Fimmtudaginn 3. nóvember 2017 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fjarðabyggðar fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og stofnana fyrir árið 2017 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2018-2020. Seinni umræðu bæjarstjórnar um fjárhagsáætlun 2017 og þriggja ára áætlun 2018-2020 er áætluð 1. desember n.k..
Nokkur óvissa er á þessum tímapunkti um endanlega niðurstöðu áætlunarinnar vegna aðstæðna í ytra umhverfi sveitarfélagsins. er varðar loðnuveiðar á árinu 2017 og gengisstyrkingu íslensku kr. Þá þarf að vinna að aukinni hagræðingu í rekstri A hluta sveitarfélagsins. Tillagan þarfnast af þeim sökum lengri umfjöllunar á milli umræðna í bæjarstjórn og kann það að hafa áhrif á efnislega niðurstöðu hennar. Þá liggur enn ekki endanlega fyrir hvor mótframlag til lífeyrissjóða mun aukast frá og með áramótum, en það mun auka launakostnað sveitarfélagsins um 56.millj. kr.
Rekstrarafgangur samstæðu A og B hluta á árinu 2017 fyrir fjármagnsliði nemur 712 m.kr. Þar af er rekstrarafgangur A hluta 275 m.kr. Að teknu tilliti til fjármagnsliða er rekstrarafgangur hjá samstæðu A og B hluta áætlaður að fjárhæð 319 m.kr. en rekstur í A hluta erí járnum. Þriggja ára áætlun gerir ráð fyrir rekstrarafgangi af A hluta og af samstæðu öll árin.
Eigið fé samstæðu nemur 3.879 m.kr. í árslok 2017 og eiginfjárhlutfall 31,4%. Í árslok 2020 er gert ráð fyrir að eigið fé samstæðu nemi 4.813 m.kr. og eiginfjárhlutfallið verði um 38,3%. Í A hluta er eigið fé jákvætt um 193 m.kr. í árslok 2017. Þriggja ára áætlunin gerir ráð fyrir að eigið fé í A hluta í árslok 2020 verði 365 m.kr.
Handbært fé frá rekstri í samstæðunni nemur 1.067 m.kr. á árinu 2017, fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 703 m.kr og afborganir langtímalána 484 m.kr. Handbært fé í samstæðu verður 150 m.kr. í árslok 2017 og lækkar um 105 m.kr. frá ársbyrjun.
Skuldaviðmið samstæðu Fjarðabyggðar er komið undir 150% og áætlað 123% í árslok 2017. Skuldir og skuldbindingar samstæðu, sem hlutfall af heildartekjum, er áætlað 137,6% í árslok 2017 og 124,5% í árslok 2020. Framlegðarhlutfall (EBIDTA) er áætlað rúm 18% í samstæðu og rúm 10% í A hluta á tímabilinu 2017 – 2020 og helst nokkuð stöðugt í langtímaáætlunum sveitarfélagsins.
Stærstu fjárfestingaverkefni næstu ára eru við hafnarmannvirki vegna aukinna umsvifa í hafnsækinni starfsemi auk ýmissa minni verkefna í veitum. Draga mun nú úr framkvæmdum A hluta við lok byggingar á nýjum leikskóla í Neskaupstað.
Áætlunin fyrir árið 2017 gerir ráð fyrir 3,9% meðalbreytingum verðlags milli áranna 2016 og 2017 í samræmi við fyrirliggjandi þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Vænta má að við síðari umræðu liggi fyrir ný þjóðhagsspá ásamt nýju mati á þróun útsvarstekna. Áætlunin gerir einungis ráð fyrir 1% hækkun útsvarstekna á milli áætlana þ.e. frá áætlun 2016 til áætlunar ársins 2017. Skýrist sú litla hækkun af þróun sjávarútvegs og áliðnaðar, styrkingu íslensku krónunnar og áhrifum viðskiptabanns á innflutning sjávarafurða til Rússlands.
Í fjárhagsáætluninni er lögð áframhaldandi áherslu á velferð fjölskyldufólks í Fjarðabyggð. Gjaldskrárhækkunum er almennt mjög stillt í hóf og standast þær samanburð við önnur sveitarfélög. Þá er systkinaafsláttur í leikskólum sem og milli frístundaheimila og leikskóla óbreyttur á milli ár og er, ásamt tónlistarskólagjöldum, með því hagstæðasta sem gerist á landinu.
Sterkir innviðir Fjarðabyggðar draga að sér áhuga fjárfesta. Hefur þessi áhugi einkum beinst að atvinnuuppbyggingu í hafnsækinni starfsemi, s.s. vegna olíuleitar á Drekasvæðinu. Þá kallar sterkur og vaxandi sjávarútvegur í sveitarfélaginu á auknar framkvæmdir í hafnarmannvirkjum. Framangreint sýnir sterka stöðu sveitarfélagsins til framtíðar litið, sem endurspeglast m.a. í þeirri fjárhagsáætlun sem lögð var fram í bæjarstjórn Fjarðabyggðar í dag.
Nánari upplýsingar um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar veita Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri og Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.