Uppgjör Kögunar ehf. fyrir tímabilið janúar til júní 2008. EBITDA Kögunar er 128 mkr. eða 18,6%. Stjórn Kögunar ehf. (KOGN) samþykkti á fundi þann 30. júlí 2008 árshlutareikning félagsins fyrir tímabilið 1. janúar - 30. júní 2008. Rekstarrekningur tímabilsins tekur nú aðeins til Kögunar ehf en stjórnir Kögunar og Teymis samþykktu skiptingu á Kögun ehf. þannig að dótturfélögin Skýrr ehf., EJS ehf. og Eskill ehf. heyra nú beint undir samstæðu Teymis hf. Helstu atriði: - Rekstrartekjur jukust um 6 mkr. eða 1% frá sama tímabili á fyrra ári. - EBITDA tímabilsins er 128 mkr. eða 18,6%. - Framlegð af rekstri var 247 mkr. og í samræmi við áætlun félagsins. - Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 514 mkr. og tap af rekstri eftir skatta af þeim sökum 334 mkr. Um uppgjörið: Rekstur Kögunar það sem af er árinu 2008 hefur gengið vel og afkoma í samræmi við áætlanir. Þrátt fyrir að blikur séu á lofti í umhverfi stærstu viðskiptavina þá hefur gengið vel að halda verkefnum gangandi og samningar um ný verkefni skilað sér í hús. Þannig má sem dæmi nefna samninga við stjórnvöld í Liechtenstein um útgáfukerfi vegna Schengen vegabréfsáritana og aukin verkefni í tengslum við rafræna stjórnsýslu. Stjórnendur Kögunar eru mjög ánægðir með þann árangur sem náðst hefur til þessa en framundan eru óvissutímar í ytra umhverfi félagsins og því erfitt að spá fyrir um hvernig reksturinn muni þróast það sem eftir lifir árs. Skipting Kögunar Stjórnir Kögunar ehf. og Teymis hf. ákváðu á fundi þann 3. apríl 2008 að leggja fyrir stjórnar- og hluthafafundi félaganna tillögu þess efnis að skipta Kögun ehf. þannig að Teymi yfirtæki alla eignarhluti Kögunar í dótturfélögunum Skýrr ehf., EJS ehf. og Eskli ehf. og skyldi skiptingin miðast við 1. janúar 2008. Tilgangurinn með þessari skiptingu var liður í endurskipulagningu Teymis sem miðar að því að ná meiri skilvirkni og hagkvæmni hluthöfum til handa. Síðari hluti skiptingar var staðfestur af stjórnum Teymis og Kögunar þann 30. júní 2008. Af þessum sökum er nú birtur árshlutareikningur pr. 30. júní 2008 sem einungis tekur til reksturs Kögunar og á á hið sama við um samanburð við rekstur janúar - júní 2007 en þar kemur sú starfsemi sem áður heyrði undir samstæðu Kögunar fram sem afkoma af aflagðri starfsemi. Framtíðarhorfur Eins og fram hefur komið að ofan hefur samstæða Kögunar ehf. breyst umtalsvert á síðustu tveimur árum og er Kögun ehf. nú sjálfstætt dótturfélag og hluti af samstæðu Teymi hf. sem er öflugasta fjarskipta- og upplýsingatæknifyrirtæki landsins. Hlutverk Kögunar í þeirri samstæðu er að vaxa markvisst á innanlandsmarkaði og styrkja enn frekar stöðu sína sem leiðandi fyrirtæki á upplýsingatæknimarkaði. Nánari upplýsingar um uppgjörið veita: Bjarni Birgisson, forstjóri sími 898-2006 Jóhann Þór Jónsson, fjármálastjóri sími 861-7221
Uppgjör fyrri árshelmings 2008
| Source: Kögun hf.