Skipti selja kröfu á hendur Glitni
Skipti hf. hafa selt kröfu félagsins á hendur Glitni. Hagnaður félagsins af sölunni nemur 305 milljónum króna. Eins og fram hefur komið í rekstraruppgjörum var krafan færð á 2.300 m.kr. í bókum félagsins. Kaupandi kröfunnar var erlend fjármálastofnun og er greitt fyrir kröfuna með reiðufé.
Orri Hauksson forstjóri Símans og Skipta: „Við erum mjög ánægð með þessa sölu sem markar lok á löngu ferli og eyðir ákveðinni óvissu í efnahagsreikningi félagsins. Söluverðið er mjög ásættanlegt og lausafjárstaða félagsins er nú enn sterkari en áður.“
Forsaga málsins er að á árinu 2009 lögðu Skipti fram kröfur á hendur Glitni vegna framvirkra gengissamninga. Krafan á Glitni var upphaflega færð til bókar á 9,5 milljarða króna. Glitnir hefur viðurkennt kröfuna. Árið 2011 höfðuðu Skipti mál á hendur Glitni vegna uppgjörsgengis samninganna og töpuðu Skipti því máli í héraðsdómi á árinu 2013 og í hæstarétti á árinu 2014.
Frekari upplýsingar:
Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550-6003.
Pétur Þ. Óskarsson, yfirmaður samskipta Símans, s. 863-6075.