Reykjavík, 28 apríl 2008. Bakkavör Group hefur keypt ítalska fyrirtækið Italpizza sem sérhæfir sig í framleiðslu á ferskum og frosnum eldbökuðum pizzum. Kaupverðið er trúnaðarmál en kaupin voru fjármögnuð með láni frá Mizuho Corporate Bank Limited. Helstu viðskiptavinir fyrirtækisins eru stórmarkaðir, heimsendingarþjónustur og veitingastaðir víðsvegar um Evrópu og Norður - Ameríku. Italpizza var stofnað árið 1991 og er með 230 starfsmenn í Modena á Norður Ítalíu. Velta fyrirtækisins nam 4,9 milljörðum króna (40 milljónum evra) á árinu 2007. Italpizza verður hluti af Bakkavör Group frá kaupdegi og munu kaupin hafa veruleg áhrif á veltu og afkomu af starfsemi félagsins á meginlandi Evrópu. Bakkavör gerir ráð fyrir að salan hjá Italpizza muni aukast um 15% og EBITDA muni nema að minnsta kosti 606 milljónum króna (5 milljónum evra). Ágúst Guðmundsson, forstjóri: „Italpizza er alþjóðlegt fyrirtæki, þekkt fyrir framleiðslu sína á ekta ítölskum hágæða pizzum og fellur því sérlega vel að starfsemi Bakkavarar. Þetta er í fyrsta skipti sem við kaupum fyrirtæki sem sérhæfir sig að mestu í framleiðslu á frosnum tilbúnum vörum sem sýnir mismunandi áherslur okkar á hverjum markaði fyrir sig. Þessi kaup marka einnig upphaf starfsemi okkar á Ítalíu, styrkja samkeppnisforskot okkar í framleiðslu á tilbúnum pizzum, auk þess sem að grundvöllur skapast fyrir frekari vöxt á alþjóðavettvangi á þessu sviði.“ Frekari upplýsingar veita: Ágúst Gudmundsson, forstjóri Sími: 550 9700 Ásdís Pétursdóttir, fjárfestatengsl Sími: 858 9715 Um Bakkavör Group Bakkavör Group er leiðandi alþjóðlegt matvælafyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu ferskra tilbúinna matvæla. Bakkavör Group rekur nú 63 verksmiðjur og er með yfir 20 þúsund starfsmenn í 10 löndum. Höfuðstöðvar félagsins eru í Reykjavík og er félagið skráð á OMX Nordic Exchange á Íslandi. (Auðkenni BAKK). Bakkavör Group var stofnað árið 1986 og hefur starfsemi félagsins vaxið verulega á síðastliðnum 20 árum. Í dag er félagið leiðandi í framleiðslu á ferskum tilbúnum matvælum á alþjóðavísu. Félagið hefur leiðandi markaðstöðu í Bretlandi í lykilvöruflokkum sínum og framleiðir yfir 6.000 vörutegundir í 18 vöruflokkum. Vörur félagsins eru seldar undir vörumerkjum stórmarkaðanna. Meginhluti starfseminnar fer fram í Bretlandi en auk þess er félagið með starfsemi í Frakklandi, Belgíu, Spáni, Tékklandi, Suður-Afríku, Kína, Bandaríkjunum, á Ítalíu og á Íslandi. Skráning á póstlista Bakkavör Group: investor.relations@bakkavor.com