Eyrir Invest tryggir sér 150 milljóna evra langtímalán og gefur út nýjan skuldabréfaflokk


Eyrir Invest hefur gert samkomulag við Arion banka og Landsbankann um framlengingu á lánum félagsins til 15. maí 2014 með vaxtagreiðslum á 6 mánaða fresti, fyrst 15. maí 2011. Um er að ræða fjölmyntalán sem bera 400 punkta álag á LIBOR/EURIBOR. Heildarfjárhæð framlengdra lána er um 150 milljónir evra.   

Þá hefur Eyrir Invest ákveðið að gefa út nýjan flokk skuldabréfa sem áætlað er að verði allt að 4 milljarðar króna að stærð. Þegar hefur verið samið um sölu á skuldabréfum úr hinum nýja flokki fyrir ríflega 1 milljarð króna. Skuldabréfin eru með lokagjalddaga 15. maí 2014 og vaxtagreiðslum á 12 mánaða fresti, fyrst 15. maí 2012.   Nýju skuldabréfin eru óverðtryggð með 500 punkta álagi á REIBOR með kvöðum um að eiginfjárhlutfall félagsins sé að lágmarki 25% og að hámarki sé greiddur út 50% arður af hagnaði félagsins. Sótt verður um skráningu flokksins til viðbótar við skuldabréfaflokk félagsins EYRI 05 1 sem skráður er á Nasdaq OMX á Íslandi. H.F. Verðbréf hefur umsjón með sölu og útgáfu skuldabréfaflokksins.  

Lykileignir Eyris Invest eru 32% hlutur í Marel, 14% hlutur í Össuri og 17% hlutur í Stork BV sem á og rekur Fokker-flugiðnaðardeild og Stork Technical Services sem er þjónustuaðili við olíu, gas og orkuiðnað.   Að auki styður Eyrir ýmsa sprota til vaxtar.   

Fjárhagur Eyris Invest er traustur og er félagið rekið með góðri arðsemi á árinu 2010.   Heildareignir Eyris Invest eru 420-430 milljónir evra og áætlað eiginfjárhlutfall er um 42-46%.