- Ríkisreikningur 2008


Lokið hefur verið við gerð ríkisreiknings fyrir árið 2008. Hér verður gerð
grein fyrir helstu niðurstöðum reikningsins og samanburði við fyrra ár. 



Í milljónum        Reikningur   Reikningur    Breyting        Fjárlög/fjár- 
króna                 2008         2007       fjárhæð      %     aukalög


Tekjur samtals       471.883      486.129      -14.246    -2,9     461.132 

Gjöld samtals        687.862      397.524      290.338    73,0     467.378 

Tekjur umfram       -215.979       88.604     -304.583      .       -6.246 
gjöld

Handbært fé frá 
rekstri               15.745       68.933      -53.188   -77,2      -1.404 

Lánsfjárjöfnuður    -397.999      -13.848     -384.151      .     -327.842




Afkoma ríkissjóðs 

Algjör viðsnúningur varð í rekstri ríkissjóðs á árinu 2008 eins og
ríkisreikningur ársins ber með sér. Rekstrarreikningur sýnir 216 milljarða
króna tekjuhalla eða 46% af tekjum ársins. Árið 2007 var 89 milljarða afgangur
eða um 18% af tekjum ársins. Í árslok 2008 var eigið fé neikvætt um 342
milljarða króna samanborið við jákvætt eigið fé um tæpa 10 milljarða króna í
árslok 2007. Stærstan hluta af þessum viðsnúningi má rekja til greiðsluþrots
viðskiptabankanna þriggja í október. Í desember yfirtók ríkissjóður veðlán
fjármálafyrirtækja af Seðlabanka Íslands og afskrifaði í kjölfarið umtalsverðan
hluta þeirra eða 175 milljarða króna. Þá þurfti ríkissjóður að afskrifa hluta
af tryggingabréfum sem útgefin höfðu verið af viðskiptabönkunum þremur og nam
sú afskrift 17 milljörðum króna. Loks hækkuðu lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs
töluvert á árinu 2008 sem verður að stórum hluta rakið til áhrifa af falli
bankanna á fjárhag lífeyrissjóðanna. Samanlögð gjaldaáhrif af þessum þremur
þáttum námu 234 milljörðum króna á árinu 2008. Hrun í afkomu ríkissjóðs milli
ára af því tagi sem að ofan greinir á sér tæpast hliðstæðu. 


Tekjur ríkissjóðs 

Tekjur ársins urðu alls 472 milljarðar króna á árinu 2008 eða 32% af
landsframleiðslu ársins. Árið 2007 námu tekjurnar 486 milljarði króna eða 37%
af landsframleiðslunni. Nam lækkunin 14 milljörðum króna eða 14% að raungildi
miðað við vísitölu neysluverðs. Þegar óreglulegir tekjuliðir eins og sala
efnislegra eigna og tekjur af peningalegum eignum hafa verið teknir útúr
tölunum þá hækka tekjurnar um 18 milljarða á milli ára og nema 469 milljarði
króna árið 2008 samanborið við 451 milljarð króna árið á undan sem er lækkun að
raungildi milli ára um 7%. Vaxtatekjur aukast mest í krónum talið milli ára eða
um 17 milljarða króna. Þá eykst fjármagnstekjuskattur um 11 milljarða króna og
tekjuskattur einstaklinga um 8 milljarða króna. Tekjur af vörugjöldum lækkuðu
mest milli ára eða um 6 milljarða króna, eignarskattar um 5 milljarða króna,
tekjuskattar lögaðila um 4 milljarða króna, virðisaukaskattur um 4 milljarða
króna og arðgreiðslur um 3 milljarða króna. Tekjur ríkissjóðs af
virðisaukaskatti er stærsti einstaki tekjuliðurinn og skilar hann 28% af
tekjunum. Þá skila tekjuskattar einstaklinga 20%. 


Gjöld ríkissjóðs 

Gjöld ríkissjóðs reyndust 688 milljarðar króna en árið 2007 námu þau 398
milljörðum króna. Hækkun milli ára nam 290 milljörðum króna, 73% eða um 54% að
raungildi. Meginskýringin á þessum miklu viðbótarútgjöldum eru veruleg aukning
í óreglulegum gjöldum sem áttfaldast milli ára. Þar af eru tapaðar kröfur 192
milljarðar króna sem eru afleiðingar af hruni viðskiptabankanna þriggja, hækkun
lífeyrisskuldbindinga um 41 milljarða króna, afskriftir skattkrafna 12
milljarðar króna og greiddur fjármagnstekjuskattur 3 milljarðar króna. Útgjöld
til heilbrigðismála námu 110 milljörðum króna eða 16% af gjöldum ríkissjóðs.
Hækkun milli ára nam 14 milljörðum króna eða 2% að raungildi. Gjöld til
almannatrygginga og velferðarmála námu 101 milljörðum króna eða 15% af gjöldum
ríkissjóðs og hækka um 6% að raungildi milli ára. Þá námu gjöld til menntamála
42 milljörðum króna eða 6% af gjöldum ríkissjóðs og hækkuðu um 2% að raungildi.
Gjöld til efnahags- og atvinnumála hækkuðu um 16% að raungildi og námu 68
milljörðum króna eða 10% af gjöldum ríkissjóðs. Gjöld vegna annarra málaflokka
námu samtals 120 milljörðum króna eða 17% af gjöldum ríkissjóðs. 


Hrein lánsfjárþörf 

Hrein lánsfjárþörf nam 398 milljörðum króna á árinu sem er um 27% af vergri
landsframleiðslu. Þessi lánsfjárþörf skýrist aðallega af þremur þáttum.
Yfirtöku á veðlánum hjá Seðlabanka Íslands sem síðan voru afskrifuð að tveimur
þriðju hlutum eða um 175 milljarða króna. Þá námu tapaðar kröfur af
tryggingabréfum vegna aðalmiðlara um 17 milljörðum og loks hækkuðu
lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs verulega á árinu. Heildarlántökur ríkissjóðs
námu 686 milljörðum króna á árinu 2008 og var 572 milljarða af því aflað
innanlands og 114 milljarða króna erlendis. Afborganir af teknum lánum voru
alls 232 milljarðar króna og í heild voru því nýjar lántökur 454 milljarðar
króna umfram afborganir á árinu 2008 og af því var 450 milljarða króna aflað á
innlendum markaði og 5 milljarða króna erlendis. 


Um ríkisreikning 2008 

Reikningur fyrir árið 2008 er settur fram í tveimur hlutum. Annars vegar er
samstæðureikningur um fjármál A-hluta ríkissjóðs. Hins vegar eru einstakir
reikningar stofnana í A-hluta, ríkisfyrirtækja í B-hluta, lánastofnana í
C-hluta, fjármálastofnana í D-hluta og hlutafélaga og sameignarfélag sem eru að
hálfu eða meiru í eigu ríkisins í E-hluta. Ríkisreikningur 2008 verður
aðgengilegur á veraldarvefnum á heimasíðu Fjársýslu ríkisins;http://www.fjs.is.

Attachments

efnahagsreikningur-2008.pdf frettatilkynning-552009-rikisreikningur-2008.pdf rekstrarreikningur-2008.pdf