* Útgreiðsluhlutfall til sjóðsfélaga er 85,12% * Áherslan var á að breyta eignum í laust fé og lágmarka tap viðskiptavina * Upphæðin lögð inn á opinn hávaxtareikning í nafni sjóðfélaga * Bankinn og Glitnir Sjóðir harma tap sjóðfélaga og óþægindi sem þeir hafa orðið fyrir Reykjavík 30. október, 2008 Glitnir Sjóðir hf. greiða út allar eignir úr Sjóði 9 - peningamarkaðsbréf í dag, fimmtudag. Fjármunirnir verða lagðir inn á sparnaðarreikninga í nafni hvers sjóðfélaga í hlutfalli við eign þeirra í sjóðnum. Útgreiðsluhlutfall sjóðsins er 85,12% sem er allt laust fé sjóðsins sem og það endurgjald sem hann fékk fyrir verðbréfasafn sitt. Þetta hlutfall miðast við síðasta skráða viðskiptagengi í Sjóði 9, þann 6. október sl. Upphæðin verður lögð inn á innlánsreikninga sjóðfélaga. Starfsmenn og stjórn sjóðsins hafa á síðustu vikum lagt höfuðáherslu á að koma verðbréfasafni sjóðsins í verð til þess að geta greitt út inneign sjóðfélaga og lágmarka þannig tap þeirra. Bestu innlánskjör í boði fyrir sjóðfélaga Upphæð, sem svarar til hlutfalls hvers sjóðfélaga í sjóðnum, verður lögð inn á sparnaðarreikning í þeirra nafni hjá Nýja Glitni. Um er að ræða sparnaðarreikning Eignastýringar sem býður bestu fáanlegu kjör hjá Glitni. Sérkjör reikningsins eru í boði fram að áramótum fyrir þá fjárhæð sem sjóðfélagar fá greidda úr sjóðnum. Reikningurinn er opinn og hægt að taka út af honum á hefðbundinn hátt, í útibúum bankans og Netbanka Glitnis. Sjóðfélögum verður sent bréf með nánari upplýsingum um útgreiðslufjárhæð og sparnaðarreikninginn. Hagsmunir sjóðfélaga í forgrunni Peningamarkaðssjóðir á Íslandi hafa verið lokaðir til þess að vernda hagsmuni sjóðsfélaga og freista þess að ná sem bestri niðurstöðu fyrir þá. Lokunin hefur valdið mörgum viðskiptavinum óþægindum sem Glitnir Sjóðir harma. Bankinn hefur reynt að koma til móts við þarfir viðskiptavina sem hafa þurft á aðstoð að halda. Rétt er að árétta að allar fjárfestingar Sjóðs 9 hafa verið í samræmi við lög, reglur og fjárfestingarheimildir sjóðsins. Það var síðast staðfest af Fjármálaeftirlitinu 2. október sl. á heimasíðu FME - www.fme.is. Nánari upplýsingar veitir: Már Másson, forstöðumaður samskiptasviðs, Nýja Glitni, sími: 844 4990, t-póstur: mar.masson@glitnir.is . Agla Elísabet Hendriksdóttir framkvæmdastjóri Glitnis Sjóða hf, Nýja Glitni, sími: 844 4917, t-póstur: agla.hendriksdottir@glitnir.is .
Glitnir Sjóðir greiða út allar eignir úr Sjóði 9
| Source: Glitnir banki hf.