- Breyting á eignarhaldi Icebank


- fjölgun í hluthafahópnum - eignarhlutur sparisjóðanna verður 57,3% 


Tveir stærstu hluthafarnir í Icebank, BYR og SPRON, ákváðu í dag að minnka
eignarhlut sinn í 4% hvor sparisjóður. Auk þess ákváðu þrír minni sparisjóðir
að selja allan eignarhlut sinn í bankanum. Kaupendur eru Sparisjóðurinn í
Keflavík, Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóður
Svarfdæla, Sparisjóður Vestmannaeyja, stjórnendur bankans og fjárfestar.
Viðskiptin eru með fyrirvara um samþykki erlendra lánadrottna bankans fyrir
eigendabreytingum. Sparisjóðirnir, sem hingað til hafa verið einu eigendur
bankans, munu eftir viðskiptin áfram eiga meirihluta, eða 57,3% hlutafjár. Með
afnámi á öllum takmörkunum á eignarhaldi í samþykktum bankans og aðkomu nýrra
hluthafa er stigið mikilvægt skref í framþróun hans og öflugri sókn innan lands
og utan. 

Icebank kynnti nýja framtíðarsýn á síðasta ári en þar var gert ráð fyrir að
opna eignarhald og skrá hlutabréf bankans í kauphöll. Frá þeim tíma hafa orðið
breytingar og sameiningar meðal stærstu sparisjóðanna og þeim fækkað í 21.
Gangi yfirlýstar samrunaáætlanir eftir fækkar sparisjóðunum brátt í 16. Áður en
samningar um breytt eignarhald voru undirritaðir voru BYR og SPRON, tveir
stærstu sparisjóðir landsins, stærstu hluthafarnir í Icebank með samtals 53,2%
hlut. Gangi samrunaáætlanir sparisjóða eftir hefði hlutur þessara tveggja
sparisjóða hækkað í 60,6%. Að viðbættum eignarhlutum Sparisjóðsins í Keflavík
og Sparisjóðs Mýrasýslu hefði samanlagður hlutur fjögurra stærstu eigendanna
orðið 87,0%. Í ljósi mikilla breytinga í sparisjóðakerfinu og samþjöppunar í
hluthafahópi bankans þótti tímabært að opna eignarhaldið í bankanum. 

Helstu breytingar á eignarhaldi Icebank eru sem hér greinir:

•        Eignarhlutur BYRS og væntanlegra samrunasparisjóða (Sparisjóðs
         Kópavogs og Sparisjóðs Norðlendinga) var 36,1% en verður 4,0%. 
•        Eignarhlutur SPRON og dóttursparisjóðsins NB.is var 24,6% en verður
         4,0%.
•        Eignarhlutur Sparisjóðsins í Keflavík hækkar úr 12,2% í 15,2% og
         verður sparisjóðurinn jafnframt stærsti einstaki hluthafinn í
         bankanum. 
•        Eignarhlutur Sparisjóðs Mýrasýslu hækkar úr 8,7% í 11,7%.
•        Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóður Svarfdæla og Sparisjóður
         Vestmannaeyja kaupa 1,3% hlut hver. 
•        Fjárfestingarfélagið Suðurnesjamenn undir forystu Eiríks Tómassonar og
         fleiri fjárfesta á Suðurnesjum kaupir 8,5% hlut. 
•        Fjárfestingarfélagið Bergið undir forystu Steinþórs Jónssonar kaupir
         7,7% hlut. 
•        Aðalsteinn Gunnar Jóhannsson og Sigurður Smári Gylfason, stofnendur
         Behrens Fyrirtækjaráðgjafar, kaupa 4,5% hlut hvor. 
•        Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri og framkvæmdastjórarnir Agnar
         Hansson, Anna Reynis, Gunnar Svavarsson, Hafdís Karlsdóttir og Ólafur
         Ottósson kaupa samanlagt 8,5% hlut. 
•        Aðrir smærri fjárfestar kaupa 9,5% hlut.

Kaupverð og aðrir skilmálar viðskiptanna eru trúnaðarmál. Fyrirtækjaráðgjöf
SPRON Verðbréfa annaðist söluna. Fjármálaeftirlitið hefur verið upplýst um
viðskiptin en ljóst er að Sparisjóður Mýrasýslu þarf að óska eftir heimild til
að fara með virkan eignarhlut í bankanum. 

Sem fyrr greinir munu sparisjóðirnir eiga 57,3% í Icebank eftir þessi viðskipti
og nýir hluthafar 42,7%. Stærstu hluthafar úr hópi sparisjóða eru
Sparisjóðurinn í Keflavík (15,2%), Sparisjóður Mýrasýslu (11,7%), Sparisjóður
Vestmannaeyja (5,3%), Sparisjóður Bolungarvíkur (4,6%), BYR (4,0%) og SPRON
(4,0%). Boðað verður til hluthafafundar á næstunni þar sem nýtt bankaráð verður
kjörið. 

Mikill vöxtur hefur verið í starfsemi Icebank undanfarin misseri og afkoma
bankans verið afar góð. Þannig hafa heildareignir bankans þrefaldast frá
árslokum 2004 og námu 122 ma.kr. um mitt þetta ár. Á sama tíma hefur eigið fé
fimmfaldast og nam það 16,2 ma.kr. um mitt árið. Hagnaður bankans eftir skatta
var 5,7 ma.kr. í fyrra og 4,2 ma.kr. á fyrri hluta þessa árs. Arðsemi eigin
fjár á fyrri hluta þessa árs var 59,5% miðað við heilt ár. Bankinn hefur að
undanförnu lagt áherslu á sérhæfða lánastarfsemi hér á landi og erlendis og
gjaldeyris- og afleiðumiðlun auk hefðbundinnar þjónustu við sparisjóðina.
Bankinn hefur smám saman aukið hlutdeild erlendra lánaverkefna og til stendur
að auka enn frekar þátt erlendrar starfsemi. 

Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri:
„Með opnun eignarhalds er stigið mikilvægt og rökrétt skref í frekari framþróun
Icebank, skref sem ég tel að verði bankanum til mikilla heilla. Breytingar á
eignarhaldi þýða ekki að breytingar verði í rekstri en þær renna hins vegar
styrkari stoðum undir framtíðarstefnumótun bankans. Með því að afnema hömlur á
eignarhaldi skapast algerlega nýjar forsendur til að kaupa fyrirtæki og umbuna
starfsfólki sem hvort tveggja eykur samkeppnishæfni bankans. Sparisjóðirnir
hafa frá upphafi stutt bankann dyggilega en síðustu mánuði hafa aðstæður í
sparisjóðakerfinu og í bankanum breyst hraðar en nokkurn óraði fyrir. Að mínu
mati sýna sparisjóðirnir mikla framsýni með því að opna eignarhaldið nú og fá
nýja hluthafa til liðs við bankann. Mér finnst mikilvægt að allir sparisjóðir
verði áfram hluthafar og það er bankanum styrkur að þeir skuli áfram eiga
meirihluta. Þótt bankinn haldi áfram að gegna mikilvægu hlutverki sínu innan
sparisjóðakerfisins og veita þeim margs konar fjármálaþjónustu hefur verið
ljóst um nokkurt skeið, og var staðfest í núgildandi framtíðarsýn bankans, að
vaxtartækifæri hans liggja utan sparisjóðakerfisins, einkum erlendis.“ 


Nánari upplýsingar veita:
Geirmundur Kristinsson, formaður bankaráðs Icebank, í síma 421 6600.
Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Icebank, í síma 540 4000.