Í samræmi við samþykkt hluthafafundar Exista 30. október síðastliðnum hefur stjórn Exista ákveðið að auka hlutafé í félaginu um 50 milljarða hluta, eins og fram kom í tilkynningu til Kauphallar frá 4. desember, í skiptum fyrir 1 milljarða hluta í Kvakki ehf. Hlutafé eftir hækkun nemur 64.174.767.632 hluta. Þessi viðskipti fela í sér að fyrri eigendur Kvakks ehf., Ágúst Guðmundsson og Lýður Guðmundsson, leggja Exista til 1,0 milljarð króna í reiðufé. Eftir kaupin nemur eignarhlutur BBR ehf. og Bakkabraedur Holding B.V., sem bæði eru í eigu Ágústs Guðmundssonar og Lýðs Guðmundssonar, samtals 88% af heildarhlutafé Exista. Í samræmi við ákvæði X. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti mun BBR ehf. því leggja fram yfirtökutilboð í bréf annarra hluthafa Exista hf. Tilboðsyfirlit þar sem skilmálar tilboðs koma fram verður birt innan fjögurra vikna. Tillaga um niðurfærslu hlutafjár Stjórn Exista hf. mun leggja til við hluthafafund Exista hf. síðar í þessum mánuði að hlutafé verði fært niður um allt að 98%. Niðurfærsla hlutafjár þýðir að fjöldi hluta fer úr 64.174.767.632, hver að nafnverði 1 króna, í um það bil 1.283.495.353 hluti, hver að nafnverði 1 króna. Tillaga um forgangsréttarútboð Jafnframt hyggst stjórnin leggja fram tillögu um heimild til hlutafjáraukningar í formi forgangaréttarútboðs til hluthafa á næsta ári. Markmið stjórnar með forgangsréttarútboði væri að gefa hluthöfum kost á þátttöku í enduruppbyggingu Exista ef núverandi viðræður við fjármálastofnanir skila árangri sem tryggja framtíð félagsins. Verð hluta í forgangsréttarútboði mun samsvara verði í framangreindum viðskiptum eða 1,0 króna á hlut að teknu tilliti til niðurfærslu hlutafjár. Í ljósi núverandi óvissu um framtíð Exista telur stjórnin hins vegar varhugavert að boða til almenns hlutafjárútboðs fyrr en staða félagsins gagnvart bönkum og lánardrottnum hefur skýrst frekar. Nánari upplýsingar: Samskiptasvið Exista Sigurður Nordal framkvæmdarstjóri Sími: 550 8620 ir@exista.com