Q Iceland Finance ehf., dótturfélag í eigu Q Iceland Holding ehf., sem er eignarhaldsfélag hans hátignar Sheikh Mohammed Bin Khalifa Al-Thani, hefur keypt 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. Q Iceland Finance keypti alls 37,1 milljón hluta á genginu 690 kr. á hlut og verður þar með þriðji stærsti hluthafi bankans. Hans hátign Sheikh Mohammed er í konungsfjölskyldunni sem verið hefur við völd í Qatar frá því á nítjándu öld. Hans hátign Sheikh Mohammed:"Við höfum fylgst náið með Kaupþingi í nokkurn tíma og teljum þetta góða fjárfestingu. Staða Kaupþing er sterk og við höfum trú á stefnu og stjórnendum bankans, enda hefur Kaupþing náð góðum árangri við þær erfiðu aðstæður sem nú eru á markaðnum og sýnt fram á getu til þess að breytast og laga sig að nýjum veruleika í bankastarfsemi. Við lítum á hlut okkar í Kaupþingi sem langtímafjárfestingu og hlökkum til að eiga góð samskipti við stjórnendur bankans." Sigurður Einarsson, stjórnarformaður:"Okkur er mikil ánægja að bjóða hans hátign Sheikh Mohammed Bin Khalifa Al-Thani velkominn í hluthafahóp Kaupþings. Það hefur lengi verið stefna okkar að laða nýja fjárfesta að bankanum og því er ánægjulegt að sjá að við höfum nú náð að breikka hluthafahópinn enn frekar. Við hlökkum til þess að vinna með hans hátign Sheikh Mohammed í framtíðinni." Frekari upplýsingar veitir: Jónas Sigurgeirsson, Framkvæmdastjóri Samskiptasviðs, í síma 444 6112
Hans hátign Sheikh Mohammed Bin Khalifa Al-Thani kaupir 5% hlut í Kaupþingi
| Source: Kaupþing banki hf.