Kynningarfundur fyrir eigendur fjármálagerninga


Þann 22. desember 2010 samþykktu eigendur fjármálagerninga skilmálabreytingu sem veitti Reykjaneshöfn tækifæri til að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu. Stofnunin hefur unnið að stefnumótun og útfærslu á forsendum fjárhagslegrar endurskipulagningar frá nóvember 2010 og hefur athyglin einkum beinst að aðgreiningu atvinnusvæðis við Helguvík frá annarri starfsemi Reykjaneshafnar. Tækifærið í slíkri aðgreiningu er þríþætt:

  • Að laða nýtt fjármagn að atvinnuþróun í Helguvík
  • Að gefa lánadrottnum óbeina tryggingu í landareignum Reykjaneshafnar
  • Að losa Reykjanesbæ undan ábyrgð á hluta af skuldum Reykjaneshafnar

Ein útfærsla af slíkri aðgreiningu atvinnusvæðisins hefur verið útfærð ítarlega og hlotið nokkra kynningu, bæði meðal eigenda fjármálagerninga Reykjaneshafnar sem og til utanaðkomandi aðila.

Þann 17. febrúar s.l. voru undirritaðir fjárfestingarsamningar vegna byggingu kísilvers, ásamt samningum um orkukaup og aðstöðu í Helguvík. Samningar um aðstöðu í Helguvík eru þrír, þ.e. samningur um lóð undir kísilverið, verksamningur um framkvæmdir vegna hafnaraðstöðu sem þjóni kísilverinu og samningur um notkun á hafnaraðstöðu. Samkvæmt samningunum greiðir Íslenska kísilfélagið ehf. samtals 560 milljónir króna fyrir tæplega 11 hektara eignarlóð. Samningarnir voru undirritaðir með nokkrum fyrirvörum og hafa aðilar frest til 15. júní til þess að falla frá fyrirvörum sínum.

Eigendum fjármálagerninga sem útgefnir eru af Reykjaneshöfn er boðið til kynningar á tillögum um fjárhagslega endurskipulagningu og nánari útlistun á efni samninga við Íslenska kísilfélagið miðvikudaginn 16. mars 2011, klukkan 10:00 á Hilton Reykjavík Nordica, ráðstefnusal G.