Fjárhagsáætlun 2012 og þriggja ára áætlun 2013-2015


Fimmtudaginn 24. nóvember 2011 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fjarðabyggðar  fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og stofnana fyrir árið 2012 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2013-2015. Þriggja ára áætlun 2013-2015 er sett fram á föstu verðlagi. Seinni umræða bæjarstjórnar um fjárhagsáætlun 2012 og þriggja ára áætlun 2013-2015 verður þann 1. desember n.k.

Í A hluta er Aðalsjóður auk eignasjóða. Í B hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir og sorpstöð. Rekstrarafgangur samstæðu A og B hluta á árinu 2012 fyrir fjármagnsliði nemur 873 m.kr. Þar af er rekstrarafgangur A hluta 332 m.kr. Að teknu tilliti til fjármagnsliða er rekstrarafgangur hjá samstæðu A og B hluta að fjárhæð 314 m.kr. en rekstrartap í A hluta að fjárhæð 62 m.kr. Þriggja ára áætlun gerir ráð fyrir rekstrarafgangi hjá A hluta öll árin. Þá er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur aukist frá ári til árs bæði hjá A hluta og samstæðu A og  B hluta.

Eigið fé samstæðu nemur 606 m.kr. í árslok 2012 og eiginfjárhlutfall 5,4%. Í árslok 2015 er gert ráð fyrir að eigið fé samstæðu nemi 2.174 m.kr. og eiginfjárhlutfall 19,5%. Í A hluta er eigið fé neikvætt um 687 m.kr. í árslok 2012. Jákvæð afkoma í A hluta í þriggja ára áætlun styrkir eigið fé sem er í árslok 2015 neikvætt um 244 m.kr.

Handbært fé frá rekstri í samstæðunni nemur 926 m.kr. á árinu 2012, fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 330 m.kr. og afborganir langtímalána 511 m.kr. Handbært fé í samstæðu er 797 m.kr. í árslok 2012 og eykst um 158 m.kr. frá ársbyrjun. Í þriggja ára áætlun nemur handbært fé frá rekstri í samstæðu á árunum 2013-2015 samtals 2.747 m.kr. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum eru samtals 1.405 m.kr. og afborganir langtímalána samtals 1.913 m.kr. Tekin ný langtímalán eru samtals áætluð 350 m.kr. á árunum 2013-2015. Þá er handbært fé í árslok 2015 677 m.kr.

Skuldir og skuldbindingar samstæðu, sem hlutfall af heildartekjum, er áætlað 220,2% í árslok 2012 og 186,5% í árslok 2015. Sveitarfélagið hefur verið í góðum samskiptum við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga vegna skuldastöðu sveitarfélagsins. Framlegðarhlutfall (EBIDTA) er 26,4% í samstæðu og 16,0% í A-hluta á árinu 2012 og fer vaxandi frá ári til árs í þriggja ára áætlun.

Stærstu fjárfestingaverkefni næstu ára eru bygging hjúkrunarheimilis á Eskifirði, áframhald framkvæmda við snjóflóðavarnarmannvirki á Norðfirði, framkvæmdir við nýjan leikskóla á Norðfirði auk ýmissa framkvæmda hjá hafnarsjóði.

 

Nánari upplýsingar um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar veita Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri og Björgvin Valdimarsson fjármálastjóri í síma 470-9000.


Attachments