Hálfsársuppgjör Akureyrarbæjar 2020


Afkoma Akureyrarbæjar undir áætlun
m.a. vegna heimsfaraldurs Covid-19

Árshlutareikningur fyrir A- og B-hluta Akureyrarbæjar fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2020 var lagður fram í bæjarráði í dag. Árshlutauppgjörið er óendurskoðað en verður með könnunaráritun eftir fund bæjarstjórnar.

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta á fyrri hluta ársins var neikvæð um 1.297,5 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarhalli yrði 1.154,1 milljónir króna á tímabilinu. Afkoma samstæðunnar á fyrri hluta ársins er því nokkuð lakari en áætlunin.

Rekstrarniðurstaða A-hluta á fyrri hluta ársins var neikvæð um 1.096,5 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarhalli yrði 1.181,3 milljónir króna á tímabilinu. Afkoma A-hluta er því nokkru betri en áætlun gerði ráð fyrir.

Tekjur samstæðunnar voru samtals 13.143 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að tekjur yrðu 13.556 milljónir króna. Skatttekjur voru 6.157 milljónir króna sem er 54 milljónum umfram áætlun. Tekjur frá Jöfnunarsjóði voru 1.628 milljónir króna sem er 25 milljónum undir áætlun. Aðrar tekjur voru 5.359 milljónir króna sem er 441 milljónum undir áætlun.

Rekstrargjöld samstæðunnar fyrir afskriftir voru samtals 12.669 milljónir króna sem er 210 milljónum undir áætlun. Laun og launatengd gjöld voru 8.641 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir 8.259 milljónum króna. Annar rekstrarkostnaður var 4.027 milljónir króna sem er 592 milljónum undir áætlun. Fjármagnsgjöld, nettó, voru 813 milljónir króna sem er 62 milljónum króna undir áætlun. Afskriftir voru 981 milljón króna samanborið við 957 milljónir króna í áætlun.

Samkvæmt sjóðsstreymi samstæðunnar var veltufé frá rekstri 497 milljónir króna eða 3,8 af tekjum. Fjárfestingahreyfingar voru 1.625 milljónir króna og fjármögnunarhreyfingar 1.314 milljónir króna. Afborganir lána voru 413 milljónir króna. Engin ný langtímalán voru tekin á tímabilinu. Handbært fé var 2.782 milljónir króna í lok júní.

Fastafjármunir samstæðunnar voru 52.462 milljónir króna og veltufjármunir 5.824 milljónir króna. Eignir voru samtals 58.286 milljónir króna samanborið við 56.439 milljónir króna á árslok 2019. Eigið fé var 25.142 milljónir króna en var 26.434 milljónir króna um síðustu áramót. Langtímaskuldir og skuldbindingar voru 27.767 milljónir króna en voru 25.787 milljónir króna í lok síðasta árs. Skammtímaskuldir voru 5.376 milljónir króna en voru 4.219 milljónir króna um sl. áramót.

Veltufjárhlutfall var 1,08 á móti 1,15 í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfall var 43,1% í lok júní.

Nánari upplýsingar veitir:
Dan Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs
Sími 460-1000

Viðhengi



Attachments

Árshlutareikningur Akureyrarbæjar 6 mán 2020 - fyrir bæjarráð-undirritað