2007


Hagnaður ríflega tvöfaldaðist - arðsemi eigin fjár 59,5%


Icebank skilaði 4.198 m.kr. hagnaði eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2007,
þar af skilaði annar ársfjórðungur 2.399 m.kr. eftir skatta. Aukning hagnaðar á
milli ára er 138,6% fyrir fyrri hluta ársins. Í ár birtir bankinn í fyrsta sinn
ársfjórðungsleg uppgjör sem eru könnuð af endurskoðendum bankans. Þar sem
uppgjör síðasta árs voru aðeins birt hálfsárslega verður ekki gerður
samanburður á milli ársfjórðunga. Árshlutareikningurinn er í samræmi við
alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). 

Annar ársfjórðungur 2007

•  Hagnaður nam 2.399 m.kr. eftir skatta á öðrum ársfjórðungi 2007 borið saman
   við 1.798 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi.
 
•  Hagnaður á hvern hlut dróst lítið eitt saman frá fyrsta ársfjórðungi, úr 
   2,40 kr. í 2,10 kr. 

•  Arðsemi eigin fjár var 63,9% samanborið við 55,7% á fyrsta ársfjórðungi 2007.

•  Kostnaðarhlutfall stendur því sem næst í stað og er nú 10,0%, sem er með því
   lægsta sem gerist. 

•  Vaxtamunur var 2,2 % samanborið við 2,1% á fyrsta ársfjórðungi 2007. 
   

Fyrri helmingur ársins 2007

•  Hagnaður nam 4.198 m.kr. eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2007 borið
   saman við 1.759 m.kr. á sama tímabili í fyrra. 

•  Hagnaður á hvern hlut var 4,44 kr. samanborið við 2,75 kr. á sama tíma í
   fyrra. 

•  Arðsemi eigin fjár var 59,5% samanborið við 50,8% á fyrri hluta 2006.

•  Kostnaðarhlutfall var 10,0% miðað við 15,8% á sama tímabili árið 2006.

•  Vaxtamunur jókst úr 1,8% á fyrri helmingi síðasta árs í 2,2% nú. 

•  Fjármögnun bankans hefur gengið vel. Leitað var til erlendra banka með lánsfé
   í byrjun árs og fékkst meira lánsfé en óskað var eftir og á góðum kjörum. 

•  Starfsfólki bankans hefur fjölgað um 40,4% á síðustu 12 mánuðum. Fjölgunin
   hefur verið á öllum sviðum bankans, mest í tekjuskapandi störfum. 

Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri:
„Það er ánægjulegt að sjá hvað rekstur og afkoma bankans standa styrkum fótum.
Hagnaður hefur aldrei verið meiri á einum árshelmingi og arðsemi eigin fjár
heldur áfram að vera á bilinu 50-60% sem er afar góður árangur. Í nóvember sl.
var kynnt ný framtíðarsýn fyrir bankann sem felur í sér miklar
áherslubreytingar. Samhliða fjölþættu innra uppbyggingarstarfi hefur markvisst
verið unnið að því að festa nýja ímynd og áherslur bankans í sessi út á við og
auka viðskiptin. Þessa gætir einkum í lánastarfsemi bankans og gjaldeyris- og
afleiðuviðskiptum. Þannig voru vaxtatekjur á fyrri hluta ársins nánast tvöfalt
hærri en á sama tímabili í fyrra og tvöfalt hærri en allur rekstrarkostnaður í
bankanum. Þetta sýnir glöggt hvað undirliggjandi starfsemi bankans er sterk.
Mikilvægt er að viðhalda þessum árangri og bæta hann enn frekar samhliða því
sem auka þarf fjölbreytni í starfsemi bankans, fyrst og fremst með uppbyggingu
erlendis. Góð afkoma og sterk fjárhagsstaða bankans leggja traustan grunn að
slíkri sókn.“ 


Nánari upplýsingar veita:

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Icebank, í síma 540 4000.
Hafdís Karlsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, í síma 540 4000.

Um Icebank
Icebank er viðskiptabanki sem leggur áherslu á heildsölu- og
fjárfestingarbankastarfsemi gagnvart sparisjóðum, innlendum sem erlendum
fjármálafyrirtækjum og öðrum stærri aðilum. Hann er í eigu allra sparisjóða í
landinu.

Attachments

icebank - frettatilkynning.pdf icebank - arshlutareikningur 30.06.07.pdf