- Greinagerð um áhrif á rekstur og efnahag Atorku Group hf. í því ástandi sem ríkir á fjármálamörkuðum


Hér á eftir fer greinargerð um bein og óbein áhrif á rekstur og efnahag Atorku
Group hf. í því óvenjulega ástandi sem nú ríkir á fjármálamörkuðum, en
Fjármálaeftirlitið fer fram á að allir útgefendur hlutabréfa, sem tekin hafa
verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi, birti slíka
greinargerð. 

Hér koma svör Atorku við sjö spurningum Fjármálaeftirlitsins. 


1.  Yfirlit yfir þróun í starfsemi útgefanda í ljósi efnahagsaðstæðna og
umfjöllun um markverða atburði sem hafa gerst frá birtingu síðasta
árshlutareiknings. 

Það sem helst hefur gerst í rekstri Atorku frá birtingu síðasta
árshlutareiknings er veruleg veiking íslensku krónunnar, mikið fall á
hlutabréfamörkuðum sem og nýjar hagtölur um samdrátt í efnahagslífi heimsins. 
Jafnframt hafa þrír stærstu bankar landsins verið þjóðnýttir og mikil óvissa er
um stöðu allra fjármálagerninga sem þeim tengjast.  Þetta hefur þau áhrif á
Atorku að efnahagsreikningur félagsins stækkar bæði eigna- og skuldamegin líkt
og gerst hefur allt þetta ár.  Óvissa ríkir enn um alla fjármálagerninga sem
voru við þjóðnýttu bankana.  Áhrif á rekstrarreikning Atorku eru þau að lækkun
á skráðum eignum hefur neikvæð áhrif, en félagið hefur selt verulega af skráðum
eignum sínum það sem af er ári.  Stærstur hluti félaga í eignasafni félagsins
eru fjármögnuð hjá stórum N-Evrópskum bönkum.  Lækkun vaxta á flestum
fjármálamörkuðum hefur jákvæð áhrif á flest fyrirtæki í eignasafni félagsins. 
Hún mun hjálpa erlendum fyrirtækjaverkefnum útgefanda sem eru fjármögnuð í
myntum viðkomandi landa.  Hins vegar hefur hækkun stýrivaxta á Íslandi ásamt
mikilli verðbólgu þau áhrif að fjármagnskostnaður félagsins eykst.  Hækkun á
hrávöruverðum hefur haft neikvæð áhrif á rekstur þeirra félaga sem eru háð
slíkum sveiflum en á móti kemur að mikil lækkun á hrávöruverðum síðastliðnar
vikur mun að sama skapi hafa jákvæð áhrif á komandi misserum. 

2.  Atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu útgefanda og afkomu
hans. 

Þau atriði sem eru hvað mikilvægust við mat á fjárhagslegri stöðu Atorku og
afkomu félagsins eru þróun fyrirtækjaverkefna, þróun skráðra eigna,
gjaldmiðlaþróun og þróun vaxta.  Fjárfestingar Atorku eru nánast eingöngu í
framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum.  Fyrirtækjaverkefni félagsins eru einkum á
sviðum endurnýtanlegrar orku, umbúðalausna í plasti, vatnshreinsiiðnaðar,
umhverfistækni og vörudreifingar.  Þessi félög eru flest fjármögnuð til lengri
tíma eða skuldlétt og rekstur þeirra gengur almennt ágætlega.  Verulegur hluti
af rekstri fyrirtækjaverkefna Atorku er utan Íslands en rekstur hérlendis er að
stærstum hluta í endurnýtanlegri orku. 

3.  Umfjöllun um mögulega óvissu við mat á eignum og skuldum útgefanda vegna
óvenjulegra aðstæðna og hvaða áhrif þessi óvissa kann að hafa. 

Möguleg óvissa Atorku við mat á eignum og skuldum vegna óvenjulegra aðstæðna er
helst sú að erfitt er að spá fyrir um afdrif þeirra fjármálagerninga sem
félagið hefur við viðskiptabanka sína á Íslandi.  Óljóst er með stöðu og þróun
afleiðusamninga sem gerðir voru til þess að lágmarka gjaldeyrisáhættu félagsins
og lækka fjármagnskostnað og voru stór hluti af áhættustýringu Atorku.  Félagið
vinnur að lausn þessara mála. 

4.  Hvaða áhrif lækkandi gengi íslensku krónunnar hefur haft á útgefanda?

Helstu áhrif lækkunar á gengi íslensku krónunnar eru þær að
efnahagsreikningurinn stækkar og eiginfjárhlutfall félagsins lækkar að sama
skapi. 

5.  Hvort nú sé til staðar sérstök áhætta umfram venjulega áhættu í starfsgrein
útgefanda, þ.m.t. viðskiptaleg og fjármálaleg áhætta sem kann að hafa áhrif á
útgefanda. 

Við þær aðstæður sem nú ríkja á Íslandi er meiri áhætta en ella í öllum
atvinnugreinum, en ekki hvað síst í fjármálatengdum greinum.  Áhrifin eru helst
þau að óljóst er hvaða eignir og skuldir verða í nýju bönkunum og hvaða eignir
og skuldir verða í gömlu bönkunum og hvernig vinna á með þær eignir af hálfu
bankana í framtíðinni. 

6.  Áhrif ytra umhverfis á útgefanda og ráðstafanir sem hindra, draga úr eða
bæta tjón sem hann verður fyrir vegna þessara áhrifa. 

Þau áhrif sem ytra umhverfi hefur á Atorku eru helst eins og áður segir veiking
íslensku krónunnar gagnvart öðrum myntum, hærra vaxtastig, aukin verðbólga og
áhætta tengd þjóðnýtingu á íslensku bönkunum.  Þær ráðstafanir sem félagið
hefur gripið til á þessu ári er sala eigna og niðurgreiðsla skulda.  Atorka
hefur jafnframt notast við gengisvarnir að því marki sem félagið getur sem vörn
gegn þessum neikvæðu áhrifum. 

7.  Væntanleg þróun og framtíðarhorfur útgefanda, að meðtöldum sérstökum
forsendum og óvissuþáttum. 

Væntanleg þróun og framtíðarhorfur félagsins til skemmri tíma eru að miklu
leyti háð ytri þáttum s.s. hvernig tekst til með endurreisn bankakerfisins á
Íslandi sem og hvernig til tekst með opnun á viðskiptum með íslensku krónuna á
nýjan leik auk þróun hagvaxtar í heiminum.  Eignasafn Atorku er dreift á 
margar atvinnugreinar og í félögum sem sem starfa á mörkuðum sem hafa góðan
undirliggjandi vöxt og teljum við langtímahorfur þeirra góðar.