Nettósala nam 118,3 milljónum evra EBITDA varð 6,1 milljón evra Helstu atriði • Nettósala nam 492,7 milljónum evra fyrstu níu mánuði fjárhagsársins, dróst saman um 0,9% á samanburðargrundvelli (like for like basis) en salan nam 118,3 miljónum evra á 3. ársfjórðungi, dróst saman um 3,6% á samanburðargrundvelli. • EBITDA eftir einskiptiskostnað nam 47,6 milljónum evra fyrstu níu mánuði fjárhagsársins, dróst saman um 6,1% á samanburðargrundvelli. EBITDA nam 6,1 miljón evra á 3. ársfjórðungi, dróst saman um 13,1% á samanburðargrundvelli. • Afkoman var neikvæð um 0,3 milljónir evra á 3. ársfjórðungi, en gengi gjaldmiðla og fjárfestingar vegna endurskipulagningar starfseminnar hafði þar áhrif. • Sala samstæðunnar leið fyrir áframhaldandi efnahagskreppu, erfitt neytendaumhverfi, óhagstæðar breytingar á gengi gjaldmiðla og hátt hráefnisverði á laxi. • Hagræðingarverkefni var sett af stað til að bæta reksturinn, minnka kostnað og styrkja fjármálastjórn. • Nettó veltufé frá rekstri nam 43,9 milljónum evra fyrstu níu mánuði fjárhagsársins. • Fjárhagsleg staða félagsins er áfram sterk og reksturinn traustur en nettóskuldir nema 141,9 milljónum evra en hlutfall skulda á móti eigin fé var 43% við lok 3. ársfjórðungs. Xavier Govare forstjóri: „Eins og við var að búast var 3. ársfjórðungur erfiður fyrir félagið og ókyrrð á þeim mörkuðum sem við störfum á. Margt varð til þess að hafa áhrif á sölu okkar og afkomu á fjórðungnum en þar má helst nefna örar breytingar á kauphegðun neytenda, versnandi efnahagsskilyrði, óhagstæðar gengisbreytingar, áframhaldandi hátt hráefnisverð og sú staðreynd að páskar lentu innan fjórða ársfjórðungs. Í ljósi þessara erfiðu aðstæðna vorum við engu að síður ánægð með sölu samstæðunnar en hún dróst einungis saman um 3,6% á samanburðargrundvelli og varð 118,3 milljónir evra. Í ljósi versnandi efnahagsaðstæðna og breyttrar kauphegðunar neytenda, sem sækjast meira eftir ódýrari vörum, gerðum við ráðstafanir til að geta boðið viðskiptavinum okkar gæðavörur á viðráðanlegu verði og halda markaðsstöðu okkar í harðnandi samkeppni. Þetta tókst með því að bjóða meiri gæði fyrir minna verð, öflugri vöruþróun, markvissari kynningarstarfsemi og strangt kostnaðareftirlit. Afkoma okkar á 3. ársfjórðungi leið fyrir tiltölulega hátt hráefnisverð á laxi og rækju en sú verðþróun hafði þegar hafist á fyrri ársfjórðungum. Við reiknum með að til skemmri og lengri tíma verði hráefnisverð tiltölulega hátt vegna lítils framboðs, óhagstæðrar gengisþróunar og mikillar eftirspurnar. Við getum áfram mætt einhverjum hluta þessa kostnaðarauka með góðum árangri og með því að bæta skilvirkni í rekstrinum. Með núverandi efnahagsástand í huga gerum við allt til að tryggja að félög á okkar vegum vinni eftir heilbrigðu og traustu viðskiptamódeli þar sem áherslan er á kostnaðareftirlit og jákvætt fjárstreymi. Í þessu sambandi verður áfram haldið að skera niður óarðbæra kostnaðarliði innan samstæðunnar. Það gerum við t.d. með því að hagræða og styrkja skipulag starfseminnar í Frakklandi, m.a. með því að sameina ákveðna starfsemi, innleiða sameiginleg tölvukerfi og með því að gera skipulag starfseminnar skilvirkara. Að auki munum við hætta framleiðslu óarðbærra vara og semja um verðhækkanir þar sem það á við meðal viðskiptavina okkar. Við vinnum ennfremur hörðum höndum að því að ná betri stjórn á framleiðslukostnaði en í því felst m.a. að sameina framleiðslu Blini og LTG (sem framleiða smurvörur og blini) í einni verksmiðju og einnig að sameina alla slátrun Labeyrie undir einu þaki. Með réttum áherslum í starfseminni og einbeittum starfsmönnum eru langtímamarkmið okkar að byggja upp sterka og sjálfbæra starfsemi sem skilar hluthöfum arði. Við ætlum að ná þessu takmarki með því að fjárfesta í vörumerkjum, vöruþróun, nýrri tækni, skilvirkum verksmiðjum og uppkaupum á fyrirtækjum.“