Ársreiknigur Garðabæjar fyrir árið 2011

Sterk fjárhagsstaða og góð afkoma


Niðurstaða ársreiknings Garðabæjar fyrir árið 2011 sýnir vel sterka fjárhagsstöðu bæjarins. Rekstrarniðurstaða er jákvæð um 352 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð  75 m.kr. Þessa góðu niðurstöðu má fyrst og fremst rekja til hærri tekna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir, sem eru m.a. til komnar vegna fjölgunar íbúa umfram spár.  Ársreikningurinn var lagður fram í bæjarráði í dag.

Rekstur Garðabæjar gengur vel eins og niðurstaða ársreiknings ber vott um. Rekstrartekjur ársins námu 6.714 m.kr. og rekstrargjöld með fjármagnsliðum voru 6.362 m.kr. Niðurstaðan er því jákvæð sem nemur 352 m.kr.  Þrátt fyrir það eru álögur á íbúa lágar í Garðabæ. Útsvar var á síðasta ári og er enn 13,66% sem er með því lægsta sem gerist á landinu.

Stærsti liðurinn í rekstri bæjarins er laun og launatengd gjöld sem námu 2.913 m.kr. Stærsti málaflokkurinn er fræðslu- og uppeldismál en til hans er varið tæpum þremur milljörðum. Rúmar 718 milljónir fara til íþrótta- og æskulýðsmála og 590 milljónir í félagsþjónustu.

Framkvæmdir síðasta árs námu samtals 870 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 928 m.kr. Stærstu framkvæmdir ársins voru bygging leikskólans Akra, sem var byggður án lántöku og framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Sjálandi.  Kostnaður við leikskólann Akra nam 246 m.kr. á árinu og til  byggingar hjúkrunarheimilis á Sjálandi var 255 m.kr. varið á árinu. Þá var 155 m.kr.  varið til kaupa á húsnæði fyrir fatlað fólk og 56 m.kr. til ýmissa framkvæmda við skóla bæjarins.

Allar kennitölur í rekstri staðfesta fjárhagslegan styrk Garðabæjar. Veltifjárhlutfall er 1,44 og eiginfjárhlutfall 59%. Skuldahlutfall hefur lækkað, er 96% en var 113% árið 2010. Langtímaskuldir við lánastofnanir og leiguskuldir nema samtals 3.793 m.kr. samanborið við 4.216 m.kr. árið 2010.  Eignir nema samtals 15.596 m.kr. árið 2011 og hafa hækkað um 562 m.kr. milli ára. Veltufé frá rekstri er 1.181 m.kr. en var 1.009 m.kr. árið 2010.

Garðabær tók við rekstri á málefnum fatlaðs fólks í ársbyrjun 2011 af ríkinu og sér einnig um málaflokkinn fyrir Sveitarfélagið Álftanes skv. samningi þar um.  Vel hefur tekist til með rekstur málaflokksins. Á þessu fyrsta ári var þess gætt sérstaklega að fylgjast gaumgæfilega með honum og var hann samkvæmt áætlun.

Íbúar Garðabæjar voru 11.270 1. desember 2011 samanborið við 10.895 árið áður sem gerir íbúafjölgun um 3,4%.

 

Nánari upplýsingar veitir: 
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri,
sími: 820 8541,
netfang: gunnar@gardabaer.is.


Attachments