Sýn hf.: Sýn hf. hefur lokið sölu á hluta af starfsemi Endor ehf.


Í dag var ritað undir kaupsamning á hluta af starfsemi Endor ehf. en áður hafði verið tilkynnt um viljayfirlýsingu um kaup á erlendri starfsemi Endor ehf., sbr. kauphallartilkynning dags. 8. júlí 2024.

„Við erum afar ánægð með að hafa lokið þessari sölu. Viðskiptin snerta aðallega alþjóðlega starfsemi Endor og stærri innlenda viðskiptavini sem nýta sér sérhæfðar miðlægar gagnaveralausnir. Innlendir viðskiptavinir Endor verða því að mestu leyti áfram þjónustaðir af Endor ehf. Við erum sannfærð um að framtíðarsamvinna með Hexatronic muni enn frekar styrkja lausnaframboð Endor fyrir viðskiptavini þess. Salan mun ekki hafa veruleg áhrif á rekstrarafkomu Sýnar hf.,” segir Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýn hf.

„Gagnaver eru eitt af vaxtarsvæðum okkar. Reksturinn sem við erum að kaupa einblínir á samþættar upplýsingatæknilausnir fyrir stærri fyrirtæki, sem er aðlaðandi hluti markaðarins og þýðir að við erum að auka vöruframboð okkar. Við erum ánægð með að bjóða nýja samstarfsfélaga velkomna til Hexatronic,“ segir Martin Åberg, aðstoðarforstjóri Hexatronic.

Kaupin munu ekki hafa umtalsverð áhrif á afkomu Hexatronic. Í heild munu færri en fimm starfsmenn flytjast yfir til Hexatronic.

Nánari upplýsingar veita fjárfestatengsl Sýnar hf.: fjarfestatengsl@syn.is