Síminn hf. - Áframhaldandi tekjuvöxtur í kjarnaþjónustu


Helstu niðurstöður úr rekstri á 2F 2023

  • Tekjur á öðrum ársfjórðungi (2F) 2023 námu 6.283 m.kr. samanborið við 6.036 m.kr. á sama tímabili 2022 og jukust um 4,1%. Enn er tekjuvöxtur í kjarnaþjónustu Símans, en tekjur af farsíma, gagnaflutningi og sjónvarpsþjónustu aukast um tæp 9% á fjórðungnum. Vörusala búnaðar dregst saman um 17,5%.
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 1.410 m.kr. á 2F 2023 og eykst því um 11 m.kr. eða 0,8%. EBITDA hlutfallið er 22,4% fyrir 2F 2023 en var 23,2% á sama tímabili 2022. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 362 m.kr. á 2F 2023 samanborið við 682 m.kr. á sama tímabili 2022.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 145 m.kr. á 2F 2023 en námu 165 m.kr. á sama tímabili 2022. Fjármagnsgjöld námu 263 m.kr., fjármunatekjur voru 124 m.kr. og gengistap nam 6 m.kr.
  • Hagnaður á 2F 2023 nam 179 m.kr. samanborið við 410 m.kr. hagnað af áframhaldandi starfsemi á sama tímabili 2022.
  • Vaxtaberandi skuldir samstæðu að leiguskuldbindingum meðtöldum námu 8,8 ma.kr. í lok 2F 2023, en voru 8,9 ma.kr. í árslok 2022. Handbært fé í lok 2F 2023 nam 0,7 ma.kr., en var 3,7 ma.kr. í árslok 2022. Staða útlána hjá Símanum Pay var 2,2 ma.kr. í lok 2F 2023, en var 1,7 ma.kr. í árslok 2022.
  • Eiginfjárhlutfall Símans var 55,1% í lok 2F 2023 og eigið fé 18,2 ma.kr.


Orri Hauksson, forstjóri:

„Árið 2023 er fyrsta árið sem Síminn starfar sem hreinræktað þjónustufyrirtæki, eftir að hafa selt Mílu á síðasta ári. Í kjölfar slíkra grundvallarbreytinga er ánægjulegt að sjá tekjur kjarnavara okkar vaxa myndarlega milli ára, þ.e. í interneti, sjónvarpi og farsíma. Auglýsingatekjur sjónvarps eru dæmi um þá aukningu og á sú þjónusta enn talsvert inni vegna nýrra möguleika sem byrjað er að bjóða auglýsendum upp á. Útlán gegnum veltukort okkar njóta einnig heilbrigðs vaxtar og því eru fjármagnstekjur Símans að aukast. Í hávaxtaumhverfi dagsins eru fjármagnsgjöld einnig að aukast, en hófleg skuldsetning félagsins kemur til góða við núverandi aðstæður. Tekjur af talsíma halda áfram sínum fyrirsjáanlega samdrætti og sala búnaðar var auk þess lægri en á sama tíma í fyrra.

Í heild hækkar EBITDA lítillega á fjórðungnum, þar sem kostnaður óx næstum jafn hratt og tekjur. Laun hækkuðu hratt í takt við launaþróun í landinu og birgjasamningar eru margir með beina og óbeina tengingu við almenna verðþróun.

Vegna átaks í fjárfestingum undanfarið í sjónvarpsefni og tækni, sem hefur stuttan afskriftatíma en mun með ýmsum hætti styrkja reksturinn til lengri tíma litið, eru hraðar afskriftir á þessu ári. Langtímauppbygging 5G kerfa heldur áfram í samstarfi við Mílu og gamla talsímakerfið verður lagt af um áramót, sem mun spara kostnað á móti lækkandi tekjum í talsíma.

Eins og áður hefur verið kynnt hefur staðið til að draga úr fjárfestingum í sjónvarpsefni næstu misserin. Umfangið gæti dregist enn hraðar saman á síðustu mánuðum ársins en gert var ráð fyrir, þar sem stefnir í skort á sjónvarpsefni frá Bandaríkjunum vegna verkfalla leikara og handritshöfunda. Á móti kemur að íslenskt efni verður sterkt í vetur, svo sem leiknar íslenskar þáttaraðir og þættir um hljómsveitina IceGuys. Áhugaverðir íþróttaréttir munu verða boðnir út með haustinu, en fram er komin ný óvissa um virði slíkra rétta ef nýlunda Samkeppniseftirlitsins varðandi lagalega meðhöndlun þeirra fær að standa. Undir öllum kringumstæðum er Síminn með áætlanir um að bregðast hratt við til að bjóða kröfuhörðum sjónvarpsáhorfendum á Íslandi upp á gæðaefni.

Framundan eru ýmsar spennandi breytingar. Í fjártækni höldum við áfram að auka þjónustuúrval okkar með ferðapunktum Icelandair og sölu sveigjanlegra ferðatrygginga frá VÍS. Við hófum nýlega samstarfsverkefni með HSÍ um nýstárlega dreifingu á handboltaleikjum í sjónvarpi sem allir landsmenn munu geta nálgast. Fleiri innlendar íþróttagreinar munu vonandi fylgja í kjölfarið á þessari áhugaverðu nýbreytni. Við höfum nýlega gert mestu breytingar á vörusamsetningu okkar í átta ár og frekari nýmæli eru í farvatninu. Við höfum einnig hnikað efnahagsreikningi okkar nær stefnu félagsins um fjármagnsskipan, meðal annars með útgáfu víxla, skuldabréfa og kaupum á eigin bréfum. Breytingaárið 2023 verður áfram viðburðaríkt hjá Símanum.“


Kynningarfundur 23. ágúst 2023

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn miðvikudaginn 23. ágúst 2023 kl. 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 25, Reykjavík. Hluthafar, fjárfestar og markaðsaðilar eru sérstaklega boðnir velkomnir á fundinn. Á fundinum munu Orri Hauksson forstjóri og Óskar Hauksson fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins og svara fyrirspurnum. Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast í fréttakerfi Nasdaq Iceland og á heimasíðu Símans https://www.siminn.is/fjarfestar/uppgjor-og-arsskyrslur.

Jafnframt verður hægt að fylgjast með fundinum í netstreymi á vefslóðinni: https://www.siminn.is/fjarfestakynning.

Þeir sem vilja bera upp spurningar geta sent þær á fjarfestatengsl@siminn.is og verður þeim svarað í lok fundarins.


Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans (orri@siminn.is)
Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans (oskarh@siminn.is)

Viðhengi



Attachments

Síminn hf  - Afkomutilkynning 2F 2023 Síminn hf. - Fjárfestakynning 2F 2023 Síminn hf. - Árshlutareikningur samstæðu 2F 2023