Fimmtudaginn 1. nóvember 2012 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fjarðabyggðar fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og stofnana fyrir árið 2013, þriggja ára áætlun fyrir árin 2014-2016 og langtímaáætlun sem nær til áranna 2017-2023. Seinni umræða bæjarstjórnar um fjárhagsáætlanirnar verður þann 15. nóvember n.k.
Í A hluta er Aðalsjóður auk eignasjóða. Í B hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir og sorpstöð. Rekstrarafgangur samstæðu A og B hluta á árinu 2013 fyrir fjármagnsliði er áætlaður 911 m.kr. Þar af er rekstrarafgangur A hluta 403 m.kr. Að teknu tilliti til fjármagnsliða er rekstrarafgangur hjá samstæðu A og B hluta 348 m.kr. og þar af rekstrarafgangur í A hluta 15 m.kr. Þriggja ára áætlun gerir ráð fyrir rekstrarafgangi hjá A hluta öll árin. Þá er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur aukist frá ári til árs bæði hjá A hluta og samstæðu A og B hluta.
Áætlað er að eigið fé samstæðu nemi 669 m.kr. í árslok 2013 og eiginfjárhlutfall verði 6,1%. Í árslok 2016 er áætlað að eigið fé samstæðu nemi 1.868 m.kr. og eiginfjárhlutfall verði 17,2%. Í A hluta er eigið fé neikvætt um 1.006 m.kr. í árslok 2013. Jákvæð afkoma í A hluta í þriggja ára áætlun, styrkir eigið fé sem er í árslok 2016 er áætlað að verði neikvætt sem nemur 709 m.kr.
Handbært fé frá rekstri í A og B hluta nemur 1.020 m.kr. á árinu 2013, fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum eru áætlaðar 766 m.kr. og afborganir langtímalána 826 m.kr. Handbært fé í samstæðu er áætlað 407 m.kr. í árslok 2013 og lækkar um 470 m.kr. frá ársbyrjun. Í þriggja ára áætlun nemur handbært fé frá rekstri í samstæðu á árunum 2014-2016 samtals 3.022 m.kr. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum eru áætlaðar 1.272 m.kr. og afborganir langtímalána 1.771 m.kr. Þá er handbært fé í árslok 2016 462 m.kr.
Í 64 gr. nýrra sveitarstjórnarlaga er tóku gildi 1. janúar 2012 er kveðið á um að skuldaviðmið A og B hluta sé ekki hærra en sem nemur 150%. Gefinn hefur verið 10 ára aðlögunartími til að ná hlutfallinu eða til 2022. Miðað við útgefna reglugerð er framangreint skuldaviðmið áætlað 187% í árslok 2013 hjá samstæðunni. Miðað við langtímaáætlun sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að það nái 150% viðmiðunarhlutfallinu innan sex ára og hefur sveitarfélagið verið í góðum samskiptum við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga vegna skuldastöðu sinnar. Framlegðarhlutfall (EBIDTA) er 21,1 % í samstæðu og 17,5% í A-hluta á árinu 2013 og helst stöðugt í langtímaáætlunum sveitarfélagsins.
Stærstu fjárfestingaverkefni á næstu árum eru framkvæmdir við nýjan leikskóla á Norðfirði, áframhald framkvæmda við snjóflóðavarnarmannvirki á Norðfirði og hjúkrunarheimili á Eskifirði. Þá eru fyrirhugaðar framkvæmdir hjá hafnarsjóði sem m.a. snúa að stækkun hafnaraðstöðu og lengingu togarabryggjunnar í Neskaupstað ásamt minni framkvæmdum víðsvegar um sveitarfélagið.
Fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins má finna á heimasíðu þess: www.fjardabyggd.is/stjornsysla/fjarmal
Nánari upplýsingar um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar veita:
Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri og Gunnar Jónsson bæjarritari í síma 470-9000.