Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2021 og þriggja ára áætlun 2022-2024


Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2021 og þriggja ára áætlun 2022-2024

Fimmtudaginn 5. nóvember 2020 er tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fjarðabyggðar fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og stofnana fyrir árið 2021 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2022-2024.  Seinni umræða bæjarstjórnar um fjárhagsáætlunina hefur ekki verið ákveðin en verður fyrir miðjan desember nk.

Áætlunin ber merki þess að Covid-19 faraldurinn, sem tekist hefur verið á við á árinu, hefur haft mikil efnahagsleg áhrif á Íslandi og í öllum heiminum.  Áætlað er að niðurstaða ársins 2020 verði sem nemur um 250 milljónum kr. lakari en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir vegna þessa.  Ófyrirséð er hversu alvarlegar afleiðingar Covid-19 mun hafa á efnahagsþróunina á árinu 2021 en reynt er að stíga varlega til jarðar í fjárhagsáætlun ársins 2021 fyrir Fjarðabyggð.  Gert er ráð fyrir varfærinni nálgun í skatttekjum sem og þjónustugjöldum Fjarðabyggðar auk hafnarsjóðs en Fjarðabyggðarhafnir eru annar stærsti hafnarsjóður landsins og stærsta löndunarhöfn á uppsjávarafurðum hérlendis.  Ekki er gert ráð fyrir loðnuveiðum á árinu 2021 í fjárhagsáætluninni vegna óvissu í mælingum á stofnstærð, hvorki í útsvarstekjum eða tekjum hafnarsjóðs.

Eins og verið hefur undanfarin ár er með fjárhagsáætluninni áfram lögð áhersla á velferð fjölskyldufólks í Fjarðabyggð.  Við gerð fjárhagsáætlunar 2021 munu flestar gjaldskrár hækka undir áætluðum verðlagsbreytingum og launahækkunum samkvæmt kjarasamningum.  Gjaldskrár leikskóla, frístundaheimila og tónlistarskóla standast vel samanburð við önnur sveitarfélög þ.m.t. systkinaafsláttur sem og afsláttarkjör milli frístundaheimila og leikskóla. Systkinaafsláttur leikskóla- og frístundagjalda ásamt tónlistarskólagjöldum er með því hagstæðasta sem gerist á landinu. Þá verður áframhald á lækkun skólamáltíða í Fjarðabyggð en máltíðin kostaði 450 kr. árið 2018 en 150 kr. í dag. En markmiðið er að þær verði gjaldfrjálsar frá haustinu 2021.  Með þessu er áfram lögð áhersla á velferð fjölskyldufólks í Fjarðabyggð. 

Fjarðabyggð býr að sterkum innviðum og sjást merki þess í áhuga fjárfesta á Fjarðabyggð.  Áhuginn hefur einkum beinst að atvinnuuppbyggingu í hafnsækinni starfsemi. Þetta má m.a. sjá á áhuga fyrirtækja í fiskeldi á að koma starfsemi sinni fyrir í fjörðum Fjarðabyggðar. Slíkur áhugi sýnir sterka stöðu sveitarfélagsins til framtíðar litið, sem endurspeglast í þeirri fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram.  

Eins og áður verður aðhald í rekstri sveitarfélagsins viðvarandi á næstu árum og áfram verður leitað hagræðingartækifæra. Sú fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram, er unnin með hliðsjón af fjármálareglum og fjárhagslegum viðmiðum sveitarfélaga, samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011.   

Heildartekjur samstæðu A og B hluta eru áætlaðar rúmir 8,5 milljarðar króna á árinu 2020 en heildar rekstrarkostnaður um 7,9 milljarðar króna. Þar af eru launaliðir um 4,6 milljarðar króna, annar rekstrarkostnaður um 2,7 milljarðar króna og afskriftir um 560 milljónir króna.  Heildartekjur í A-hluta eru áætlaðar tæpir 6,3 milljarðar króna en heildar rekstrarkostnaður um 6 milljarðar króna. Þar af eru launaliðir um 3,8 milljarðar króna, annar rekstrarkostnaður um 1,9 milljarðar króna. og afskriftir um 264 milljónir króna.

Rekstrarafgangur samstæðu A og B hluta fyrir fjármagnsliði er áætlaður 611 milljónir króna. Þar af er rekstrarafgangur A hluta 244 milljónir króna. Að teknu tilliti til fjármagnsliða verður rekstrarafgangur samstæðunnar 343 milljónir króna en rekstrarhalli í A hluta að fjárhæð 11 milljónir króna.  Hrein fjármagnsgjöld samstæðu eru áætluðuð 268 milljónir króna og 233 milljónir króna hjá A-hluta.

Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar rúmlega 9,5 milljarðar króna í árslok 2021 hjá samstæðu A og B hluta og um 9,7 milljarðar króna hjá A hluta. Þar af eru reiknaðar lífeyrisskuldbindingar rúmlega 2,7 milljarðar króna hjá samstæðu og tæplega 2,6 milljarðar hjá A-hluta.

Í sjóðstreymisyfirliti er handbært fé frá rekstri í samstæðu 2021 áætlað rúmur 870 milljónir króna, afborganir langtímalána eru áætlaðar 540 milljónir króna og fjárfestingar tæplega 1,1 milljarður króna  Afborganir langtímalána eru áætlaðar 386 milljónir króna í A hluta.

Samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 2021 er framlegðarhlutfall (EBIDTA) um 15% í samstæðu og rúm 8% í A hluta. 

Nánari upplýsingar um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar veita Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri og Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.


Viðhengi



Attachments

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2021 - 2024 FU fyrir bæjarstjórn Fréttatilkynning Fjarðabyggð fjárhagsáætlun 2021-2024