Fréttatilkynning vegna niðurstöðu dóma héraðsdóms


Vegna niðurstöðu dóma héraðsdóms í málum varðandi Peningamarkaðssjóð
Landsbankans vill Landsvaki árétta að Landsvaki hf. og Landsbanki Íslands hf.
voru sýknaðir af öllum aðalkröfum stefnenda. 

Í dómunum er eftirfarandi tekið fram: Fjárfestingar sjóðsins hafi verið innan
fjárfestingaheimilda og þeirra laga sem gilda um verðbréfa- og
fjárfestingarsjóði. Markaðssetning Peningabréfa Landsbankans hafi ekki verið
villandi varðandi áhættustig og öryggi. Kynning sjóðsins hafi verið í samræmi
við reglur hans og útboðslýsingu svo og lagaákvæði sem hana varðar.
Kynningarefni hafi verið skýrt og aðgengilegt og markaðssetning á engan hátt
villandi. 

Landsvaki lýsir sig ósammála niðurstöðu dómsins um varakröfu stefnenda.
Samkvæmt dómnum bar Landsvaka að lækka gengi sjóðsins þann 10. september 2008
vegna frétta um að líkur væru á að ábyrgð vegna XL Leisure Group myndi falla á
Eimskip. Dómurinn telur að þeir sem innleystu á tímabilinu frá 10. september
2008 til lokunar 6. október hafi fengið of hátt verð fyrir eignarhlut sinn í
sjóðnum og þeir sem eftir sátu hafi orðið fyrir tjóni. 

Landsvaki vill taka fram að niðurfærslur eigna voru að mati félagsins
fullnægjandi í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga á hverjum tíma.