-Innlausn á hlutum í Alfesca hf.


Lur Berri Iceland ehf., kt. 420409-0790, Skógarhlíð 12, Reykjavík, („Lur Berri
Iceland”) og stjórn Alfesca hf., kt. 580293-2989, Kringlunni 7, Reykjavík,
(„Alfesca”) hafa ákveðið að þeir hluthafar í Alfesca sem ekki samþykktu
yfirtökutilboð Lur Berri Iceland og eru ekki í hópi samstarfsaðila um stjórn og
rekstur Alfesca skuli sæta innlausn af hálfu Lur Berri Iceland á hlutum sínum,
sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. 

Lur Berri Iceland og samstarfsaðilar um stjórn og rekstur Alfesca eiga samtals
91,34% hlutafjár í Alfesca og fara með 91,87% atkvæðisréttar í félaginu. 
Innlausnin tekur til allra annarra hluta og nær til annarra hluthafa Alfesca
sem skráðir eru í hlutaskrá félagsins í upphafi dags 26. ágúst 2009. Þeim
hluthöfum er send þessi tilkynning ásamt framsalseyðublaði. Tilkynning þessi er
birt í dagblöðum í samræmi við samþykktir Alfesca um boðun aðalfundar, sbr. 1.
mgr. 110. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. 

Hluthafar í Alfesca, sem innlausnin tekur til, eru hvattir til að framselja Lur
Berri Iceland hluti sína í Alfesca innan fjögurra vikna frá dagsetningu
þessarar tilkynningar. 

Innlausnarverðið er 4,5 kr. fyrir hvern hlut í Alfesca. Greitt verður fyrir
hlutina með reiðufé. Er um að ræða sama verð og Lur Berri Iceland bauð
hluthöfum Alfesca í yfirtökutilboði frá 25. júní 2009. Greiðslan verður innt af
hendi 29. september 2009. 

Til að framselja Lur Berri Iceland hluti sína í Alfesca þurfa hluthafar að
fylla út framsalseyðublað sem þeim mun verða sent með þessari tilkynningu. Rétt
útfyllt framsalseyðublað verður að berast Fyrirtækjaráðgjöf Nýja Kaupþings
banka hf., Borgartúni 19, 105 Reykjavík, fyrir kl. 12:00 þann 24. september
2009. 

Hafi hlutir í Alfesca ekki verið framseldir Lur Berri Iceland í samræmi við
framangreint, verður andvirði hlutanna í Alfesca greitt inn á geymslureikning í
nafni viðkomandi hluthafa. Frá þeim tíma telst Lur Berri Iceland réttur eigandi
viðkomandi hluta í Alfesca, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga um verðbréfaviðskipti
nr. 108/2007. 

Nýi Kaupþing banki hf. hefur umsjón með innlausninni fyrir hönd Lur Berri
Iceland. Nánari upplýsingar veita verðbréfaráðgjafar bankans í síma 444-7000. 

Vakin er sérstök athygli hluthafa á því að Nýja Kaupþingi banka hf. er óskylt
að meta hvort viðskipti í tengslum við innlausnina séu viðeigandi fyrir þá.
Þeir njóta því ekki þeirrar verndar sem í slíku mati felst samkvæmt 16. gr.
laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Er hluthöfum bent á að leita sér
sérfræðiaðstoðar vegna viðskiptanna. 



Reykjavík, 26. ágúst 2009
Fyrir hönd Lur Berri Iceland ehf. og stjórnar Alfesca hf.

Nýi Kaupþing banki hf. - Fyrirtækjaráðgjöf

Pièces jointes

alfesca-innlausn-tilkynning20090826.pdf alfesca-innlausn-framsalseyubla20090826.pdf