Aðalfundur Bakkavör Group hf. verður haldinn miðvikudaginn 20. maí nk. kl. 10:30 í höfuðstöðvum félagsins að Ármúla 3, 108 Reykjavík. Eftirtalin mál eru á dagskrá fundarins: 1. Skýrsla stjórnar félagsins um starfsemi þess síðastliðið ár. 2. Ársreikningur fyrir liðið starfsár, ásamt áritun endurskoðanda, lagður fram til samþykktar. 3. Ákvörðun um greiðslu arðs og jöfnun taps fyrir síðastliðið reikningsár. 4. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna. 5. Kosning stjórnar félagsins. 6. Kosning endurskoðunarfélags. 7. Tillögur stjórnar um starfskjarastefnu. 8. Heimild til kaupa á eigin hlutum. - Lagt er til að stjórn félagsins verði veitt heimild til kaupa á allt að 10% á eigin hlutum félagsins á næstu 18 mánuðum. 9. Önnur mál. Dagskrá, endanlegar tillögur og ársreikningur félagsins munu liggja frammi á skrifstofu félagsins hluthöfum til sýnis sjö dögum fyrir aðalfund. Ennfremur verður hægt að nálgast umrædd gögn á vefsíðu félagsins, www.bakkavor.com, frá sama tíma. Tillögur frá hluthöfum sem bera á upp á aðalfundi skulu vera komnar í hendur stjórnarinnar eigi síðar en sjö dögum fyrir aðalfund. Sérstaklega er bent á að þeir sem hyggjast gefa kost á sér til setu í stjórn félagsins skulu tilkynna það skriflega til stjórnar félagsins að minnsta kosti fimm sólarhringum fyrir upphaf aðalfundar. Þeir einir eru kjörgengir sem þannig hafa gefið kost á sér. Í tilkynningu skal geta auk nafns frambjóðanda, kennitölu og heimilisfangs, upplýsinga um aðalstarf, önnur stjórnarstörf, menntun, reynslu og hlutafjáreign í félaginu. Auk þess skal geta upplýsinga um hagsmunatengsl við helstu viðskipta- og samkeppnisaðila félagsins sem og hluthafa sem eiga meira en 10% hlut í félaginu. Stjórn félagsins skal fara yfir framboðstilkynningar og gefa hlutaðeigandi tækifæri, með sannanlegum hætti til þess að bæta úr göllum sem eru á tilkynningunni innan tiltekins frests sem eigi má vera lengri en 24 klukkustundir. Ef ekki er bætt úr ágöllum á framboðstilkynningu innan tiltekins frests, úrskurðar stjórn félagsins um gildi framboðs. Unnt er að skjóta ákvörðun stjórnar félagsins til hluthafafundar sem fer með endanlegt úrskurðarvald um gildi framboðs. Upplýsingar um framboð til stjórnar félagsins skulu vera aðgengilegar hluthöfum á skrifstofu félagsins eigi síðar en tveimur dögum fyrir aðalfund. Atkvæðaseðlar og önnur fundargögn verða afhent á aðalfundardaginn frá kl. 10:00 á fundarstað. Athygli er vakin á að atkvæðisréttur miðast við hluthafaskrá að morgni 19. maí 2009. Fundarstörf fara fram á ensku. Reykjavík, 13. maí 2009 Stjórn Bakkavör Group hf. Tillögur lagðar fyrir aðalfund 20. maí 2009 Félagsstjórn Bakkavör Group hf. leggur eftirfarandi tillögur fyrir aðalfund félagsins 20. maí 2009: 1. Tillaga félagsstjórnar um greiðslu arðs og jöfnun taps fyrir síðastliðið rekstrarár. Stjórn Bakkavör Group hf. gerir að tillögu sinni að aðalfundur félagsins haldinn 20. maí 2009, samþykki að ekki verði greiddur arður til hluthafa. Tap félagsins að fjárhæð 153.872 þúsund sterlingspund verði fært til lækkunar á eigin fé félagsins. 2. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna. Aðalfundur Bakkavör Group hf. haldinn 20. maí 2009 samþykkir að þóknun til hvers stjórnarmanns, þ.m.t. stjórnarformanns, verði 18.000 sterlingspund á ári frá aðalfundi 2009 til aðalfundar 2010. Ekki er greidd sérstök þóknun fyrir setu í undirnefndum stjórnar. 3. Framboð til stjórnar. Framboðsfrestur rennur út fimm dögum fyrir upphaf aðalfundar. Upplýsingar um frambjóðendur til stjórnar verða birtar eigi síðar en tveimur dögum fyrir aðalfund. 4. Tillaga félagsstjórnar um kosningu endurskoðunarfélags. Lagt er til að Deloitte hf., Smáratorgi 3, 201 Kópavogur, verði endurkjörið endurskoðunarfélag Bakkavör Group hf. fyrir árið 2009. 5. Tillaga um starfskjarastefnu. Stjórn Bakkavör Group hf. gerir að tillögu sinni að starfskjarastefna Bakkavör Group hf. sem samþykkt var á aðalfundi félagsins 14. mars 2008 verði samþykkt á ný í óbreyttri mynd. 6. Tillaga um heimild félagsstjórnar til kaupa á hlutabréfum í Bakkavör Group hf. Stjórn Bakkavör Group hf. gerir að tillögu sinni að aðalfundur félagsins árið 2009, haldinn 20. maí 2009, samþykki eftirfarandi tillögu um heimild til félagsstjórnar til að kaupa eigin hluti í félaginu: „Aðalfundur Bakkavör Group hf. haldinn 20. maí 2009 samþykkir með vísan til 55. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995, að heimila stjórn á næstu 18 mánuðum að kaupa allt að 10% af eigin hlutum í félaginu. Má kaupverð bréfanna verða allt að 20% yfir meðalsöluverði hluta skráðum í Kauphöll Íslands á næstliðnum tveimur vikum áður en kaup eru gerð og skal kaupverð hlutanna ekki vera lægra en 0,01 kr. á hlut. Ekki eru sett lágmörk á heimild þessa hvað varðar stærð hluta sem keyptir eru hverju sinni. Með samþykki þessarar tillögu fellur niður sams konar heimild, sem samþykkt var á síðasta aðalfundi.“ Tillögur þær sem gerðar eru um breytingar á samþykktum eiga sér stoð í lögum um hlutafélög nr. 2/1995, sbr. lög nr. 89/2006.