Undanfarna mánuði hefur verið unnið að endurskipulagningu á starfsemi SPRON til þess að mæta breyttum aðstæðum í íslensku efnahagslífi. Meginmarkmið breytinganna er að auka hagræðingu í rekstri og mæta þeim tekjusamdrætti sem fyrirsjáanlegur er næstu misserin. Nauðsynlegt er að bregðast við breyttu rekstrarumhverfi nú og eru aðgerðirnar óháðar áformum um sameiningu SPRON, Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs en munu styðja við þau áform. Nýtt skipurit Breytingar hafa verið gerðar á skipuriti SPRON með það fyrir augum að einfalda skipulag félagsins. Sviðum félagsins hefur verið fækkað í tvö, SPRON sparisjóð og fjárhagssvið. Aðrar helstu breytingar á skipulagi félagsins er að fjárstýring verður lögð niður sem sérstakt svið og starfsemi þess færð undir Fjárhagssvið. Ósvaldur Knudsen framkvæmdastjóri fjárstýringar verður með breytingunni nú forstöðumaður fjárstýringar. Áhættustýring verður ennfremur færð undir Fjárhagssvið og verður Páll Árnason áfram forstöðumaður áhættustýringar. Valgeir M. Baldursson er framkvæmdastjóri fjárhagssviðs. Þjónustusvið verður lagt niður og hluti starfseminnar færð undir Mannauð og rekstur og hluti undir SPRON sparisjóð. Harpa Gunnarsdóttir verður framkvæmdastjóri Mannauðs og reksturs en hún var framkvæmdastjóri þjónustusviðs áður. Ólafur Haraldsson verður framkvæmdastjóri SPRON sparisjóðs eins og áður. Upplýsingatæknisvið verður lagt niður og verða verkefni sviðsins færð undir Mannauð og rekstur að hluta og SPRON sparisjóð að hluta. Ólafur Haraldsson framkvæmdastjóri SPRON sparisjóðs gegndi stöðu framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs fyrir breytingarnar. Starfsemi Netbankans verður óbreytt en Geir Þórðarson framkvæmdastjóri Netbankans mun hætta hjá Netbankanum samhliða þessum breytingum og hefja störf hjá SPRON sparisjóði. Sævar Þórisson tekur við starfi framkvæmdastjóra Netbankans en hann var áður markaðsstjóri Netbankans. Unnið er að endurskoðun á starfsemi Frjálsa fjárfestingabankans og SPRON verðbréfa með það að markmiði að ná fram frekari hagræðingu með samþættingu verkefna milli félaganna og SPRON. Kristinn Bjarnason er framkvæmdastjóri Frjálsa Fjárfestingabankans og Björg Kristinsdóttir er framkvæmdastjóri SPRON verðbréfa. Útibú SPRON í Skeifunni og Borgartúni sameinuð, stöðugildum fækkað og laun lækkuð Við breytingarnar verður útibúi SPRON í Skeifunni lokað og starfsemi þess færð í útibú SPRON í Borgartúni. Útibú SPRON verða sex eftir breytingarnar. Stöðugildum fækkar um 10 og verða starfsmenn SPRON nú 190. Til þess að lágmarka fjölda uppsagna var samið um lækkun starfshlutfalls við nokkra starfsmenn og yfirvinna og hlunnindi lágmörkuð. Stefnt er að allt að 50% lækkun rekstrarkostnaðar á árinu 2009 frá fyrra ári og verið er að endurskoða alla kostnaðarliði til lækkunar en m.a. hefur verið samið um lækkun launa við þá starfsmenn sem eru með laun yfir 450 þúsund krónur. Lækkunin mun nema á bilinu 10-30% og fer stighækkandi eftir því sem launin eru hærri. Guðmundur Hauksson forstjóri: “Ljóst er að með vaxandi efnahagsþrengingum munu verkefni banka og sparisjóða breytast og tekjumöguleikar þeirra dragast verulega saman næstu misserin. Endurskipulagning á starfsemi SPRON nú er því óhjákvæmileg til þess að mæta breyttum aðstæðum og óháð því hvort af sameiningu við Sparisjóðinn í Keflavík og Byr verður eða ekki.” Fréttatilkynningin í heild sinni er í viðhengi. Frekari upplýsingar veitir: Jóna Ann Pétursdóttir forstöðumaður samskipta, sími 550 1771/840 8225.