Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2016 og þriggja ára áætlun 2017-2019


Fimmtudaginn 29. október 2015 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fjarðabyggðar fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og stofnana fyrir árið 2016 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2017-2019.  Dagsetning seinni umræðu bæjarstjórnar um fjárhagsáætlun 2016 og þriggja ára áætlun 2017-2019 liggur ekki fyrir, en henni skal, lögum samkvæmt vera lokið fyrir 15. desember n.k..

Nokkur óvissa er á þessum tímapunkti um endanlega niðurstöðu áætlunarinnar vegna aðstæðna í ytra umhverfi sveitarfélagsins, auk þess sem vinna þarf frekar að leiðum til aukinnar hagræðingar í rekstri A hluta sveitarfélagsins. Tillagan þarfnast af þeim sökum lengri umfjöllunar en oft áður á milli umræðna í bæjarstjórn og kann það að hafa áhrif á efnislega niðurstöðu hennar. Þá liggja enn ekki fyrir niðurstöður í kjaraviðræðum fjölda starfsmanna sveitarfélaga og ekki heldur endanlegir útreikningar á tekjumissi Fjarðabyggðar vegna innflutningsbanns Rússlands. Sett hefur verið varúðarfærsla í tekjuáætlun sveitarfélagsins vegna þessa. 

Rekstrarafgangur samstæðu A og B hluta á árinu 2016 fyrir fjármagnsliði nemur 701 m.kr.  Þar af er rekstrarafgangur A hluta 233 m.kr.  Að teknu tilliti til fjármagnsliða er rekstrarafgangur hjá samstæðu A og B hluta áætlaður að fjárhæð 244 m.kr. en rekstrarhalli í A hluta að fjárhæð 49 m.kr.  Þriggja ára áætlun gerir ráð fyrir rekstrarhalla af A hluta en rekstrarafgangi af samstæðu öll árin. 

Eigið fé samstæðu nemur 2.926 m.kr. í árslok 2016 og eiginfjárhlutfall 24,8%.  Í árslok 2019 er gert ráð fyrir að eigið fé samstæðu nemi 3.919 m.kr. og eiginfjárhlutfallið verði um 32,1%.  Í A hluta er eigið fé neikvætt um 332 m.kr. í árslok 2016.  Þriggja ára áætlunin gerir áfram ráð fyrir neikvæðu eigin fé í A hluta og í árslok 2019 verði það neikvætt um 439 m.kr.

Handbært fé frá rekstri í samstæðunni nemur 1.067 m.kr. á árinu 2016, fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 810 m.kr., lántaka til endurfjármögnunar 784 m.kr. og afborganir langtímalána 1.322 m.kr.  Handbært fé í samstæðu verður 278 m.kr. í árslok 2016 og lækkar um 274 m.kr. frá ársbyrjun.

Skuldaviðmið samstæðu Fjarðabyggðar verður komið undir 150% í árslok 2015 en áætlað 141% í árslok 2016.  Skuldaviðmið samkvæmt lögum verður því komið undir lögbundið hámark sem er fagnaðarefni fyrir Fjarðabyggð.  Skuldir og skuldbindingar samstæðu, sem hlutfall af heildartekjum, er áætlað 154,3% í árslok 2016 og 142,88% í árslok 2019.  Framlegðarhlutfall (EBIDTA) er áætlað um 20% í samstæðu og um 10% í A hluta á tímabilinu 2016 – 2019 og helst nokkuð stöðugt í langtímaáætlunum sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hefur verið í góðum samskiptum við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga vegna skuldastöðu sveitarfélagsins.

Stærstu fjárfestingaverkefni næstu ára eru lok framkvæmda við nýjan leikskóla á Norðfirði, áframhaldandi þátttaka í ofanflóðavörnum, stækkun hafnarmannvirkja vegna aukinna umsvifa í hafnsækinni starfsemi auk ýmissa minni verkefna.

Áætlunin fyrir árið 2016 gerir ráð fyrir 4,3% meðalbreytingum verðlags milli áranna 2015 og 2016 en vegna mikillar óvissu í kjarasamningum eru áhrif væntanlegra kjarasamninga ekki metnar sem og vænt hækkun útsvarstekna á móti auknum launaútgjöldum. Gert er ráð fyrir því að endanlega niðurstaða vegna þessa liggi fyrir við aðra umræðu um fjárhagsáætlun ársins 2016

Í fjárhagsáætluninni er lögð áframhaldandi áherslu á velferð fjölskyldufólks í Fjarðabyggð. Fæðisgjaldskrá grunnskóla og gjaldskrá leikskóla og tónlistarskóla standast samanburð við önnur sveitarfélög, sbr. systkinaafslátt  í leikskólum sem og milli frístundaheimila og leikskóla. Systkinaafsláttur leikskólagjalda er óbreyttur og er, ásamt tónlistarskólagjöldum, með því hagstæðasta sem gerist á landinu.

Sterkir innviðir Fjarðabyggðar draga að sér áhuga fjárfesta. Hefur þessi áhugi einkum beinst að atvinnuuppbyggingu í hafnsækinni starfsemi, s.s. vegna olíuleitar á Drekasvæðinu. Þá kallar sterkur og vaxandi sjávarútvegur í sveitarfélaginu á auknar framkvæmdir í hafnarmannvirkjum.  Framangreint sýnir sterka stöðu sveitarfélagsins til framtíðar litið, sem endurspeglast m.a. í þeirri fjárhagsáætlun sem lögð var fram í bæjarstjórn Fjarðabyggðar í dag.

 

Nánari upplýsingar um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar veita Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri og Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.


Attachments

Fjárhagsáætlun_2016_tillaga fyrir bæjarstjórn 29-10-2015.pdf Fjárhagsáætlun_2017-2019_ tillaga fyrir bæjarstjórn 29-10-2015.pdf