tímabilsins 1. janúar - 30. júní
2006 eru eftirfarandi (í þús. kr): 

  • Framlegð var 911.093 kr. en verður 820.235 kr.

  • Afkoma var (367.717) kr. en verður (493.211) kr.

  • Reiknaður tekjuskattur var 50.590 kr. (bakfærð skuldbinding) en verður
    78.030 kr. 

  • Heildareignir voru 8.774.498. kr. en verða 9.068.941.

  • Eigið fé var 1.494.020 kr. en verður 1.735.375 kr.

  • Tekjuskattsskuldbinding var 146.062 kr. en verður 199.149 kr.

  • Veltufé frá rekstri var 951.015 kr. en verður 861.507 kr.


Helstu áhrif IFRS á niðurstöðu efnahagsreiknings í árslok 2006 eru eftirfarandi
(í þús.kr.): 

  • Heildareignir voru 8.904.005 kr. en verða 9.197.891 kr.

  • Eigið fé var 2.196.389 kr. en verður 2.435.647 kr.

  • Tekjuskattsskuldbinding var 292.306 kr. en verður 346.933 kr.

  • Heildarskuldir voru 6.707.616 kr. en verða 6.762.243 kr.



351 milljóna króna hagnaður á öðrum ársfjórðungi

Á öðrum ársfjórðungi, þ.e. frá 1. apríl til 30. júní 2007, voru tekjur
Vinnslustöðvarinnar 1.575 milljónir króna og rekstrargjöld 1.204 milljónir
króna. Framlegð tímabilsins var því 371 milljónir króna eða 24% af tekjum.
Hlutdeild félagsins í hagnaði hlutdeildarfélaga nam 7,5 milljónum króna.
Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 152 milljónir króna og er það aðallega vegna
styrkingar krónunnar á tímabilinu. Hagnaður tímabilsins var því 351 milljón
króna. Á sama tímabili í fyrra var framlegð 410 milljónir króna og tap af
rekstri 280 milljónir króna. 


Atburðir sem áttu sér stað að loknu rekstrartímabili

Tilkynnt var með árshlutauppgjöri 1. ársfjórðungs að hluthafar, sem eiga
samtals 50,04% hlut í Vinnslustöðinni hf., hefðu gert með sér samkomulag 16.
apríl 2007 um stjórnun og rekstur félagsins. Af 37. gr. laga nr. 33/2003 um
verðbréfaviðskipti leiðir að þeim var þar með skylt að gera öðrum hluthöfum
yfirtökutilboð innan fjögurra vikna. Í kjölfar yfirtökutilboðs yrði óskað eftir
því við stjórn Vinnslustöðvarinnar hf. að hlutabréf hennar yrðu afskráð úr
kauphöllinni OMX Nordic Exchange. Slíkt tilboð var gert þann 9 maí. Þann 31.
maí barst samkeppnistilboð í félagið og í kjölfarið framlengdist upphaflega
yfirtökutilboðið til samræmis við samkeppnistilboðið. Þann 23. júlí næstkomandi
renna bæði yfirtökutilboðin út. 


Rekstrarhorfur á árinu

Rekstrarhorfur félagsins til skemmri og lengri tíma hafa versnað.  Í fyrsta
lagi hefur styrking krónunnar neikvæð áhrif á tekjur félagsins. Vonir standa
hins vegar til þess að krónan veikist þegar vaxtalækkunarferli Seðlabanka
Íslands hefst. Í öðru laga hefur skerðing á aflamarki í þorski veruleg áhrif á
afkomu félagsins á næstu árum. Í þriðja lagi hefur afurðaverð verið hátt en er
tekið að lækka í afurðum ýmissa tegunda svo sem karfa, ufsa, humars auk
fiskimjöls. 



Frekari upplýsingar:
Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri
í símum 488 8004 og 897 9607

Attachments

vinnslustoin hf. - lykiltolur.pdf vinnslustoin hf. - arshlutareikningur.pdf