"Þessi tilkynning er upprunalega birt á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is
Hagvöxtur í fyrra er talinn hafa verið minni en áætlað var í nóvemberspá bankans eða 4,1% í stað 4,6%. Horfur eru á svipuðum hagvexti í ár eða 4,2%. Það er 1 prósentu meiri vöxtur en spáð var í nóvember og skýrist frávikið af horfum um meiri vöxt einkaneyslu en þá var gert ráð fyrir enda útlit fyrir að laun hækki meira, atvinna vaxi hraðar og verðbólga verði minni.
Áætlað er að framleiðsluslaki hafi horfið á sl. ári og útlit er fyrir vaxandi spennu. Hækkun launa langt umfram verðbólgumarkmið og framleiðnivöxt eykur verðbólguþrýsting en alþjóðleg þróun orku- og hrávöruverðs og gengisþróun krónunnar vega á móti. Verðbólga hefur verið minni en spáð var í nóvember og horfur eru á að svo verði áfram fram á næsta ár. Verðhjöðnun á alþjóðlegum vörumörkuðum gæti hins vegar stöðvast og snúist við á næstu misserum. Samkvæmt alþjóðlegum spám er búist við að það gerist er líða tekur á þetta ár. Meðal annars þess vegna er gert ráð fyrir að verðbólga hér á landi verði komin yfir 3% undir árslok og í 4% ári síðar. Óvissa er hins vegar um umfang og tímasetningu þessara umskipta.
Alþjóðleg verðlagsþróun og sterkari króna hafa veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt. Það breytir hins vegar ekki því að miðað við spá Seðlabankans er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni.