Reykjaneshöfn greiðir niður skuldir


Þann 28. ágúst s.l. tilkynnti Reykjanesbær um sölu á 6,3 milljarða króna skuldabréfi sem bæjarfélagið eignaðist árið 2009 við sölu á eignarhlut í HS Orku. Skuldari bréfsins er Magma Energy Sweden.

Ákvæði í lánaskjölum Reykjaneshafnar og í skilmálum skuldabréfaflokkanna RNH 16 1015 og RNH 27 0415 skuldbinda Reykjanesbæ til þess að lána til hafnarinnar fjórðung af þeim fjármunum sem falla til við söluna á ofangreindu skuldabréfi.

Við söluna fékk Reykjanesbær um 3,5 milljarða króna í peningum og um 500 milljónir í markaðsskuldabréfum, en eftirstöðvar söluverðsins koma til greiðslu árið 2017. Í samræmi við ofangreindar skuldbindingar mun Reykjanesbær veita Reykjaneshöfn víkjandi lán að fjárhæð 870 milljónir króna, eða sem samsvarar 25% af þeim peningum sem Reykjanesbær fékk í hendur við sölu bréfsins.

Reykjaneshöfn hyggst nýta um 700 milljónir króna af þessu láni til endurkaupa á skráðum skuldabréfum og til greiðslu inn á lánasamninga. Með þessu er verið að létta greiðslubyrði næstu ára og styrkja rekstrarhæfi hafnarinnar. Uppgjör vegna endurkaupa mun fara fram þann 15. nóvember 2012. Reykjaneshöfn hefur tilnefnt Centra Fyrirtækjaráðgjöf hf. sem umboðsmann sinn til að hafa milligöngu um að handhafar skuldabréfa geti neytt fjárhagslegra réttinda sinna. Fulltrúi Centra er Sigurður Harðarson, sími 450 1507.

Nánari upplýsingar veitir Pétur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Atvinnu- og hafnarsviðs Reykjanesbæjar í síma 420-3222.