- Eignasafn endurskipulagt og rekstrarkostnaður lækkaður - - Fjárhagsstaða félagsins áfram sterk en eigið fé nemur 115 milljörðum króna - Helstu fjárhagsleg atriði: » Tap FL Group eftir skatta nam 47,8 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi 2008. » Stærstan hluta tapsins má rekja til 21,4% lækkunar á gengi hlutabréfa í Glitni (20,6 milljarða króna tap), lækkunar gengis í öðrum skráðum félögum (13,8 milljarða króna tap) og sölu á eftirstandandi hlutum í Commerzbank, Finnair og Aktiv Kapital (11,3 milljarða króna tap). » Heildareignir í lok fyrsta ársfjórðungs námu 401 milljarði króna. » Eigið fé nam 115.2 milljörðum að meðtöldum 7 milljarða þýðingarmun. Eiginfjárhlutfall á fyrsta ársfjórðungi var 29% og eiginfjárhlutfall fjárfestingastarfsemi var 33%. » Handbært fé nam 18,9 milljörðum króna. Eftirstandandi skuldir sem koma til gjalddaga á árinu 2008 nema um 7,0 milljörðum króna. » Rekstrarkostnaður á fyrsta ársfjórðungi 2008 vegna fjárfestingastarfsemi nam 588 milljónum króna sem er 33,5% lækkun á milli ára og 73,1% lækkun frá fjórða ársfjórðungi 2007. » Tap Tryggingamiðstöðvarinnar, sem tilheyrir samstæðureikningi FL Group, nam 3,3 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi 2008 sem skýrist að mestu af tapi á fjárfestingastarfsemi félagsins. Helstu atriði úr rekstri félagsins: » Markaðsáhætta félagsins hefur verið minnkuð umtalsvert með sölu skráðra eigna sem ekki falla að endurskipulagðri fjárfestingastefnu félagsins. Félagið seldi á ársfjórðungnum eignarhluti í Commerzbank, Finnair og Aktiv Kapital fyrir um 60 milljarða króna. » Helstu hreyfingar á óskráðum eignum félagsins á fyrsta ársfjórðungi voru sala á 43,1% hlut í Geysi Green Energy fyrir 10,5 milljarða króna, 4,5 milljarða króna fjárfesting í Glacier Renewable Energy Fund, sala fasteignasjóða til Landic Property fyrir 20,6 milljarða króna ásamt endurfjármögnun og áframhaldandi uppbygging Refresco. » Ráðist var í umfangsmikla endurskipulagningu félagsins. Aðgerðir til að lækka rekstrarkostnað fyrir árið 2008 um helming miðað við 2007 eru á áætlun. » Í kjölfar endurskipulagningar á fjárfestingastefnu er áhersla í eignasafni félagsins lögð á banka-, trygginga- og fasteignamarkaði. Kjarnaeignir félagsins eru Glitnir, Tryggingamiðstöðin og Landic Property. »Félagið mun áfram styðja við eignasafn sitt í óskráðum félögum. FL Group sækir um skráningu bréfa úr OMX Nordic Exhange á Íslandi: » Þann 1. maí 2008 tilkynnti stjórn félagsins að samþykkt hefði verið að boða til hluthafafundar þann 9. maí næstkomandi og leggja fyrir hluthafa félagsins tillögu stjórnar um skráningu félagsins úr kauphöll OMX Nordic Exchange á Íslandi. » Ef tillagan verður samþykkt á hluthafafundi verður hluthöfum boðið að halda hlutum sínum í FL Group sem óskráðu félagi eða skipta hlutum sínum fyrir hluti í Glitni. » 83% hluthafa hafa fallið frá rétti sínum til að selja hluti í FL Group og munu því verða áfram hluthafar í félaginu. Jón Sigurðsson, forstjóri FL Group: “Undir lok síðasta árs voru kynntar aðgerðir til bregðast við óhagstæðu markaðsumhverfi og það er ánægjulegt að tilkynna að félagið hefur þegar náð umtalsverðum árangri í þessum efnum á fyrsta ársfjórðungi 2008. Við höfum endurskipulagt eignasafn félagsins, lagt áherslu á að viðhalda öflugri fjárhagsstöðu félagsins, breytt skipulagi og hagrætt í rekstri félagsins. Markaðsáhætta félagsins hefur verið minnkuð með sölu skráðra eigna sem ekki falla að fjárfestingastefnu félagsins, við höfum viðhaldið góðri fjárhagslegri stöðu og við erum á réttri leið með að lækka rekstrarkostnað félagsins umtalsvert. Rekstrarniðurstaða fyrsta ársfjórðungs er samt sem áður óásættanleg, en þó ber að taka tillit til þess að félagið hefur lagst í erfiðar en jafnframt nauðsynlegar aðgerðir til að bregðast við mjög erfiðum aðstæðum á fjármálamörkuðum. Undirstöður félagsins eru traustar og við höfum markað skýra stefnu um að styðja við okkar kjarnaeignir, Glitni, Tryggingamiðstöðina og Landic Property og munum áfram leggja áherslu á arðvænleg fjárfestingartækifæri í óskráðum félögum. Enn fremur er það mín skoðun að áform um afskráningu félagsins muni veita félaginu aukinn sveigjanleika og frekari tækifæri til uppbyggingar.“