Rekstrarafgangur Mosfellsbæjar áætlaður tæpur milljarður árið 2024 Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar sem var lögð fram til síðari umræðu í bæjarstjórn, þann 6. Desember, er lögð áhersla á ábyrgan rekstur samhliða mikilli uppbyggingu innviða,


Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar sem var lögð fram til síðari umræðu í bæjarstjórn, þann 6. Desember, er lögð áhersla á ábyrgan rekstur samhliða mikilli uppbyggingu innviða, háu þjónustustigi og lágum gjöldum til barnafjölskyldna.

  • Afgangur verður af rekstri A- og B- hluta, 969 m.kr.
  • Nýframkvæmdir ársins 2024 eru áætlaðar 5,1 milljarður kr.
  • Veltufé frá rekstri verður jákvætt um 2.052 m.kr. eða um 9,5% af heildartekjum.
  • Tekjur af byggingarétti áætlaðar 800 m.kr.
  • Álagning fasteignaskatts A lækkar til að koma til móts við hækkun fasteignamats.
  • Álagningarprósenta fasteignaskatts atvinnuhúsnæðis lækkar.
  • Gert er ráð fyrir að álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt eða 14,74% í samræmi við lögbundna heimild sveitarfélaga.
  • Hækkun á gjaldskrám verður að jafnaði 7,5% til samræmis við breytingar á verðlagi.
  • Gert er ráð fyrir að íbúar verði um 13.753 í byrjun árs 2024 og er ætluð íbúafjölgun 2,4%.
  • Áætlun gerir ráð fyrir að skuldaviðmið 2024 verði 99,5%.

„Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar endurspeglar mikinn metnað í uppbyggingu innviða samhliða því að leggja áherslu á hátt þjónustustig og lægstu gjöldin á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að barnafjölskyldum“, segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri. „Reksturinn er traustur og við áætlum tæpan milljarð í afgang á næsta ári“.

Fjárfesting og endurnýjun mannvirkja

Alls er gert ráð fyrir nýframkvæmdum upp á 5,1 miljarð króna og viðhaldsframkvæmdum upp á 258.m.kr. Stærstu einstaka framkvæmdirnar á næsta ári eru byggina leikskóla í Helgafellshverfi, nýtt íþróttahús við Helgafellsskóla og endurbygginga aðalvallar við Varmá. Þá er gert ráð fyrir uppbyggingu innviða í nýju 89 þúsund fermetra verslunar-, þjónustu- og athafnasvæðis Korputúns við Korpúlfsstaðaveg sunnan Blikastaða. Áformað er að fyrsti áfangi nýrra gatna og veitna við atvinnusvæðið Korputún verði boðinn út í byrjun næsta árs. Framkvæmdir við nýja íbúabyggð í Helgafellslandi verða áfram eitt af stóru uppbyggingarverkefnum komandi árs.

Hófsamar gjaldskráhækkanir og góð þjónusta við börn og fjölskyldur

Gjaldskrárhækkanir eru mjög hófsamar og hækka ekki umfram verðlag. Þannig verða gjaldskrár Mosfellsbæjar áfram með þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu í leikskólum og fæðisgjaldi í leik- og grunnskólum. Þá er gert ráð fyrir að börn fædd 1. ágúst 2023 eða fyrr komist inn í leikskóla haustið 2024. Bærinn mun enn fremur greiða niður dagvistun hjá dagforeldrum þannig að foreldrar greiði jafnhátt gjald hjá dagforeldrum og á leikskólum til að jafna aðstæður fjölskyldna. Áhersla verður á innleiðingu farsældarlaga og að styrkja Mosfellsbæ enn frekar sem Barnvænt sveitarfélag. Þá verður settur aukinn kraftur í innleiðingu á nýrri menntastefnu og eflingu upplýsingatækni í skólum.

Umbætur í þjónustu og stafræn vegferð

Þjónusta við íbúa Mosfellsbæjar er sett í forgang með auknum fjárfestingum í stafrænni umbreytingu, gerð þjónustustefnu og fleiri umbótatillögum tengdum rekstri og stjórnsýslu. Mosfellsbær hefur þátttöku í tilraunaverkefninu Gott að eldast sem felur í sér að samþætta þjónustu heimahjúkrunar og stuðningsþjónustu. Einnig verða fyrstu skrefin í innleiðingu á velferðartækni tekin þar sem tæknilausnir eru nýttar til að auka þjónustu við aldraða.

 

Viðhengi



Attachments

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2024-2027 - samþykkt 6.12.2023