Eyrir Invest tryggir fjármögnun til lengri tíma


Eyrir Invest ehf. hefur samið um langtímalán við Arion banka hf. Lánið er í upphafi í íslenskum krónum að fjárhæð 2 milljarðar króna (12,5 m evra). Lánið er tryggt með veði í skráðum hlutabréfum og ber REIBOR + 2,5% vexti. Vextir greiðast á 6 mánaða fresti og höfuðstóll lánsins er á gjalddaga í maí 2015. Ákvæði er um framlengingu á helmingi höfuðstólsins til 2016.

Eyrir hefur í dag einnig samið við Glitni banka hf. um framlengingu á bankaláni upp á 14 milljónir evra. Lánið er tryggt með veði í skráðum hlutabréfum og ber EURIBOR + 3,75% vexti sem greiðast á 3 mánaða fresti. Nýr gjalddagi höfuðstóls lánsins er í desember 2013 í stað september 2012.

Gert er ráð fyrir að skuldabréfaflokkurinn EYRI 11 1, að fjárhæð ríflega 1 milljarður króna, verði tekinn til skráningar og viðskipta á Nasdaq OMX á Íslandi í upphafi árs 2012.

Lántakan, framlengingin og skráning skuldabréfanna er hluti af lána- og lausafjárstýringu Eyris Invest.

Um Eyrir Invest

Eyrir er alþjóðlegt fjárfestingarfélag sem leggur ríka áherslu á virka þátttöku í rekstri og stefnumörkun lykileigna sinna. Kjölfestueignir Eyris eru 36% hlutur í Marel og 17% hlutur í Stork BV sem á og rekur iðnfyrirtækin Stork Technical Services og Fokker Technologies. Á síðustu árum hefur Eyrir aukið vægi sprotafjárfestinga í eignasafni sínu. „Kaupa og styðja til vaxtar“ stefna Eyris hefur skilað góðri ávöxtun frá stofnun félagsins árið 2000

www.eyrir.is